Bræðslan Tveggja metra reglan er ekki beint í anda vinsælla tónleika eins og sjá má á þessari mynd af Bræðslunni sem er drekkhlaðin stemningu.
Bræðslan Tveggja metra reglan er ekki beint í anda vinsælla tónleika eins og sjá má á þessari mynd af Bræðslunni sem er drekkhlaðin stemningu. — Ljósmynd/Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Tveggja metra reglan svokallaða gerir það að verkum að ómögulegt er að halda viðburði innandyra, að sögn Magna Ásgeirssonar, tónlistarmanns og annars Bræðslustjóra.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Tveggja metra reglan svokallaða gerir það að verkum að ómögulegt er að halda viðburði innandyra, að sögn Magna Ásgeirssonar, tónlistarmanns og annars Bræðslustjóra.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis varðandi afléttingu takmarkana á samkomum vegna kórónuveirufaraldursins eftir 4. maí er lagt til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki 2.000 manns út ágúst.

Ef fylgja á tveggja metra reglunni á tvö þúsund manna viðburði þarf viðburðurinn að vera haldinn á svæði sem samsvarar tveimur Laugardalsvöllum, eða tveimur hekturum, segir Magni.

Þannig er einnig býsna flókið og nokkurn veginn ómögulegt að halda viðburði utandyra og framfylgja um leið tveggja metra reglunni sem hefur verið í gildi síðustu vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Á blaðamannafundi almannavarna í gær sagði sóttvarnalæknir að tveggja metra reglan væri að öllum líkindum komin til að vera í bili.

„Þessi tveggja metra regla þýðir náttúrlega að það er ekki hægt að halda viðburði innandyra, það segir sig nokkurn veginn sjálft. Á einhverjum tímapunkti þarf líka bara að segja það,“ segir Magni sem tekur þó fram að hann skilji tilmæli heilbrigðisyfirvalda vel og standi fyllilega með þríeykinu.

Einungis 750 miðar eru seldir ár hvert á Bræðsluna, tónleika sem haldnir eru á Borgarfirði eystra ár hvert í lok júlí, svo fjöldatakmarkanir ættu ekki að hafa áhrif á tónleikana. Tveggja metra reglan gæti þó sett strik í reikninginn enda gjarnan þétt staðið á vinsælum tónleikum Bræðslunnar.

Miðasala á Bræðsluna er ekki hafin og enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort hátíðin verði haldin en að sögn Magna eru Bræðslustjórar og aðrir skipuleggjendur vongóðir.

„Við erum bara sultuslakir, við erum ekki búin að segja neitt eða gefa neitt út. Við erum enn þá vongóðir um að þetta ástand sé á réttri leið enda hljótum við að vona að ef þetta heldur svona áfram, og smit verði fá eða engin daglega eftir tæpa þrjá mánuði, þá hljóti að vera í lagi að nokkrir komi saman í Borgarfirði og haldi partí.“

Undirbúningi lokið

Magni vonar að tveggja metra reglan verði bráðlega rýmkuð svo mögulegt sé að halda viðburði án þess að brjóta hana. Í það minnsta þurfi að skilgreina betur hvernig skipuleggjendur viðburða skuli framfylgja reglunni.

„Ef tvö þúsund manns mega koma saman og tveggja metra reglan er í gildi þarf vel yfir tvo hektara. Það eru tveir Laugardalsvellir, hver á að passa að það séu tveir metrar á milli allra? Þetta er svolítið misvísandi. Ég skil mjög vel að einhver tilmæli um fjarlægð séu í gildi og er fullkomlega með þríeykinu í liði en einhvern tíma þarf samt að útskýra þetta.“

Undirbúningi fyrir Bræðsluna lauk að mestu í byrjun árs og segir Magni að skipuleggjendur bíði nú bara og voni. Þeir hafi nú þegar teiknað tvær til þrjár sviðsmyndir sem þeir gætu gripið til svo mögulegt yrði að halda hátíðina og framfylgja um leið öllum ströngustu lögum og reglum.

„Við erum með plan-B ef það verður betra að halda tónleikana utan dyra eða eitthvað slíkt. Við erum alveg til í að prófa hvað sem er.“