Heimsókn Málvísindamaðurinn Rasmus Kristian Rask heimsótti Ísland haustið 1813.
Heimsókn Málvísindamaðurinn Rasmus Kristian Rask heimsótti Ísland haustið 1813.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Málvísindamaðurinn Rasmus Kristian Rask (1787-1832) var sérstakur áhugamaður um íslenska tungu og hafði mikil áhrif á íslenska málhreinsun á 19. öld og þróun tungunnar í átt til málstaðals 20.
Bókarkafli | Málvísindamaðurinn Rasmus Kristian Rask (1787-1832) var sérstakur áhugamaður um íslenska tungu og hafði mikil áhrif á íslenska málhreinsun á 19. öld og þróun tungunnar í átt til málstaðals 20. aldar og var auk þess viðriðinn Hið íslenska bókmenntafélag sem enn stendur í blóma. Kirsten Rask rekur ævintýralega sögu hans í bókinni Rasmus Kristian Rask.

Ferðin til fyrirheitna landsins

Íslenski kaupmaðurinn hafði heyrt vini sína heima á Íslandi nefna Rask og varð afar hrifinn af að hitta Dana sem talaði móðurmál hans og hafði lifandi áhuga á fornbókmenntum Íslendinga. Áform Rasks voru þau að leggja stund á tungumálið fyrst í stað, síðan á söguna og loks á allt tiltækt varðandi samfélagið.

Hann var fyrstur málvísindamanna til að sækja Ísland heim í því augnamiði að læra tungumálið. En fyrstu áhrifin voru engan veginn í samræmi við draumsýnir hans. Hrifning hans á sögueyjunni gömlu og tungumáli þess, „eyjunni heilögu! Hinu gríðarmikla hofi langminnisins“, hafði dregið hann svo á tálar að hugmyndir hans stóðust engan veginn veruleikann.

Rask kom til Íslands að haustlagi 1813. Skipið Skálholt hefði átt að sigla snemma um sumarið, en hið ótrygga stjórnmálaástand, sem meðal annars tengdist bankahruninu sama ár, seinkaði brottförinni. Það veitti honum ráðrúm til að sækja um styrki og hann fékk í senn fé frá Bülow, konunginum og Norðmanni nokkrum, „Aal riddara“, járnsmiðjueiganda. J. Aal hugðist losa hann undan þeirri áþján að bjóða upp á aukatíma í reikningi svo að hann gæti í staðinn lokið við ritgerð sína.

Vísindafélagið hafði árið 1812 gefið út skrifleg fyrirmæli um verðlaunaritgerð sem skyldi fjalla um uppruna fornnorrænna tungumála á grundvelli rannsókna. Rask hafði sent inn uppkast að svari og beðið um fá afhendingarfrestinn rýmkaðan til ársins 1813. Á það var fallist og nú hafði hann tækifæri til að uppfylla fyrsta markmið drauma sinna, að læra íslensku „til fullnustu“ eins og honum var einungis unnt á Íslandi. Með sér í farteskinu hafði hann hið ófullgerða handrit að ritgerðinni.

Reykjavík – á lágmenningarnótum

Fyrst um sinn dvaldi hann í hinum nýja höfuðstað, Reykjavík, sem var lítið bæjarfélag 500 íbúa. Hinar opinberu stofnanir voru dómkirkjan, landsyfirrétturinn og tukthúsið, og einmitt árið 1813 varð að sleppa öllum föngum lausum vegna þess að ekki var hægt að fæða þá.

Það voru margir danskir kaupmenn í höfuðstað Íslands. Umræðurnar í bænum voru „eins lágkúrulegar og hugsast gat“ og bærinn „algerlega laus við sérhverja lind til þess að svala andlegum þörfum“.

Rask fann sér gistingu hjá íslenskum kaupmanni, en það var bara eitt herbergi í húsi kaupmannsins þar sem allt heimilisfólkið hafðist við. Þar sat hann og skrifaði ritgerðina á meðan aðrir gengu um og töluðu hver í kapp við annan – og annað slagið einnig við hann.

Reykjavík var heldur ekki til þess kjörin að læra íslensku. Hann komst að því að í Reykjavík var mál manna mjög dönskuskotið og hann óttaðist að íslenska myndi brátt heyra sögunni til ef ekki yrði gripið hart í taumana. Ef þróunin fengi að haldast óáreitt myndi varla nokkur skilja íslensku í Reykjavík að hundrað árum liðnum og tæpast enginn í landinu öllu eftir 200 ár. Hann vildi leggja sitt af mörkum í því skyni að bjarga íslenskri tungu.

Hann varð að komast út á land en það reyndist örðugra en hann hafði ímyndað sér heima. Árið 1813 var „geggjaða peningaárið“. Gömlu peningaseðlarnir höfðu glatað verðgildi sínu í bankahruninu og nýskipan peningamála í danska ríkinu frá 1813 tók fyrst gildi á Íslandi tveimur árum síðar. Hann gat því ekki notað nýju bankaseðlana sem hann hafði með sér að heiman en varð að bjargast við vöruskipti.

