Ávarp Forsætisráðherra sagði að píningsveturinn væri að baki.
Ávarp Forsætisráðherra sagði að píningsveturinn væri að baki. — Skjáskot/RÚV
„Landamæri okkar eru lokuð til 15. maí og fyrir þann tíma mun liggja fyrir áætlun um næstu skref okkar í þeim málum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi til þjóðarinnar í gærkvöldi.

„Landamæri okkar eru lokuð til 15. maí og fyrir þann tíma mun liggja fyrir áætlun um næstu skref okkar í þeim málum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi til þjóðarinnar í gærkvöldi.

„Efnahagsleg áhrif veirunnar eru djúp og ófyrirséð hve langvarandi þau verða,“ sagði Katrín. Bætti hún við að höggið væri þyngst á ferðaþjónustuna hér heima, sem skilaði hátt í 40% allra útflutningstekna í fyrra. Fjallaði ráðherra um árangur heilbrigðisyfirvalda, mikilvægi samstöðu og efnahagslegt áfall vegna kórónuveirufaraldursins, og minnti að auki á mikilvægi þess að fara ekki of geyst í afléttingaraðgerðir:

„Við þurfum að fara hægt í sakirnar því að ekki má glutra niður þeim árangri sem náðst hefur. Áfram þurfum við að halda ró okkar og stillingu og feta okkur hægum skrefum eftir því einstigi sem er fram undan,“ sagði Katrín.

Hrósaði ráðherra árangri heilbrigðisyfirvalda í baráttunni gegn veirunni og sagði vinnu smitrakningarteymisins og smitrakningarappið hafa vakið athygli víða.

Þá væri einnig sérstök ástæða til að þakka þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem útveguðu og gáfu búnað til heilbrigðisstofnana.

„Píningsveturinn er að baki, sumarið heilsar okkur, lóan er komin og það á að hlýna í vikunni,“ sagði ráðherrann undir lok ávarpsins.