Eymundur Þórarinsson fæddist 26. ágúst 1951 í Saurbæ í Skagafirði. Hann lést 30. apríl 2020 á HSN á Sauðárkróki eftir baráttu við krabbamein.

Hann var sonur Þórarins Eymundssonar bónda í Saurbæ, f. 12. maí 1925, d. 13. ágúst 1976. Móðir hans er Margrét Björnsdóttir fyrrverandi húsfreyja í Saurbæ, f. 25. júní 1931.

Systkini Eymundar eru Sólborg Jóhanna, f. 8. febrúar 1953, Hörður, f. 14. ágúst 1955, og Hrefna, f. 7. janúar 1957.

Eymundur giftist 17. júní 1976 Sigríði Halldóru Sveinsdóttur, dóttur Sveins Jónssonar og Guðnýjar Friðriksdóttur á Hjallalandi í Sæmundarhlíð. Eymundur og Sigríður slitu samvistum 2008.

Börn þeirra eru: 1) Þórarinn, f. 19. janúar 1977. Eiginkona hans er Sigríður Gunnarsdóttir, þeirra börn eru Eymundur Ás, Þórgunnur og Hjördís Halla. 2) Hallgrímur, f. 19. maí 1978. 3) Heiðrún Ósk, f. 30. september 1985. Eiginmaður hennar er Pétur Örn Sveinsson og dóttir þeirra er Árdís Hekla.

Fyrir átti Eymundur dótturina Ástríði Margréti, f. 14. mars 1971, móðir hennar er Salmína Sofie Tavsen Pétursdóttir. Fyrrverandi eiginmaður Ástríðar er Már Halldórsson, synir þeirra eru Vignir Már og Orri Már.

Eymundur ólst upp í Saurbæ, gekk í Steinsstaðaskóla og síðar í Iðnskóla Sauðárkróks þar sem hann lærði húsasmíði og lauk meistaraprófi 1979. Eymundur bjó á Akureyri frá 1973 til 1977 þar sem hann vann við húsasmíðar. Þau hjónin tóku við búskap í Saurbæ 1976 ásamt Herði bróður Eymundar, eftir að faðir þeirra féll frá. Hann stundaði áfram húsasmíðar meðfram búskap og hélt úti byggingarflokki til ársins 1984 þegar Hörður seldi þeim hjónum sinn hlut í búinu.

Hann tók virkan þátt í félagsmálum, var m.a í stjórn Þroskahjálpar, Slátursamlags Skagfirðinga, Landverndarsamtaka Blöndu/Héraðsvatna og hestamannafélagsins Stíganda. Eymundur var frumkvöðull að kornrækt í Skagafirði og stofnaði Þreski ehf. ásamt fleirum. Hann var formaður Gullhyls ehf. sem sá um framkvæmd Landsmóts hestamannafélaga árin 2002 og 2006 á Vindheimamelum. Síðasti hreppstjóri Lýtingsstaðahrepps 1991-1998. Var félagi í Lionsklúbbi Skagafjarðar. Réttindamál fatlaðra brunnu á Eymundi, sér í lagi beitti hann sér fyrir umbótum í aðgengismálum.

Eymundur hætti búskap 2014, flutti á Sauðárkrók og sneri sér að sölumennsku í fyrirtæki sínu Bændaþjónustunni.

Útförin verður frá Sauðárkrókskirkju í dag, 8. maí 2020, klukkan 14.

Vegna aðstæðna þarf að takmarka aðgang að kirkjunni, en útvarpað verður frá athöfninni og hægt að hlusta í bílum á FM 107,2. Einnig verður hægt að fylgjast með streymi á facebooksíðu Sauðárkrókskirkju. Slóð á streymi: https://www.facebook.com/saudarkrokskirkja. Stytt slóð: https://n9.cl/wd0h. Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Í dag verður kvaddur hinstu kveðju Eymundur Þórarinsson, eiginmaður minn í 32 ár.

Við kynntumst fyrst sumarið 1972 þegar Eymundur vann í byggingaflokki sem kom í Sæmundarhlíðina. Vorið eftir flutti Eymundur til Akureyrar, þar sem ég var í skóla, og komst þar á samning hjá byggingafyrirtæki og lauk sveinsprófi vorið 1976.

