Tækni Auðvelda á aðgengi að opinberri þjónustu en einkafyrirtæki, stéttarfélög og fleiri munu njóta góðs af því, segir Andri Heiðar Kristinsson.
Tækni Auðvelda á aðgengi að opinberri þjónustu en einkafyrirtæki, stéttarfélög og fleiri munu njóta góðs af því, segir Andri Heiðar Kristinsson. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Aðstæður sem hafa skapast í samfélaginu undanfarið vegna heimsfaraldursins hafa kallað á að hraðað sé þróun tæknilausna og stafrænna samskipta. Þá hefur tækniþekking fólks stóraukist á skömmum tíma.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Aðstæður sem hafa skapast í samfélaginu undanfarið vegna heimsfaraldursins hafa kallað á að hraðað sé þróun tæknilausna og stafrænna samskipta. Þá hefur tækniþekking fólks stóraukist á skömmum tíma. Við höfum því unnið hörðum höndum á síðustu vikum við að bregðast við þessari auknu eftirspurn og kröfum samfélagsins í fjölmörgum verkefnum,“ segir Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands . Á þess vegum er meðal annars starfrækt þjónustugáttin island.is sem nú er verið að efla og endurbæta.

Meðmælalistar og stafræn gjafabréf

Um tvö ár eru síðan verkefnastofan Stafrænt Ísland , sem heyrir undir fjármálaráðuneytið, var sett á laggirnar, en þar unnið er að ýmsum stafrænum verkefnum fyrir hið opinbera. Mörkuð hefur verið sú stefna að þjónustuleiðir ríkisins við borgarana verði í framtíðinni einkum og helst yfir netið sem skilað getur bæði tímasparnaði og framleiðniaukningu. Samkvæmt nýlegri greiningu er, að sögn Andra, áætlað að beinn sparnaður hins opinbera af þessu gæti numið 9,6 milljörðum á ári eftir 3-5 ár og ávinningur sem hlýst af tímasparnaði, styttri málsmeðferð og jákvæðum umhverfisáhrifum vegna lægri prent- og sendingarkostnaðar geti svo numið allt að 30 milljörðum kr. á ári.

„Verkefnin hjá Stafræna Íslandi sem við vinnum að nú eru hreinlega viðbrögð við aðstæðum á líðandi stundu, svo sem að gera meðmælendalista fyrir forsetakosningar rafræna og útbúa stafræn gjafabréf til að styðja við innlenda ferðaþjónustu í sumar. Þá erum við að þróa rafrænar þinglýsingar,“ segir Andri Heiðar. „Við finnum fyrir miklum meðbyr með okkar verkefnum. Stjórnvöld hafa sömuleiðis kynnt fjárfestingarátak í kjölfar heimsfaraldursins þar sem verja á rúmlega 1,3 milljörðum króna til stafrænna innviða og hugbúnaðarkerfa; verkefni sem kemur til framkvæmda strax á þessu ári.“

Bæta þjónustu og einfalda samskipti

Í alþjóðlegum samanburði er Ísland, skv. könnunum, meðal 20 fremstu þjóða heims þegar kemur að stafrænni þjónustu. Andri Heiðar segir þó möguleika á því að gera enn betur. Í þessu efni geti Íslendingar náð í hóp fimm efstu þjóða á allra næstu árum í kjölfar þeirrar öflugu fjárfestingar á þessu sviði sem stjórnvöld ætla nú í.

Nú þegar er til staðar þjónustugáttin island.is þar sem hægt er að nálgast yfir 700 stafræn umsóknablöð, leyfisveitingar og þjónustu hjá hinu opinbera. Nú í sumar verður, sem fyrr segir, nýr og stórbættur vefur á þessari slóð opnaður sem mun bæta þjónustustig og einfalda samskipti og upplýsingaflæði. Þar mun smám saman verða hægt að nálgast upplýsingar um alla þjónustu hins opinbera á einum stað. Í haust mun svo smáforrit í farsíma fara í loftið auk þess sem ýmis þjónusta verður færð á stafrænt form svo sem umsóknir um fæðingarorlof, sakavottorð, ökunám og stafrænt ökuskírteini.

Netvæðing og nýsköpun

„Á nýjum vef island.is verður áhersla á að auðvelda aðgengi að opinberri þjónustu, en einkafyrirtæki, stéttarfélög og fleiri munu njóta góðs af því að allur hugbúnaður verður aðgengilegur. Markmiðið er að opna öll gögn og vefþjónustu hins opinbera eins og kostur er. Það sem annars vinnur með okkur Íslendingum á þessari vegferð er að hér eru tæknilegir innviðir nú þegar til staðar ásamt því að þekking og færni almennings í notkun tæknilausna er með því allra besta sem gerist í heiminum,“ segir Andri og að lokum:

„Sem þjóð höfum við alltaf verið mjög fljót að aðlagast og tileinka okkur nýja tækni og erum því í hópi þeirra fremstu þegar kemur að netvæðingu. Mörg íslensk nýsköpunar- og tæknifyrirtæki hafa náð því marki að verða leiðandi á sínu sviði. Því tel ég að nálgun okkar hjá Stafrænu Íslandi , sem byggir á þróun opins hugbúnaðar í samstarfi við stór og smá einkafyrirtæki, sé aðferðarfræði sem margar þjóðir muni horfa til í auknum mæli á næstu árum. Þannig munum við stuðla að frekari nýsköpun, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum.“

Hver er hann?

• Andri Heiðar Kristinsson fæddist árið 1982, er með B.Sc.-próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA frá Stanford-háskóla í Kaliforníu, þar sem hann bjó og starfaði um sex ára skeið. Var áður þróunarstjóri hjá LinkedIn í San Francisco, framkvæmdastjóri og stofnandi Icelandic Startups og sprotafyrirtækisins Travelade.

• Framkvæmdastjóri Stafræns Íslands hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá því í janúar. Virkur í uppbyggingu nýsköpunar- og tæknifyrirtækja, ráðgjafi sprotafyrirtækja og fleira.