Lent Norwegian er hólpið í bili.
Lent Norwegian er hólpið í bili. — AFP
Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian tilkynnti á sunnudag að samið hefði verið við lánardrottna félagsins um að breyta um 1,2 milljarða dala virði af skuldum í hlutafé.

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian tilkynnti á sunnudag að samið hefði verið við lánardrottna félagsins um að breyta um 1,2 milljarða dala virði af skuldum í hlutafé. Að sögn Reuters þýðir þetta að eignarhald yfir félaginu færist að stærstum hluta til kröfuhafa flugfélagsins, en samningurinn eykur líkurnar á að takist að bjarga rekstrinum á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir.

Samkomulagið náðist á síðustu stundu því aukaaðalfundur hefur verið boðaður hjá Norwegian í dag, mánudag, þar sem vonir standa til að hluthafar samþykki nýja björgunaráætlun fyrir flugfélagið.

Viðræður við kröfuhafa runnu út í sandinn á föstudag en um helgina tókst Norwegian að tryggja sér stuðning nægilega hás hlutfalls skuldabréfaeigenda til að breyta skuldum félagsins. Nú hyggst Norwegian gefa út ný hlutabréf og þannig afla 400 milljóna norskra króna, jafnvirði um 5,6 milljarða íslenskra króna. Þar sem hlutfall skulda af eigin fé hefur batnað mun félagið geta nýtt sér lánaábyrgð sem norska ríkið veitir, að upphæð allt að 2,7 milljörðum norskra króna. ai@mbl.is