EM 2022 Ásta Eir Árnadóttir, Jón Þór Hauksson og Glódís Perla Viggósdóttir fyrir sigurleikinn gegn Slóvakíu í undankeppni EM í haust.
EM 2022 Ásta Eir Árnadóttir, Jón Þór Hauksson og Glódís Perla Viggósdóttir fyrir sigurleikinn gegn Slóvakíu í undankeppni EM í haust. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsliðið Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Knattspyrnuheimurinn hefur auðvitað orðið fyrir skakkaföllum undanfarið vegna kórónuveirufaraldursins en aðeins virðist þó vera farið að birta til.

Landsliðið

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Knattspyrnuheimurinn hefur auðvitað orðið fyrir skakkaföllum undanfarið vegna kórónuveirufaraldursins en aðeins virðist þó vera farið að birta til. Æfingar eru að fara aftur af stað og til stendur að hefja Íslandsmótið í næsta mánuði. Félagslið eru smátt og smátt að ná vopnum sínum á ný en staðan verður áfram erfið hjá landsliðsþjálfurum eins og Morgunblaðið komst að eftir samtal við Jón Þór Hauksson, þjálfara kvennalandsliðs Íslands.

„Við höfum reynt að vera í samskiptum síðan við komum frá Spáni í mars, þetta ástand fór á fulla ferð á meðan við vorum úti og við bara rétt sluppum heim,“ sagði Jón en landsliðið keppti á Pinatar-mótinu á þeim tíma sem faraldurinn var að skella á.

„Við höfum reynt að heyra í leikmönnum og aðstoða þá ef hægt er. Aðalatriðið hefur bara verið að athuga hvort allir séu ekki heilir heilsu, það er númer eitt, tvö og þrjú í þessu. Sem betur fer hafa allir sloppið vel, það er jákvætt.“

Ástandið er hörmulegt

Staðan á liðinu er hins vegar erfið. Leikirnir þrír á Spáni voru þeir fyrstu hjá landsliðinu í hálft ár og nú er ljóst að liðið þarf að bíða álíka lengi eftir að koma saman aftur.

„Ástandið er hörmulegt, það er ekki hægt að segja annað. Vonandi fer þetta í gang aftur í haust en þá er staða okkar þannig að við erum búin að spila þrjá leiki á heilu ári, það er bara mjög slæm staða.

Við fundum fyrir því í mars að það var langt síðan við spiluðum leik þar undan, þetta er ekki góð staða til að vera í með lið. Það segir sig sjálft,“ bætti Jón við og benti á að landslið ættu engan möguleika á að koma saman á næstunni.

„Þegar tímabilið fer í gang aftur höfum við engan möguleika á að koma saman heldur. Það er sérstakt starf, að vera landsliðsþjálfari, og enn meira svo í svona ástandi.

Þegar deildirnar fara loks aftur í gang verður spilað mjög þétt og enginn tími mun gefast fyrir neitt annað. Það er mikil pressa að klára þessar deildakeppnir og auðvitað bitnar það á landsliðunum.“

Jón segist hafa nokkrar áhyggjur af knattspyrnufólki og hvernig það hefur unnið sig út úr þessum erfiðu tímum. Íslandsmótið á að hefjast aftur snemma í næsta mánuði og kemur þá fljótt í ljós hvar leikmenn standa.

„Við munum sjá strax þegar boltinn fer aftur að rúlla hverjir hafa nýtt tímann vel og hugað að sínum leikmönnum. Þá er ég líka að tala um andlega heilsu. Eftir okkar langa undirbúningstímabil á Íslandi kemur þetta ástand þegar knattspyrnufólk var farið að sjá grasið loks grænka og orðið fullt tilhlökkunar fyrir tímabilinu. Þetta var auðvitað mikið högg andlega.“

Ætlum okkur á EM

Hann er þó vongóður um að landsliðið geti haldið uppteknum hætti, þegar undankeppni EM hefst aftur í haust, en Ísland vann fyrstu þrjá leiki sína en á eftir að mæta Svíþjóð tvívegis, sem einnig hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína.

„Eins og staðan er núna eigum við að spila í september og við eigum fimm leiki eftir í undankeppninni. Vonandi verður hægt að klára þessa leiki á árinu og þá er eins gott að við séum tilbúin þá. Við munum þurfa að nýta tímann vel.“

Þá hefur Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, frestað Evrópukeppninni sjálfri, sem átti að fara fram á Englandi sumarið 2021, um eitt ár og fer hún því fram dagana 6. til 31. júlí 2022.

„Við ætlum okkur að komast þangað, við erum í góðri stöðu í riðlinum og höfum byrjað vel. En þetta er auðvitað bara byrjun og það er langt síðan við spiluðum. Það var góður taktur í liðinu en það vinnur gegn okkur hvað við höfum spilað lítið undanfarið.“

Þá vék hann sér að lokum að orðrómnum um að landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir gæti skipt yfir úr meistaraliði Wolfsburg í Þýskalandi í sterkasta lið Evrópu, Lyon í Frakklandi.

„Þetta er toppurinn í kvennaknattspyrnunni, Lyon er stærsta liðið og ég vil sjá okkar leikmenn í stærstu liðunum. Þetta er algjört draumaskref fyrir hana og hún er algjörlega tilbúin í það. Ég held að hún muni styrkja gríðarlega öflugt Lyon-lið, það væri mjög spennandi og eflandi fyrir íslenska kvennaknattspyrnu almennt.“