Þýskaland Guðjón Valur Sigurðsson á langan feril að baki í landinu.
Þýskaland Guðjón Valur Sigurðsson á langan feril að baki í landinu. — Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson
Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Aðeins fjórum dögum eftir að Guðjón Valur Sigurðsson tilkynnti að handboltaskórnir væru komnir á hilluna var gamla þýska stórveldið Gummersbach búið að staðfesta að hann hefði verið ráðinn þjálfari liðsins til næstu tveggja ára.

Félagið skýrði frá þessu í gærkvöld en Guðjón tekur við liðinu í sumar og verkefni hans er að koma félaginu aftur í fremstu röð. Gummersbach, eitt sigursælasta handknattleiksfélag Þýskalands, féll úr efstu deild í fyrsta skipti í sögunni vorið 2019 og var í fjórða sæti B-deildarinnar þegar keppni var hætt í mars, tveimur stigum frá öðru sætinu. Þýska handknattleikssambandið ákvað síðan að röð liðanna eftir 24 umferðir af 34 skyldi gilda sem lokastaða tímabilsins.

Guðjón er á leið á kunnuglegar slóðir en hann gekk til liðs við Gummersbach frá Essen sumarið 2005 og lék með því í þrjú ár. Fyrsta árið varð hann markakóngur þýsku deildarinnar.

Gummersbach varð síðast þýskur meistari árið 1991, þá í tólfta skipti og í fimmta sinn á tíu árum. Félagið varð Evrópumeistari fimm sinnum frá 1967 til 1983, vann EHF-bikarinn árið 2009 og Evrópukeppni bikarhafa 2010 og 2011. Kristján Arason varð meistari með liðinu 1988 og Alfreð Gíslason þjálfaði það á árunum 2006 til 2008.