Íslenskir vinir sóttir heim

Fyrst fór hann í tvær „litlar en í hæsta máta óþægilegar ferðir“. Sú fyrri var til æskuvinar frá Kaupmannahöfn, Árna Helgasonar, sem nú var prestur á Reynivöllum í Kjós. Hann dvaldi hjá Árna í viku og var undrandi á hinum lélegu húsakynnum:

Prestssetur hans er, hvað húsnæði varðar, tæplega eins þægilegt og gott og hið landlausa hús föður míns á Fjóni. Það er með moldarveggjum og torfþaki, án kolaofns; eldhúsið er út af fyrir sig og alveg eins lítið og okkar ytra eldhús og notað sem lestrarherbergi.

Eftir dvölina hjá séra Árna sneri Rask aftur til Reykjavíkur og skömmu seinna hélt hann austur í Rangárvallasýslu til séra Steingríms Jónssonar sem bjó á hinu forna sögusetri Odda. Þar hafði Snorri Sturluson, höfundur Eddu hinnar yngri, fengið sína fræðilegu menntun. Prestsembætti séra Steingríms átti að heita eitt hið besta á Íslandi og bær hans var líka ögn stærri og eilítið betri en bær séra Árna, skrifaði Rask.

Frá Odda fór Rask í skemmtiferð til hins fræga býlis úr Njálssögu, Hlíðarenda, sem stendur á fögrum stað í grænum dal með hlíðar á báða vegu og í fjarska blasa við snæviþaktir jöklar. Ásamt fóstursyni séra Steingríms, Ólafi Finnssyni, fór hann í tjaldferð, meðal annars til þess að sjá goshverina heitu, 80 km norðaustur af Reykjavík. Þetta sjaldgæfa og furðulega náttúrufyrirbæri gagntók Rask, og í bréfi heim lýsti hann í smáatriðum hvernig lindirnar heitu draga sig saman ofan í jörðina og bólgna svo skyndilega upp:

Hann [hverinn] skaut gríðarlegu magni af sjóðandi og glóðheitu vatni upp í loftið, stöðugt í hverju gosinu á eftir öðru [...] Allt þetta sjónarspil líktist sérlegri flugeldasýningu; sérhver vatnssúla sem þaut í loft upp líktist flugeldi.

Um kvöldmatarleytið voru föt þeirra gegnvot svo þeir hugsuðu sér til hreyfings og héldu af hverasvæðinu og frá Geysi á nálægan bóndabæ, Laugarvatn, þar sem Vernharður bóndi tók á móti þeim af mikilli gestrisni. Hér var þeim heimil gisting og þeir gátu þurrkað fötin sín.

Þrátt fyrir vonbrigði í fyrstu varð tveggja ára dvöl á Íslandi honum ógleymanleg, ekki síst vegna „óbeislaðrar náttúru [...] þar sem ógnþrungnir náttúrukraftar berjast hver við annan, breiða út tryllta krafta sína þúsund sinnum án sýnilegs tilgangs, já, að engum ásjáandi, eyðileggja að öllu leyti hin yndislegustu landsvæði, spilla landi, gera fólkið snautt og drepa búfénað“.

Þessi reynsla efldi með Rask guðlausa heimsmynd og afneitun á hugmyndinni um æðri forsjón sem öllu ræður. Í hans augum var glundroði hið ríkjandi afl í heiminum,

...trylltur óreiðukraftur sem fer þvert í gegnum sjálfan sig, vinnur gegn sjálfum sér og skiptir sér endalaust, en þar með sundrar hann einnig og eyðir sjálfum sér, þar sem stundum eitt atóm, stundum annað atóm hefur sig upp rétt eins og eldblossi til þess aftur að kulna og hverfa, en þar sem engin sýnileg regla, engin miðstýrð eining ríkir, þar sem ekkert auga getur séð fyrir þau atvik sem í næstu andrá munu fylgja í kjölfar fjölda smárra aðstæðna, til að mynda einhverri leynilegri geðshræringu í tilteknum einstaklingi, óverulegri breytingu í lofti og því um líkt.

Heimssýn Rasks var snemmborinn undanfari þess sem á okkar dögum kallast „öngþveitiskenning“, að vængjablak fiðrildis í Kína geti komið af stað fellibyl í Flórída.

Því næst héldu þeir áfram til Þingvalla þar sem hið forna Alþingi var háð, einn markverðasti staður sem Rask hafði augum litið, með djúpum gjám í jarðskorpunni, en í hans augum líktist hann risastórum steingarði eða hlöðnum vegg sem svo opnaðist þegar að var komið. „Þetta er undarlegur, fagur og hátíðlegur staður, sem á varla sinn líkan í veröldinni.“

Ísland var á allan hátt miklu meira framandi en Rask hafði gert sér í hugarlund. Kannski hafði hann búist við því að það væri líkt og að „koma heim“. En allt var svo öldungis öðruvísi en hann átti að venjast annars staðar á Norðurlöndum að hann gerði lítið annað en að staðsetja sig þar. Og þeir menn sem hann hugðist ræða við um norræna málfræði og forna texta bjuggu svo langt hver frá öðrum að hann varð að verja löngum tíma á eyjunni. Eins og vænta mátti fann Rask á ferðum sínum að málið var ekki fyllilega „hreint eða ósvikið“ neins staðar á sunnanverðu landinu. Öllu máli skipti að komast norður í land til þess að rannsaka tungumálið þar.

Höf.: Bókarkafli