[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gestur Einar Jónasson er fæddur 4. maí 1950 á Akureyri í húsi afa síns og ömmu, þeirra Gests sótara og Lísbetar, að Reynivöllum 2 á Eyrinni. „Ég átti frábær ár sem strákur á Eyrinni með skemmtilegum vinum.

Gestur Einar Jónasson er fæddur 4. maí 1950 á Akureyri í húsi afa síns og ömmu, þeirra Gests sótara og Lísbetar, að Reynivöllum 2 á Eyrinni. „Ég átti frábær ár sem strákur á Eyrinni með skemmtilegum vinum. Við lékum mikið við sjóinn og Slippinn við veiðar, strákapör og fótbolta.“

Leikarinn

„Ég gekk í Barnaskóla Íslands eins og hann var kallaður hér á Akureyri en hafði áður verið í smábarnaskóla sem var kenndur í heimahúsi. Ég var enn í framhaldsskóla þegar ég var beðinn að taka þátt í afmælissýningu Leikfélags Akureyrar á Draumi á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare. Hlutverkið var varðmaður með spjót, en þetta var 1967. Strax árið eftir var ég fenginn til að taka þátt í sýningu L.A. í Sjallanum á leikriti með söngvum, Rjúkandi ráð þar sem ég lék löggu. Eftir þetta lék ég eða var viðloðandi nánast allar sýningar leikfélagsins til ársins 1985 er ég sagði upp föstum leikarasamningi mínum. Á sumrum og í sumarfríum frá leiklistinni vann ég svo hjá Akureyrarbæ við malbikun gatna og bílaplana í bænum.“

Eftir að hafa sótt námskeið og þjálfun hér heima í leiklist fór Gestur Einar til London og sótti sér frekari menntun í listinni, en hann nam við Webber Douglas Academy of Dramatic Art.

Gestur Einar var í hópi fyrstu leikara sem voru ráðnir á fastan samning hjá Leikfélagi Akureyrar 1973. Á þessu tímabili til 1985 var Gestur búinn að leika um 100 hlutverk á sviði á Akureyri og með Leikfélagi Akureyrar á leikferðum víða um land, auk þess að leikstýra hjá L.A. og hjá áhugafélögum. „Af eftirminnilegum hlutverkum má nefna Umba í Kristnihaldi undir jökli, Eftirlitsmanninn úr samnefndu verki, hinn geðþekka Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi og Jónatan ræningja í Kardemommubænum, bæði hlutverkin í tvígang á um 10 ára tímabili. Natan Ketilsson úr verkinu um Skáld-Rósu og róninn úr Fyrsta öngstræti til vinstri eru minnisstæðir. Einnig þykir mér vænt um hlutverk Geoffreys úr Hunangsilmi.“

Gestur Einar hefur leikið í mörgum kvikmyndum í sjónvarpi og útvarpi. Af kvikmyndum sem hann hefur tekið þátt í má nefna Útlagann, Kristnihald undir jökli, Karlakórinn Heklu, Stellu í orlofi, Gullsand, Með allt á hreinu og Svaninn. Svo hefur hann leikið í sjónvarpsseríum eins og Hæ Gosi og Tími nornarinnar, auk stuttmynda og skólaverkefna nemenda í kvikmyndagerð.

Á ráðningartíma sínum hjá L.A. sat Gestur Einar um tíma í leikhúsráði fyrir hönd leikara. Hann var einnig í stjórn Leikfélagsins, auk þess að vinna ýmis trúnaðarstörf fyrir Félags íslenskra leikara. Gestur var gerður að heiðursfélaga Leikfélags Akureyrar fyrir nokkru.

Fjölmiðlamaðurinn

Gestur Einar var blaðamaður á Degi á Akureyri þegar blaðið var að stækka úr tveimur blöðum á viku upp í dagblað. Hann tók þátt í stofnun útvarps Hljóðbylgjunnar á Akureyri 1987 og var forstöðumaður hennar í byrjun. Hann hóf síðan störf hjá Ríkisútvarpinu sama ár með aðsetur á Akureyri. Þaðan stjórnaði hann mörgum vinsælum þáttum á borð við Hvítir mávar, Með grátt í vöngum og mörgum fleiri. Hann stjórnaði viðtalsþáttum bæði í útvarpi og sjónvarpi, auk þess að vinna við fréttir, íþróttalýsingar og nánast allt sem sneri að þessum miðlum. „Síðustu árin hef ég séð um viðtalsþáttinn Hvítir mávar á norðlensku sjónvarpsstöðinni N4.“

Gestur Einar hefur alltaf haft mikinn flugáhuga. „Enda ólst ég upp á flugvelli og sótti mér flugpróf á unga aldri, en ég ætlaði að verða flugmaður áður en ég fór út í leiklistina.“ Hann hefur setið í stjórn Vélflugfélags Akureyrar og frá 2008 og fram til síðustu áramóta gegndi hann stöðu safnstjóra Flugsafns Íslands á Akureyrarflugvelli. „Þar vann ég að uppbyggingu safnsins sem heldur utan um þann þátt íslenskrar menningar sem snýr að flugsamgöngum.“ Gestur hefur einnig mikinn áhuga á íþróttum og er dyggur stuðningsmaður KA. Hann vann ýmis verk fyrir félagið á árum áður og sat um tíma í stjórn Knattspyrnufélags Akureyrar.

Gestur Einar hefur alltaf búið á Akureyri og mest af störfum sínum hefur hann unnið þar. „Ég hef unnið með ýmsum listamönnum hérna, svo sem Ingimar Eydal og hans fólki. Mér þykir gaman að hafa Akureyri sem lifandi bæ og þess vegna skipulagði ég meðal annars jólatónleika í miðbænum þar sem íbúar og gestir komu saman og sungu jólalög.“ Sumardaginn fyrsta síðastliðinn var Gesti veitt heiðursviðurkenning Menningarsjóðs Akureyrar fyrir störf sín að menningarmálum.

Fjölskylda

Eiginkona Gests er Elsa Björnsdóttir, f. 3.9. 1950, hárgreiðslumeistari. Foreldrar hennar voru Björn Ottó Kristinsson, f. 1.10. 1918, d. 29.6. 1992, vélvirkjameistari og skólastjóri Vélskóla Íslands á Akureyri, og Halldóra S. Gunnlaugsdóttir, f. 16.10. 1926, d. 29.1. 1998, húsmóðir. Þau giftust 1946 og bjuggu allan sinn búskap á Akureyri.

Dóttir Gests og Elsu er Halla Bára f. 3.2. 1973, master í innanhússhönnun, búsett í Reykjavík. Eiginmaður hennar er Gunnar Sverrisson ljósmyndari og dætur þeirra eru Lea, f. 2003, og Kaja, f. 2008. Gunnar á soninn Guðmund Örn, f. 1995.

Systkini Gests eru Guðný Jónasdóttir, f. 30.4. 1947, fyrrv. flugfreyja og fótaaðgerðafræðingur, búsett á Seltjarnarnesi, og Hjördís Nanna Jónasdóttir, f. 29.4. 1961, búsett í Svíþjóð.

Foreldrar Gests voru Jónas Einar Einarsson, f. 22.1. 1921, d. 23.6. 1972, flugumferðarstjóri á Akureyri, og Bára Gestsdóttir, 14.10. 1925, d. 7.8. 1999, húsmóðir. Þau giftust 1945 og bjuggu á Akureyri, utan nokkurra ára í upphafi búskapar meðan Jónas lærði útvarpsvirkjun í Reykjavík.