Veðurblíða með bili Danskt par með litla dóttur nýtur veðurblíðunnar á Íslandsbryggju á Amager í Kaupmannahöfn í gær. Svæðið er kirfilega merkt til að auðvelda fólki að hafa gott bil sín á milli.
Veðurblíða með bili Danskt par með litla dóttur nýtur veðurblíðunnar á Íslandsbryggju á Amager í Kaupmannahöfn í gær. Svæðið er kirfilega merkt til að auðvelda fólki að hafa gott bil sín á milli. — AFP
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Nokkur Evrópuríki stíga í dag fyrstu skrefin í þá átt að aflétta ströngum reglum sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Nokkur Evrópuríki stíga í dag fyrstu skrefin í þá átt að aflétta ströngum reglum sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins. Þar á meðal er Ítalía, þrátt fyrir að dauðsföll af völdum veirunnar hafi aukist aftur um helgina eða úr 269 dauðsföllum á föstudag í 474 á laugardag.

Á morgun geta Ítalir heimsótt vini og vandamenn eftir tveggja mánaða einangrun. Alls hafa 28.710 manns dáið úr veikinni á Ítalíu og smitfjöldi á dag stendur meira og minna í stað, við 1.900 ný smit. Á Spáni verða lítil þjónustufyrirtæki opnuð aftur, svo sem rakarastofur, og í Þýskalandi hefst skólastarf á sumum svæðum. Skylt verður að bera andlitsgrímu í samgöngufarartækjum á Spáni.

Að minnsta kosti 243.637 manns hafa dáið af völdum kórónuveirunnar sem kom fyrst upp í Kína í desember sl., að sögn AFP. Alls hafa 3,4 milljónir smitast. Manntjónið er mest í Bandaríkjunum, eða 66.385 manns. Í Evrópu hafa 142.611 dáið.

Í Rússlandi kom upp metfjöldi nýsmita á laugardag eða 9.623, langflest í Moskvu. Alls hafa 124.054 smitast þar í landi. Íhuga ráðamenn þar að grípa til stífra innilokunar fólks a heimilum sínum til að ná sýkingum niður.

Hálfsmánaðar sóttkví fyrir alla

Frakkar ákváðu í fyrradag að slaka ekki á klónni í stríðinu gegn kórónuveirunni og framlengdu neyðarástand í heilbrigðiskerfinu um tvo mánuði, til 24. júlí, til að eiga ekki yfir höfði sér aðra flóðbylgju smits, að sögn heilbrigðisráðherrans Oliviers Verans. Hann sagði nýjar reglur skylda þá sem koma til Frakklands til að dveljast í hálfsmánaðar sóttkví áður en þeim yrði hleypt inn í landið. Eigi það jafnt við um Frakka á heimleið frá öðrum löndum. Í Frakklandi hafa 24.594 látist en undanfarnar þrjár vikur hefur þeim fækkað dag frá degi.

Fækkun dauðsfalla af völdum veirufaraldursins á Spáni og í Þýskalandi hefur leitt til aukins þrýstings á stjórnvöld um að aflétta þvingunaraðgerðum sem komið hafa hart niður á efnahagslífinu. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, varðist ásökunum um að fara sér hægt í þágu atvinnulífsins. „Neytendur verða að hafa það á tilfinningunni að þeir séu óhultir og undir vernd,“ sagði hann.