Ármann Ingimagn Halldórsson
Ármann Ingimagn Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Ég verð að leita réttar okkar hjóna vegna þess að okkur hefur verið stíað í sundur. Framkoma stjórnenda á Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur verið þannig,“ sagði Ármann Ingimagn Halldórsson, vélamaður á Egilsstöðum. Konan hans, Gróa Ingileif Kristmannsdóttir, dvelur á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum sem er rekið af HSA. Hún er 62 ára og er með vöðvarýrnunarsjúkdóm, er í öndunarvél og þarf mikla umönnun. Ármann gisti hjá Gróu á næturnar fram að heimsóknabanninu til að geta sinnt henni og verið hjá henni.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Ég verð að leita réttar okkar hjóna vegna þess að okkur hefur verið stíað í sundur. Framkoma stjórnenda á Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur verið þannig,“ sagði Ármann Ingimagn Halldórsson, vélamaður á Egilsstöðum. Konan hans, Gróa Ingileif Kristmannsdóttir, dvelur á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum sem er rekið af HSA. Hún er 62 ára og er með vöðvarýrnunarsjúkdóm, er í öndunarvél og þarf mikla umönnun. Ármann gisti hjá Gróu á næturnar fram að heimsóknabanninu til að geta sinnt henni og verið hjá henni.

Hann segir að lögfræðistofa í Reykjavík sé að skoða málið. Hún hafi reynt að fá svör frá HSA og heilbrigðisráðuneytinu en lítið gengið. Ármann bendir á að framkvæmdastjórn HSA hafi ákveðið heimsóknabannið með tilkynningu. Honum finnst að banninu hafi verið framfylgt af of mikilli hörku.

„Sjálfur hef ég nánast alveg verið í sjálfskipaðri sóttkví og konan mín er ekki eldri borgari. Þetta er eina úrræðið fyrir hana hér vegna þess hvað hún er veik. Ég hef alltaf hugsað um hana, en það var ekki möguleiki að fá að heimsækja hana,“ sagði Ármann.

Heimsóknabannið var sett á 7. mars klukkan 15.00. „Ég var að vinna við að blása snjó, og kom 11 mínútum of seint. Komst ekki fyrr. Ég komst ekki einu sinni inn til að sækja lyfin mín og fékk ekki að baða hana morguninn eftir eins og ég var vanur að gera á sunnudagsmorgnum. Þetta er konan mín og ég vil fá að sjá um hana,“ sagði Ármann.

Í sjálfskipaðri sóttkví

Hann segir að á sama tíma og honum var meinað að heimsækja konu sína, þrátt fyrir sjálfskipaða sóttkví sína, hafi starfsfólk á Dyngju sést víða innan um fólk utan vinnutíma. Ármann nefnir til dæmis einn sem taki á móti vörum í nytjagámi Rauða krossins, nokkra sem hafi farið á Góugleði í félagsheimilinu Brúarási og aðra sem sótt hafi veitingastað á Egilsstöðum. Þá hafi starfsmaður sem kom úr utanlandsferð farið beint í vinnuna. Það var áður en fyrirmæli voru gefin um sóttkví ferðamanna.

„Ég var ekki hættulegri en þetta fólk. Ég bý og vinn einn á vinnuvél og er ekkert að umgangast fólk. Þá sjaldan ég fer í búð þá spritta ég mig í bak og fyrir. Samt fékk ég alls ekki að hitta konuna mína. Ég hafði hugsað um hana, sneri henni á nóttunni og morgnana og gat gert það einn,“ segir Ármann. Hann segir að eftir að hann fékk ekki að vera hjá Gróu á nóttunni hafi þurft að kalla starfsmann af annarri deild til að hjálpa til við að snúa henni.

Ármann óskaði eftir því að fá að dvelja hjá Gróu yfir páskana, eins og Stundin greindi frá 8. apríl. Ekki var orðið við því. Eina skiptið sem hann hefur hitt konuna sína í heimsóknabanninu var þegar hann fékk að fylgja henni í sjúkrabíl niður á Neskaupstað í túbuskipti á sjúkrahúsinu þar. „Ég fékk ekki að fara inn á sjúkrahúsið og þurfti að vera í galla og öllu,“ sagði Ármann. Hann hyggst nota tækifærið sem gefst í dag til að fara í langþráða klukkustundar langa heimsókn til Gróu.

Reynst erfitt fyrir marga

Heimsóknabann á hjúkrunarheimilum hefur verið mörgum mjög erfitt, bæði heimilisfólki og aðstandendum, að sögn Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns Öryrkjabandalagsins.

Nú má einn aðstandandi koma í heimsókn í einu. Bóka þarf heimsóknina fyrirfram.

„Sumir þurfa mikið á því að halda að eiga daglegt samneyti við sitt fólk, t.d. makar þar sem annað er í hjúkrunarrými og hitt hefur ekki fengið að koma í heimsókn,“ sagði Þuríður. „Fólk hefur leitað mikið til mín, jafnvel í mikilli angist, vegna þessa aðskilnaðar.“