Bjarni Hafþór Helgason
Bjarni Hafþór Helgason
Eftir Bjarna Hafþór Helgason: "Gleymum ekki að heimurinn hefur náð veirunni niður með verslanir opnar og ýmsa aðra starfsemi í fullum gangi."

Nú fer að renna upp sú stund að við getum auglýst Ísland sem covid-frítt land. Það gleymist stundum þegar horft er á hrollvekjandi tölur um smit að flestir voru heilbrigðir allan tímann. Á Íslandi hafa 99,5% íbúa ekki fengið veiruna og til dæmis Bandaríkjamenn segja hlutfallið enn hærra hjá sér, en kannski rétt að hafa einhvern fyrirvara um þær mælingar. En við óttumst öll mögulega seinni bylgju þessarar pestar. Ég er einn af þeim sem þurfa að forðast þessa veiru sérstaklega og hef lengi verið í sjálfskipaðri sóttkví. En ég velti fyrir mér hvort ekki sé óhætt að opna Ísland fyrir öllum ferðamönnum með tilteknum reglum. Við eigum smitrakningarforritið C-19 og það, ásamt sýnatöku, ætti að geta leitt til þess að ekki þyrfti að setja ferðamenn í sóttkví við komu til landsins. Reglur gætu verið þannig að þegar flugmiði er pantaður til Íslands, hjá hvaða flugfélagi sem er, þyrfti farþeginn að samþykkja að hlaða niður í síma sinn forritinu, á sama nafni og er í vegabréfi hans. Hann samþykkir um leið að nálgast megi gögn forritsins, hvar og hvenær sem er í mánuð eftir að dvöl hans á Íslandi lýkur, en eftir það þarf samþykki hans til skoðunar á þeim. Hann samþykkir einnig sýnatöku við komuna til landsins sem yfirvöldum er heimilt að ráðstafa að vild. Jafnframt segði í skilyrðunum að ef hann uppgötvast með smit eða hefur of lengi umgengist annan smitaðan einstakling samþykkir hann að sæta sóttkví umsvifalaust. Þeir sem ekki fella sig við þessi skilyrði geta ekki keypt flugmiða. Allt er þetta einfalt og þægilegt fyrir farþegann og skapar honum mikilvæga öryggiskennd. Hann pantar flugmiðann og hleður niður forritinu. Þegar hann mætir á flugvöllinn framvísar hann vegabréfi og sýnir forritið. Sprittþvotttur fer fram áður en farið er um borð, einnig skömmu fyrir lendingu og við komu í Leifsstöð. Mögulega verða sett skilyrði um notkun andlitsgrímu á leiðinni. Inni í vélinni er rúmt á milli farþega, verð miðans er líklega fremur hátt því nýting vélarinnar er lakari en áður og kostnaður vegna veiruvarna kominn inn í verðið. Þegar komið er í Leifsstöð fer fram skoðun á vegabréfi og forriti. Sýni er tekið úr nefi og koki, niðurstaða þess liggur fyrir innan sólarhrings. Mesta mögulega stytting á þeim tíma er auðvitað æskileg. Vilji svo til að einhver finnist með veiruna er hann stöðvaður þar sem hann er staddur í landinu, sem og aðrir sem nálægt honum hafa verið of lengi. Innlendir starfsmenn sem hann kann að hafa hitt á hóteli, veitingastað eða annars staðar eru einnig settir í sóttkví, ef þurfa þykir. Líkur á að einhver kæmi núna með veiruna til landsins eru ekki miklar, en ef það gerðist væri hægt að bregðast við með skjótum hætti. Við höfum frábæru fólki á að skipa í heilbrigðiskerfinu undir mjög öflugri forystu og það minnkar líkur á öðrum faraldri verulega, jafnvel þótt hingað bærist smit. Gleymum ekki að heimurinn hefur náð veirunni niður með verslanir opnar og ýmsa aðra starfsemi í fullum gangi. Við höfum einfaldlega breytt hegðun okkar og höldum því áfram, ekki síst innan fyrirtækja sem tengjast ferðaiðnaði.

Ég er vissulega leikmaður í þessum fræðum og kannski yfirsést mér eitthvað sem kynni að breyta sýn minni á málið. Þetta er sett hér fram eftir umræður í hópi sem mér þóttu áhugaverðar. Það mun alltaf fylgja því einhver áhætta að hleypa hingað ferðamönnum og hana verðum við að taka eins og aðrir. Ýmsir telja að bíða þurfi lengur og koma málum innanlands í eðlilegra horf fyrst. Ég sé ekki þörfina á því, ferðamenn myndu auðvitað fylgja sömu reglum og þeir sem hér búa. Sumir vilja í fyrstu hefja samskipti við þær þjóðir sem komnar eru lengst á veg í baráttunni við veiruna. Ég veit ekki hverju það breytir að bíða eftir að hlufall sýktra íbúa hjá öðrum þjóðum lækki um brot úr prósenti.

Ekki er víst að yrði mikill straumur gesta hingað þótt allt yrði opnað nú þegar, en um það veit enginn. Nákominn ættingi minn sem búið hefur í áratugi meðal Þjóðverja telur að þeir myndu bregðast skjótt við svona heimboði. Sjálfsagt eru til margar betri hugmyndir um þetta efni en hér eru reifaðar en mér finnst stórkostlegt tækifæri felast í því að opna Ísland nú þegar og hvetja ferðamenn heimsins til að koma hingað í öruggt land og rúmgott.

Eins og málið blasir við mér er það áhættunnar virði. Starfa ég þó ekki í ferðaiðnaði og bý sjálfur við undirliggjandi áhættu gagnvart veirunni. Við kunnum að skima og höfum smitrakningarforrit. Ákvarðanir um þetta taka stjórnmálamenn og ekki aðrir. Tugþúsundir Íslendinga horfa nú í algert hyldýpi.

Höfundur fæst við listsköpun og er viðskiptafræðingur. bhh@out.is

Höf.: Bjarna Hafþór Helgason