Ragnhildur Þrastardóttir
ragnhildur@mbl.is
Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.739 milljónum króna í mars, samkvæmt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Marsmánuður er þannig fjórði stærsti mánuður frá upphafi á kvarða útflutningsverðmæta, hvort sem þau eru mæld í krónum eða erlendri mynt, og er verðmætið 27% meira í krónum talið en í marsmánuði síðasta árs og 17% í erlendri mynt. Minni aukning verðmæta í erlendri mynt skýrist af veikingu krónunnar.
Þar sem eldisfyrirtæki hafa ekki farið varhluta af afleiðingum kórónuveiru telja SFS mjög líklegt að aukningin hefði orðið meiri í mars í eðlilegu árferði. Verulegur samdráttur hefur orðið í eftirspurn og verð lækkað.
Telja SFS að áhrifin verði sennilega skýrari í tölum aprílmánaðar.
Verðmætið 8,2 milljarðar
Á þremur fyrstu mánuðum ársins var útflutningsverðmæti eldisafurða rúmir 8,2 milljarðar króna. Það er 26% aukning í krónum talið á milli ára en rúmt 21% í erlendri mynt.„Þar af er útflutningsverðmæti á eldislaxi komið í rúma 6,4 milljarða króna samanborið við 5,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Aukningin þar er nákvæmlega sú sama og á eldisafurðum alls“, segir á vef SFS.
Þá er útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, komið í um 1,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi en var 1,1 milljarður á sama tímabili í fyrra.
Útflutningsverðmæti silungs hefur því aukist hvað mest ef verðmæti einstakra eldisafurða er borið saman, eða um rúm 54% í krónum talið en rúm 48% á föstu gengi.
Þrátt fyrir aukið útflutningsverðmæti eldisafurða almennt hefur samdráttur orðið á útflutningsverðmætum annarra eldisafurða en þeirra sem taldar voru upp hér að ofan. Verðmæti þeirra á fyrsta ársfjórðungi nam 123 milljónum króna en var 353 milljónir á sama tímabili í fyrra.
„Vissulega er fiskeldi enn fremur smátt í sniðum miðað við stærstu útflutningsatvinnugreinarnar, en þar liggja þó veruleg tækifæri til frekari verðmætasköpunar. Því er ofangreind aukning á útflutningsverðmæti eldisafurða jákvæð tíðindi fyrir þjóðarbúið, sér í lagi á tímum sem þessum,“ segir á vef SFS.
Eldisafurðir heyra undir landbúnaðarafurðir í tölum Hagstofunnar en eldisafurðir námu 86% af heildarverðmæti útfluttra landbúnaðarafurða á fyrsta ársfjórðungi.
Miðað við nýja tilraunatölfræði Hagstofunnar virðist útflutningur á eldisafurðum minnka verulega eftir þrettándu viku ársins en það rímar vel við fregnir frá eldisfyrirtækjum.