Hann var ákaflega vinnusamur og greiðvikinn maður; þegar hann var að læra á Akureyri vann hann við smíðar og múrverk í aukavinnu, oft langt fram á kvöld. Hann var kappsamur og ósérhlífinn og vildi láta hlutina ganga.

Við byrjuðum búskap okkar á Akureyri, fyrst í leiguhúsnæði en síðar í eigin íbúð sem Eymundur smíðaði allar innréttingar inn í. Vorið 1977 fluttum við aftur í Skagafjörðinn, tókum við búinu í Saurbæ ásamt Herði bróður Eymundar, af foreldrum þeirra bræðra. Þar var strax hafist handa við að byggja upp og bæta og var vinnudagurinn oft langur. Fljótlega fór Eymundur einnig að vinna við húsasmíðar og stofnaði byggingaflokk. Þann tíma sem Eymundur var með byggingaflokkinn hvíldi búskapurinn meira á Herði bróður hans, en 1984 keyptum við hans hlut í búinu. Fyrstu árin var blandað bú í Saurbæ, en síðar nær eingöngu mjólkurkýr og hross. Eymundur var mikill ræktandi, lagði áherslu á að rækta góð tún og hafa góð hey, en einnig afurðamiklar kýr og góð hross. Hann var landverndarsinni og náttúrubarn og vildi vernda og græða upp landið. Hann var áhugasamur um allar nýjungar í vélvæðingu varðandi ræktun og heyskap. Hann var óhræddur við að prófa nýja hluti, réðist í verkefnin og lét hendur standa fram úr ermum.

Hann var félagslyndur maður og starfaði í mörgum félögum, naut þess að hafa marga í kringum sig, gat verið hrókur alls fagnaðar.

Eymundur var góður faðir, gerði kröfur til barnanna sinna en vildi allt fyrir þau gera. Hann hafði gaman af útreiðartúrum ef færi gafst, við höfðum alltaf ágæta reiðhesta, einnig barnahesta.

Þegar við hættum með mjólkurkýr 2003 var meiri áhersla lögð á hrossarækt og fjósinu breytt í hesthús. Eymundur var þá byrjaður að vinna sem sölumaður hjá Skeljungi, seldi bændum áburð.

Síðar stofnaði hann fyrirtækið Bændaþjónustuna og seldi bændum ýmsar landbúnaðarvörur.

Góður drengur er fallinn, ég er þakklát fyrir samfylgdina við hann, margar góðar minningar lifa.

Hvíl í guðs friði, elsku vinur.

Sigríður Halldóra Sveinsdóttir.

Kveðja frá móður

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú kominn er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Að leiðarlokum vil ég af alhug þakka þér, elsku Eymundur minn, allt sem þú gafst mér. Í hjarta mínu mun minningin um þig lifa að eilífu.

Mamma.

Það er komið að kveðjustund. Pabbi lést 30. apríl eftir langvinn veikindi og þó svo að hann hafi kvatt okkur allt of ungur að árum var hvíldin á þeim tímapunkti velkomin. En ég vil ekki minnast hans sem veiks manns, enda lét hann veikindi ekki aftra sér í neinu og vann fram á hinstu stund; síðasta verk hans var að fylgjast með uppskipun áburðar sem hann hafði selt nokkrum dögum fyrir andlát sitt. Heldur vil ég minnast hans sem athafnamanns, framsýns tækjakalls sem tók nýjungum með opnum örmum og var alltaf tilbúinn að stökkva á ný tækifæri.

Ég vil minnast hans sem ástkærs pabba sem tók skyldur sínar sem föður alvarlega og sinnti börnum sínum af ást og umhyggju þó að hann hafi líka kennt okkur gildi vinnu, dugnaðar og að gefast ekki upp þótt móti blási. Ég vil minnast hans sem yndislegs afa sem vildi hafa barnabörnin sem mest hjá sér og snúast í kringum þau.

Ég vil þakka honum fyrir allt það sem hann hefur gefið mér, ást á tónlist allt frá því að ég var barn því hann leyfði mér að fikta að vild í plötuspilaranum hans, allir útreiðartúrarnir á fallegum sumarkvöldum, ást á dýrum, ást á samveru með stórfjölskyldunni sem var honum svo mikilvæg, öll ferðalög sem við fórum, ekki síst stóra fjölskylduferðin síðastliðið sumar til Berlínar sem er einstaklega góð minning að hlýja sér við núna. Ég hefði viljað eiga svo mörg ár til viðbótar með þér, pabbi minn, en minning þín lifir með okkur.

