Lækkun skatta og einföldun regluverks mun flýta förinni út úr kreppunni

Samtök iðnaðarins þinguðu í liðinni viku og gerðu það með öðrum hætti en venja er eins og aðrir sem þurfa að „koma saman“ um þessar mundir. Í dag hefur að vísu rýmkast nokkuð um samkomkubannið, en þó ekki svo mjög að stórar samkomur séu mögulegar. Og alls ekki svo að nú sé tíminn til að slaka á og gleyma sér. Þvert á móti þarf áfram að fylgja öllum reglum um sóttvarnir svo að veiran skæða spretti ekki fram aftur. Komist hún á kreik af krafti á nýjan leik gæti skaðinn orðið enn meiri en orðið er, og er þá langt til jafnað.

En þó að „samkoman“ á iðnþinginu hafi í ár verið ólík því sem fólk á að venjast var ýmislegt gagnlegt að finna í ályktun þingsins. Þar var bent á að atvinnulífið „dregur vagninn í verðmætasköpun þjóðarbúsins og því er það forsenda fyrir kröftugri viðspyrnu að öflug fyrirtæki standi af sér storminn. Þannig geta þau haldið fólki í vinnu og tryggt afkomu heimila landsins“.

Þetta er grundvallaratriði sem sumir eiga erfitt með að skilja eða sætta sig við. Velferðin væri orðin tóm ef hér væru ekki öflug fyrirtæki til að standa undir henni.

Samtök iðnaðarins fagna aðgerðum stjórnvalda en benda á að frekari aðgerða sé þörf: „Ráðast þarf í framkvæmdir, létta álögum á fyrirtæki meðal annars með lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, einfalda regluverk og ryðja hindrunum úr vegi, hvetja enn frekar til nýsköpunar með skattívilnunum, fjölga starfs- og tæknimenntuðum á vinnumarkaði með því að tryggja fleirum skólavist í haust og tryggja námslok og bæta umgjörð byggingarmála til að tryggja hraðari og hagkvæmari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þá þarf að grípa til aðgerða þannig að vaxtalækkanir Seðlabankans skili sér til fyrirtækjanna.“

Atvinnulíf þrífst betur við lágar álögur og einfalt regluverk en þegar skattar og gjöld eru að sliga fólk og fyrirtæki og reglugerðafrumskógurinn og eftirlitið ætla alla framtakssemi að kæfa. Til að komast út úr því ástandi sem nú ríkir, með á sjötta tug þúsunda á atvinnuleysisskrá og stóran hluta atvinnulífsins í alvarlegum vanda, þarf að grípa til aðgerða sem hleypa aftur fjöri í atvinnulífið. Skammtímaaðgerðirnar sem gripið hefur verið til verða vonandi til þess að fleyta sem flestum yfir þann skyndilega skell sem fyrirtækin fengu á sig. Meira þarf þó til og annars konar aðgerðir svo að atvinnulífið komist á það flug sem nauðsynlegt er til að útrýma atvinnuleysinu og leggja aftur undirstöðurnar að þeirri velferð sem landsmenn eru vanir og vilja búa við.