Harmonikumót Samleikur karla og kvenna í Ýdölum í Aðaldal.
Harmonikumót Samleikur karla og kvenna í Ýdölum í Aðaldal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Stefnt er að því að fyrirhuguð harmonikumót einstakra félaga í júlí og ágúst verði á sínum stað en mótin í júní hafa verið felld niður vegna kórónuveirufaraldursins og landsmótinu, sem átti að vera í Stykkishólmi fyrstu helgina í júlí, hefur verið frestað um eitt ár af sömu ástæðu.

„Ekkert annað var í stöðunni en að fresta landsmótinu um ár,“ segir Friðjón Hallgrímsson, formaður skemmtinefndar Félags harmonikuunnenda í Reykjavík (FHUR) og fyrrverandi formaður félagsins, sem átti að sjá um landsmótið í sumar. „En við leggjumst ekki í kör og höldum áfram að þenja nikkuna.“

Dansarar af guðs náð

Samband íslenskra harmonikuunnenda (SÍHU) var stofnað 3. maí 1981. Í því eru 14 félög með um 1.000 félagsmenn. Félögin skiptast á um að halda landsmót á þriggja ára fresti. 13. landsmótið fór fram á Ísafirði 2017 og það verður næst í Stykkishólmi 2021. Auk þess eru venjulega mót á Borg í Grímsnesi fyrstu helgina í júní og um verslunarmannahelgina, á Laugarbakka í Miðfirði aðra helgi í júní, á Steinsstöðum í Skagafirði um Jónsmessuna og í Ýdölum í Aðaldal síðustu helgina í júlí. „Við höfum haldið mótið á Borg um verslunarmannahelgina síðan 2004 og höfum ekki slegið það af í ár, ég ætla meira að segja að auglýsa það í næsta Harmonikublaði,“ segir Friðjón, sem er ritstjóri blaðsins. Hann bætir við að 600-700 manns mæti að jafnaði á landsmót en 150-300 á hin mótin. „Í sumar förum við eftir reglum um leyfilegan fjölda vegna kórónuveirunnar,“ leggur hann áherslu á.

Friðjón hefur verið ötull félagi í FHUR í um 35 ár en hann byrjaði að spila á harmoniku fyrir um 45 árum. „Ég er ættaður vestan af Hellissandi en fæddist í Reykjavík, í 20 fermetra sumarbústað við Laugarásveg,“ segir hann um upprunann. „Þegar ég var að verða þrítugur erfði ég nikku frá pabba og fór að fikta á hana. Það er svolítið öðruvísi harmonika en menn eru almennt með, svona gamaldags harmonika, en ég náði lagi á hana og hef verið með hana alla tíð, hef haldið mig við þá gömlu.“ Hann bætir við að hann hafi aldrei lært hjá kennara heldur spili eftir eyranu. „Ég kann engar nótur fyrir utan það að ég þekki debet- og kreditnótur,“ segir sölumaðurinn fyrrverandi hjá Slippfélaginu í Reykjavík. Hann hefur reyndar komið víða við, var til dæmis farandsali, stjórnaði harmonikuþáttum í ríkisútvarpinu og gaf út diskinn Dustað af dansskónum með Hilmari Hjartarsyni svila sínum, en þeir komu fram undir nafninu Vindbelgirnir á árum áður.

Gleðin er í fyrirrúmi á harmonikumótunum. „Þetta eru tónleikar og dansleikir alla dagana, ósköp skemmtilegar stundir,“ segir Friðjón. „Menn fara í sparigallann og eru jafnvel með hvítt um hálsinn.“

Á landsmótunum halda öll félögin tónleika á föstudögum og laugardögum og spilar hljómsveit hvers félags í 15 til 20 mínútur. Síðan er dansað á kvöldin. „Við spilum allt milli himins og jarðar fyrir utan nýtt popp,“ segir Friðjón. „Danstónlist er í hávegum höfð og sving og tjútt er vinsælast, en gömlu dansarnir halda alltaf velli enda kann fólkið að dansa alla þessa dansa.“