Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Íslendingar geta ekki komið hjólum atvinnulífsins af stað upp á eigin spýtur eftir heimsfaraldur kórónuveiru, né komið samfélaginu í eðlilegt horf, segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Íslendingar geta ekki komið hjólum atvinnulífsins af stað upp á eigin spýtur eftir heimsfaraldur kórónuveiru, né komið samfélaginu í eðlilegt horf, segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

„Við verðum áfram að reiða okkur á samstöðu þjóða andspænis sameiginlegum vágesti. Það getur verið erfitt en það er nauðsynlegt. Við höfum sýnt hvað við gátum gert en við þurfum líka á aðstoð annarra að halda til þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang og samfélaginu í eðlilegt horf, við gerum það ekki ein,“ segir Guðni í samtali við Morgunblaðið.

Hann kveðst hæstánægður með það hvernig Íslendingar hafa tekist á við faraldurinn.

„Mér finnst þjóðin hafa sýnt þá samstöðu og samúð sem þarf á stundum sem þessum. Sú samstaða sem við höfum sýnt er sjálfsprottin. Hún kemur ekki að ofan, hún kemur vegna þess að okkar forystusveit í almanna- og veiruvörnum hefur með sannfæringarkraft, vísindi og skynsemi í farteskinu sýnt fram á að það eina sem við getum gert og eigum að gera er að standa saman og fara eftir leiðbeiningum, reglum og tilmælum sem í gildi eru.“

Aðspurður segir Guðni þó að eitthvað hefði líklega mátt betur fara.

„Lið getur átt glimrandi leik og landað góðum sigri en svo kemur fólk og bendir á að stöku sókn hafi ekki gengið alveg upp og þar fram eftir götunum. Heildarmyndin er mynd árangurs, velgengni og réttra ákvarðana.“

Mótframboð verðugt verkefni

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, hefur verið hvattur til að bjóða sig fram til forseta í ár. Spurður hvort hann óttist mótframboð frá Víði, Ölmu Möller landlækni eða Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni segir Guðni léttur í bragði:

„Kæmi til þess þá veit ég að þau myndu haga sínum framboðum af miklum heilindum og það væri sannarlega verðugt og göfugt verkefni að ræða með þeim um landsins gagn og nauðsynjar og framtíð Íslands.“