Árni Sigurðsson fæddist 9. júní 1943 á Ljótsstöðum í Vopnafirði. Hann lést á heimili sínu Sundabúð 3 á Vopnafirði 22. apríl 2020.

Foreldrar hans voru Sigurður Gunnarsson, f. 5.11. 1895, bóndi og oddviti á Ljótsstöðum, d. 24.5. 1974, og Jóhanna Sigurborg Sigurjónsdóttir, húsfreyja frá Ytri-Hlíð, f. 9.11. 1900, d. 5.6. 1992.

Systkini Árna eru Gunnar, f. 1924, d. 2015, Sigurjón, f. 1925, d. 2008, Ágúst, f. 1926, Sigurður, f. 1928, d. 2010, Jörgen, f. 1930, d. 2000, Jón, f. 1932, d. 2019, Valgerður, f. 1933, Anna, f. 1935, Katrín, f. 1936, og Jóhann, f. 1940, d. 1997.

Eiginkona Árna var Svanhildur Þórarinsdóttir frá Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi, f. 7. september 1932, d. 8. apríl 2004. Þeim varð ekki barna auðið en frænkur Svanhildar þær Kristín Aldís og Heiðdís Harpa dvöldu mikið hjá þeim og myndaðist mikil væntumþykja til þeirra.

Árni ólst upp á Ljótsstöðum í Vopnafirði og gekk í skóla á Torfastöðum. Hann vann við búið heima og sinnti tilfallandi verkefnum á unglingsárum. Þegar Árni var um tvítugt flutti hann suður til Reykjavíkur og starfaði þar sem bílstjóri hjá Mjólkursamsölunni og síðar sem leigubílstjóri og síðustu starfsárin vann hann hjá Skeljungi. Í Reykjavík bjó hann til ársins 2017 en þá flutti hann aftur heim til Vopnafjarðar.

Útför Árna fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 4. maí 2020, kl. 14 og fer hún fram í kyrrþey vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.

Okkur var öllum brugðið þegar við fengum fregnirnar af andláti þínu. Við áttum von á því að hitta þig í Árbergi í sumar eins og undanfarin ár með Sigrúnu. En það er alveg klárt mál að enginn veit sína ævina fyrr en öll er og kallið kemur oft fyrirvaralaust í sumarlandið.

Við og krakkarnir okkar eigum góðar minningar að ylja okkur við. Minningarnar streyma fram og Árberg er þar ofarlega í huga en einnig jólahald síðustu ára þinna í Reykjavík. Það rifjast upp stundir frá aðfangadagskvöldum, gamlárskvöldum, afmælum og viðburðum í fjölskyldunni, útilegu á Snæfellsnes, bíltúr að skoða eldgos á Fimmvörðuhálsi, veiðiferðir og spjall um allt milli himins og jarðar og þú varst svo fróður um land okkar og þjóð. En samverustundunum fækkaði mjög eftir að þú fluttir aftur heim á æskuslóðirnar á Vopnafirði.

Það er samt dýrmætt fyrir okkur og krakkana að hafa góðar stundir í minningabankanum og með þessum orðum viljum við þakka þér fyrir samveruna og sendum samúðarkveðjur til fjölskyldu þinnar og vina.

Samúel, Guðrún Bára, Sandra Sif og Hermann.

Ég kynntist Árna árið 2005 í gegnum sameiginlega vini sem áttu sumarbústað við hliðina á mínum í Ketlubyggð í Rangárvallasýslu. Frá þeim tíma tókst með okkur góð vinátta.

Við áttum margar góðar samverustundir í sumarbústaðnum mínum og dvöldum þar af og til öll sumur, oft með börnunum mínum og barnabörnum. Þar var spilað og haft gaman. Hann spilaði oft á sinn snilldarlega hátt á harmónikkuna þegar gesti bar að garði og stundum var dansað með. Við áttum gleðilegar stundir með vinafólki okkar í næsta bústað.

Þegar hann varð sjötugur héldum við upp á afmælið hans í sumarbústaðnum ásamt fjölskyldu minni honum til mikillar gleði. Hafði hann orð á því hve honum þótti það skemmtilegt.

Á hátíðum skiptumst við á að borða hjá börnum mínum, það voru miklar gæðastundir.

Árni hafði glöggt auga fyrir náttúru landsins og var sérlega fróður um hana. Hann hafði farið víða og þekkti nánast alla staði á landinu. Hann vissi allt um fugla og hafði gaman af að fylgjast með atferli þeirra. Við nutum mikillar útivistar saman og fórum í ófáar veiðiferðirnar, enda var Árni mikill veiðimaður. Einnig fórum við oft í berjamó og eggjatínslu.

Bíltúrarnir sem við fórum í voru margir og hafði hann gaman af því að segja mér frá því sem fyrir augun bar enda víðlesinn og auðugur af þekkingu.

Mér er eftirminnileg ferð þegar við fórum til Vopnafjarðar á hans heimaslóðir þar sem hann þekkti hverja þúfu. Hann sýndi mér æskustöðvar sínar og að sjálfsögðu fórum við þar í árangursríka veiðiferð. Hann talaði oft um æsku sína og sagði oft á tíðum „í minni sveit ... “ Honum fannst allt gott fyrir austan og maturinn líka og stundum fékk ég matarsendingar frá Vopnafirði.

Árni var handlaginn, hjálpsamur og ráðagóður. Hann var vanafastur og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum.

Ég votta aðstandendum innilega samúð, blessuð sé minning góðs vinar.

Sigrún Sigríður

Garðarsdóttir.