ÍSÍ Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ fór yfir stöðuna.
ÍSÍ Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ fór yfir stöðuna. — Ljósmynd/Lögreglan
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Íslensk íþróttafélög hefja starfsemi sína á ný í dag en fyrsta þrepið í afléttingu samkomubanns hefur í för með sér að börn og ungmenni 16 ára og yngri geta hafið æfingar að nýju án takmarkana.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Íslensk íþróttafélög hefja starfsemi sína á ný í dag en fyrsta þrepið í afléttingu samkomubanns hefur í för með sér að börn og ungmenni 16 ára og yngri geta hafið æfingar að nýju án takmarkana.

Fullorðnir og ungmenni frá 17 ára aldri þurfa hinsvegar að æfa með takmörkunum næstu þrjár vikurnar eða svo, eða fram að næsta þrepi afléttingarinnar.

KSÍ hefur birt á vef sínum að í meistaraflokki og 2. flokki sé heimilt að skipta knattspyrnuvelli í fullri stærð í fjórar einingar þar sem sjö leikmenn auk þjálfara geti æft í hverri einingu fyrir sig. Gert er ráð fyrir að Íslandsmótið í knattspyrnu fari af stað í júní ef ekki kemur bakslag vegna kórónuveirunnar. Þar hafa dagsetningarnar 5. júní fyrir bikarkeppnina og 14. júní fyrir Íslandsmótið verið nefndar en það er ekki staðfest enn sem komið er.

Áréttað er varðandi leiki og æfingar 16 ára og yngri að ætlast sé til þess að foreldrar séu ekki viðstaddir.

Golfsamband Íslands hefur gefið út leiðbeiningar fyrir kylfinga en fram kemur á vef GSÍ að golf uppfylli nánast öll skilyrði samkomubanns og því er fyrst og fremst lögð áhersla á þá hluti sem gætu orsakað smithættu. Þar er ítarlegar leiðbeiningar að finna um slíkt. Allt mótahald GSÍ er samkvæmt áætlun fyrir sumarið og fer af stað fljótlega.

Engar upplýsingar um byrjun tímabilsins í frjálsíþróttum er að finna á vef FRÍ en samkvæmt mótaskrá eiga fyrstu frjálsíþróttamótin að fara fram 21. maí.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ sagði á upplýsingafundi almannavarna á laugardaginn að tekjutap íþróttahreyfingarinnar vegna veirunnar væri í kringum tveir milljarðar en ítarlega er fjallað um fundinn á mbl.is/sport.