Baksvið
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Hlaupskorpumöttull og appelsínumöttull eru á meðal fimm nýrra tegunda möttuldýra sem hafa greinst við landið á síðustu tveimur árum. Þetta eru þekktar framandi ágengar tegundir víða um heim og gætu haft neikvæð áhrif á lífríkið, en einnig atvinnustarfsemi.
Náttúrustofa Suðvesturlands sérhæfir sig í rannsóknum á útbreiðslu og framvindu framandi tegunda í sjó á landsvísu. Í ársskýrslu stofunnar fyrir 2019 segir að framandi ágengar tegundir séu önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á heimsvísu.
Suðupunktur landnáms
„Samhliða hækkandi sjávarhita og auknum sjóflutningum eykst hættan á flutningi framandi tegunda sífellt. Í dag er suðvestanvert landið suðupunktur landnáms framandi tegunda sökum tíðra skipaflutninga, en til þessa hafa um 90% framandi tegunda fundist þar fyrst,“ segir í ársskýrslunni.
Glærmöttull fannst fyrstur þessara framandi möttuldýrategunda 2007, stjörnumöttull fannst 2011 á línukræklingi og 2018 og 2019 bættust fimm landnemar möttuldýra við. Dr. Sindri Gíslason, forstöðurmaður Náttúrustofu Suðvesturlands, segir að framandi tegundum sé stöðugt að fjölga og segist sannfærður um að á næstu árum muni því miður margar nýjar framandi tegundir finnast hér við land. Á næstunni birtist grein í vísindaritinu BioInvasion Records um landnám möttuldýranna við Ísland.
„Þær tegundir sem hér hafa numið land eru allar þekktir skaðvaldar víða um heim,“ segir Sindri. „Þær taka oft yfir búsvæði og vinna aðrar tegundir í samkeppni um fæðu og pláss. Í atvinnulífinu geta þær haft neikvæð áhrif t.d. á fiskeldi og kræklingarækt. Í Bandaríkjunum og Kanada er milljónum dala varið ár hvert í að berjast gegn framandi tegundum í sjó, sem margar hverjar þekja allt hart yfirborð, eins og til dæmis hafnarmannvirki, baujur og skipskrokka. Þessar tegundir auka kostnað við þrif báta og hafnarmannvirkja og leggjast á línur í skelfiskrækt og eins á eldiskvíar; þekja þær og sliga.“
Þær tegundir framandi sjávarlífvera sem hingað hafa komið hafa flestar borist með kjölfestuvatni, hinar sem ásætur á skrokkum skipa. Fyrsti viðkomustaður þessara tegunda er yfirleitt í höfnum og segir Sindri brýnt að vera á varðbergi og fylgjast með.
Vöktun og bætt umgengni
Náttúrustofa Suðvesturlands hóf vöktun í helstu höfnum hringinn í kringum landið 2018. Sindri segir að vöktun sé gríðarlega mikilvæg, því grípa þurfi til mótvægisagerða áður en dýrin berist um allt land og verði illviðráðanleg.
Fara þurfi að huga að því að þrífa skip og hafnarmannvirki meira og betur en nú sé gert, sem leiða muni jafnframt af sér minni eldsneytiskostnað. „Biðin langa er svo eftir að öflug og náttúruvæn skipamálning komi á markað,“ segir hann.
Lengi hefur verið vitað að framandi gestir ferðist með kjölfestuvatni og reglur hafa verið hertar varðandi losun kjölfestuvatns um heim allan. Skipum sem koma í íslenska efnahagslögsögu hefur t.d. verið skylt að halda kjölfestudagbók síðan 2010. Þá er í bígerð ný reglugerð um að öll ný skip innan Evrópusambandsins verði með hreinsibúnað til að meðhöndla kjölfestuvatn, að sögn Sindra.
Möttuldýr
» Í stuttu máli eru möttuldýr flokkur sjávarhryggleysingja.» Þekktar eru um 3.000 tegundir á heimsvísu og af þeim eru 64 tegundir þekktar framandi tegundir.
» Möttuldýr eru botnlægir síarar, lifa annaðhvort sem stök dýr eða í þyrpingum á hörðu undirlagi.
» Af þessum 3.000 tegundum er stærð þeirra mjög misjöfn, frá 0,5 sentimetrum upp í 26 sentimetra að lengd.
» Glærmöttull er t.d. með stærri tegundum, en hann verður stærstur um 15 sentimetrar að lengd.