Ástríður Margrét

Eymundsdóttir, Vignir Már og Orri Már.

Hann hleypur við fót og er rokinn af stað. „Að láta hlutina ganga“ gætu verið einkennisorð pabba. Hann byggði upp búið í Saurbæ á skömmum tíma, samhliða smíðavinnu, seinna verktakavinnu og sölumennsku. Að ógleymdri sjálfboðavinnu við félagsstörf. Pabbi var félagslyndur og átti einstaklega auðvelt með að kynnast fólki og spjalla. Hann var maður framkvæmda og hafði alltaf mörg járn í eldinum. Tími til tómstunda var sjaldnast mikill. Oft var þó lagt á eftir kvöldmatinn á sumrin og riðið í kaffi á nágrannabæjunum. Hestaferðir og ferðalög voru honum að skapi því þá bar alltaf eitthvað nýtt fyrir augu.

Pabbi kenndi mér að vinna, hann var kröfuharður og mest á sjálfan sig. Hann hafði gott verksvit og náði árangri í því sem hann tók sér fyrir hendur. Ekki var slakað á fyrr en takmarkinu var náð þótt stundum væri markið annað er lagt var upp með í upphafi. Hann kenndi mér að hafa „augun hjá mér“, fylgjast vel með öllu og sjá hvort eitthvað væri athugavert. „Taldir þú hrossin?“ var algeng spurning.

Að gera það sem hugurinn stendur til, þora að elta drauminn, var gott veganesti. „Má ég prófa Sokka?“ spurði ég. „Ræður þú við hann?“ var svarið. Með það var ég farinn að leggja á og sjálfstraustið óx með traustinu sem mér var sýnt.

Pabbi var réttsýnn og hjálpsamur, einkum gagnvart þeim sem stóðu höllum fæti. Hann barðist fyrir málefnum fatlaðra og aðgengismál voru honum hugleikin. Hann vildi sjá tröppur og þröskulda hverfa, benti á lausnir sem þykja sjálfsagðar í dag.

Pabbi hikaði ekki við að fara ótroðnar slóðir og taka áhættu. Hann var með fyrstu mönnum til að kaupa rúllubindivél. Fór norður í Eyjafjörð með áræðni og framsýni að vopni og keypti hross og hvílík hross! Gola frá Yzta-Gerði og Kraftur frá Bringu sem urðu margverðlaunaðir gæðingar hjá okkur Heiðrúnu. Hallgrím fékk hann til að sjá um tölvuvinnslu á mörgum Landsmótum, sem tókust með glæsibrag svo stoltið skein af ykkur mömmu í mótslok. Pabbi var fjölskyldumaður, hugsaði fyrst og síðast um hag okkar barnanna og hélt sterkum tengslum við stórfjölskylduna.

„Fé er jafnan fóstra líkt.“ Hestarnir hans voru snarir, þolnir og ósérhlífnir. Í göngum á Eyvindarstaðarheiði fór hann austastur á Hraunin, þar er færið þungt og dagleiðin löng og fáir voru betri að hleypa fyrir stóðhrossin.

Oft sagt að helstu styrkleikar séu á sama tíma helstu veikleikar. Þannig var pabbi, kappið var oft mikið og stundum einum of. Hann var hvatvís og án þess að hika var hann rokinn út í eitthvað sem eftir á að hyggja var misráðið. En það fannst pabba skárri kostur en að sjá á eftir vannýttum tækifærum. Pabbi hélt ótrauður áfram og lét ekkert stoppa sig, ekki einu sinni krabbann sem hann barðist við undanfarið. Þó að veikindin ágerðust og sjúkrahúsvistin tæki við hélt hann sölumennskunni áfram og við grínuðumst með að réttast væri að hengja merki Bændaþjónustunnar á herbergisdyrnar.

Ég minnist pabba með stolti og þakklæti fyrir allt sem hann gaf mér og kenndi. Pabbi, þín verður sárt saknað, hvíl í friði.

Þinn sonur,

Þórarinn.