[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Valsmenn staðfestu um helgina að þeir hefðu fengið knattspyrnumanninn Aron Bjarnason lánaðan frá Újpest í Ungverjalandi til loka komandi tímabils hér á landi.

*Valsmenn staðfestu um helgina að þeir hefðu fengið knattspyrnumanninn Aron Bjarnason lánaðan frá Újpest í Ungverjalandi til loka komandi tímabils hér á landi. Aron lék 16 leiki með Újpest í efstu deild í vetur en hann fór til liðsins frá Breiðabliki í júlí og lék áður með ÍBV, Fram og Þrótti. Hann er 24 ára og hefur skorað 24 mörk í 113 leikjum í efstu deild hérlendis.

*Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson lyfti 501 kg á laugardaginn í beinni útsendingu heima hjá sér og mun því vera fyrstur allra til að lyfta meiru en hálfu tonni í réttstöðulyftu. Hann skákaði með því Eddie Hall , keppinaut sínum í keppni um sterkasta mann heims, sem lyfti 500 kílóum árið 2016. Ekki er um heimsmet í réttstöðulyftu í kraftlyftingum að ræða því lyftan uppfyllir ekki skilyrði fyrir keppni í þeirri grein. Þar á Júlían J.K. Jóhannsson heimsmetið í +120 kg flokki, 405,5 kg.

* Anna Björk Kristjánsdóttir , landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður PSV Eindhoven í Hollandi, gæti leikið á Íslandi í sumar. Hún staðfesti í hlaðvarpsþættinum Heimavellinum um helgina að hún ætti í viðræðum við íslensk félög.

*Spánverjinn Roberto Martínez hefur samið á ný við Belga um að stýra karlalandsliði þeirra í knattspyrnu fram yfir HM sem fer fram í Katar í árslok 2022. Belgar hafa verið á mikilli sigurbraut undir stjórn Martínez, aðeins tapað þremur leikjum af 43 undir hans stjórn. Þeir komust í undanúrslit HM 2018 í Rússlandi og eru efstir á heimslista FIFA.

* Hákon Hermannsson Bridde hefur verið ráðinn yfirþjálfari handknattleiksdeildar Gróttu til þriggja ára. Hákon hefur undanfarin tvö tímabil þjálfað karla- og kvennalið norska félagsins Florö en áður þjálfaði hann yngri flokka hjá HK um árabil.

*Handknattleiksmaðurinn Þorgeir Bjarki Davíðsson hefur samið við Val til tveggja ára. Hann er 23 ára hornamaður og lék alla 20 leiki HK í úrvalsdeildinni í vetur en spilaði áður með Fram og Gróttu og yngri landsliðum íslands.

*Körfuknattleiksþjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson hefur sagt starfi sínu lausu hjá danska félaginu Horsens eftir eitt ár sem þjálfari liðsins.

Finnur stýrði liðinu til úrslita í danska bikarnum og var í toppbaráttu í dönsku úrvalsdeildinni, áður en keppni var hætt vegna kórónuveirunnar. Áður en hann hélt út gerði hann KR að Íslandsmeisturum fimm ár í röð og þá hefur hann verið í þjálfarateymi A-landsliðs karla. Ákvörðun Finns var tekin í ljósi ástandsins sem ríkir í heiminum um þessar mundir.

* Andri Heimir Friðriksson var um helgina ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍR í handknattleik og hann mun jafnframt leika með liðinu. Andri, sem er þrítugur, hefur leikið með Fram undanfarin tvö ár og áður með ÍBV og Haukum en hann er uppalinn ÍR-ingur og lék með félaginu til 2010. Hann verður nýjum þjálfara ÍR-inga, Kristni Björgúlfssyni , til aðstoðar.