Læknar sem önnuðust Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands á spítala eftir að hann veiktist af kórónuveirunni voru reiðubúnir með yfirlýsingu um andlát hans dæi hann á sjúkrabeðinum.

Læknar sem önnuðust Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands á spítala eftir að hann veiktist af kórónuveirunni voru reiðubúnir með yfirlýsingu um andlát hans dæi hann á sjúkrabeðinum.

Johnson skýrir frá þessu í samtali við blaðið „Sun on Sunday“ í dag. Segist hann hafa þurft á óvenjumikilli súrefnisgjöf að halda til að þrauka. Hann lá m.a. þrjá sólarhringa á gjörgæsludeild St. Thomas'-spítalans.

„Ég var ekki vel á mig kominn og mér varð ljóst að áætlanir voru fyrir hendi. Læknarnir voru búnir að gera alls konar ráðstafanir um hvað gera skyldi ef allt færi á versta veg,“ segir Johnson í samtalinu.

Hann var í sjálfskipaðri einangrun nokkra daga fyrir spítalavistina og segir erfitt að gera sér í hugarlund hversu hratt heilsu hans hrakaði í veikindunum. Verst hafi ástandið á honum verið þegar helmingslíkur voru á að renna þyrfti súrefnisslöngu niður öndunarveginn. Um það leyti hafi læknar byrjað að ræða hvernig þeir ættu að tilkynna ef illa færi.

Johnson og unnusta hans Carrie Symonds tilkynntu í gær að þau hefðu gefið nýfæddum syni sínum nafnið Wilfred Lawrie Nicholas en síðasta nafnið var valið til heiðurs læknum tveimur sem björguðu lífi Johnsons. agas@mbl.is