Óskar Vigfús Markússon fæddist 3. maí 1925. Hann lést 5. febrúar 2020.

Útför Óskars var gerð 17. febrúar 2020.

Á morgun, 3. maí, eru 95 ár frá fæðingu okkar góða vinar, Óskars V. Markússonar, sem lést 5. febrúar síðastliðinn. Kynni okkar hófust árið 1996 þegar við fluttum í Hvassaleiti 40, þar sem hann bjó, ásamt henni Ásu sinni. Þau Óskar og Ása urðu fljótt góðir vinir okkar og með þeim áttum við margar góðar stundir, bæði heima í Hvassaleitinu og í bíltúrum á góðviðrisdögum. Hann átti gott safn bóka, las mikið og var hafsjór af fróðleik, ekki síst um landið okkar, sem hann var búinn að ferðast mikið um, og mynda, en ljósmyndun var hans áhugamál. Hann hafði sterkar skoðanir og þeim varð ekki svo auðveldlega haggað, trúr sínum málstað.

Þegar Ása veiktist, og gat ekki verið lengur heima, fór hann líka að huga að flutningi. Vegna veikinda sinna fór Ása á hjúkrunarheimilið Skjól, þar sem hún lést 8. janúar 2017, en hann fékk íbúð á Dalbraut 23, þar sem hann var meðan heilsan leyfði, en flutti þá á hjúkrunarheimilið Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann var í nánd við bernskuslóðirnar, sem honum voru svo kærar. Hvergi annars staðar vildi hann eyða ævikvöldinu, þrátt fyrir að vera þá langt í burtu frá sínum nánustu og kærustu, börnum sínum og fjölskyldum þeirra.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við þakka þeim Óskari og Ásu samfylgdina, vináttu og góð kynni. Minning þeirra mun lifa í huga okkar. Börnum þeirra og fjölskyldum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðbjörg og Hörður.