Uppbygging í miðborginni Landsbankinn hyggst flytja í nýjar höfuðstöðvar við Hörpu árið 2022.
Uppbygging í miðborginni Landsbankinn hyggst flytja í nýjar höfuðstöðvar við Hörpu árið 2022. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Kórónuveirufaraldurinn og fjölgun fólks í fjarvinnu hefur ekki breytt áætlunum Landsbankans um nýjar höfuðstöðvar við Hörpu. Þetta kemur fram í skriflegu svari bankans við fyrirspurn blaðsins.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kórónuveirufaraldurinn og fjölgun fólks í fjarvinnu hefur ekki breytt áætlunum Landsbankans um nýjar höfuðstöðvar við Hörpu.

Þetta kemur fram í skriflegu svari bankans við fyrirspurn blaðsins.

Sagði þar að gert væri ráð fyrir að bankinn flytti starfsemi sína í nýjar höfuðstöðvar árið 2022.

Þá var spurt hvort faraldurinn hefði haft áhrif á áætlaða húsnæðisþörf bankans í húsinu.

„Áætluð húsnæðisþörf er óbreytt en húsakynnin sem bankinn mun nota í nýja húsinu eru tæplega helmingi minni en þau sem hann nýtir undir starfsemina nú.“

Betra að hafa fólkið í húsinu

Því næst var spurt hvort bankinn hefði mögulega endurmetið hversu margir starfsmenn gætu verið í fjarvinnu til frambúðar.

„Þótt fjarvinna/heimavinna hafi gengið vel, hjá þeim hluta starfsfólks sem hefur kost á því, og verði áfram notuð í einhverjum mæli, teljum við betra að starfsfólk komi að jafnaði til starfa á vinnustaðnum. Ekki hefur farið fram sérstakt endurmat á hlutfalli starfsfólks sem unnið getur í fjarvinnu,“ sagði í svari bankans.

Svo var spurt hvort bankinn hefði mögulega endurmetið væntar leigutekjur af öðrum hlutum hússins.

„Væntar leigutekjur hafa ekki verið endurmetnar og áfram er gert ráð fyrir að skrifstofu- og þjónustuhúsnæði á þessum fágæta stað verði til framtíðar eftirsótt til útleigu.“

Engin ákvörðun verið tekin

Loks var spurt hversu hátt hlutfall húsgagna í nýju höfuðstöðvunum yrði erlend framleiðsla.

Svarið var að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvernig kaupum á lausum búnaði yrði háttað.

Fram kom í tilkynningu frá bankanum í febrúar síðastliðnum að Landsbankinn myndi nýta um 60% höfuðstöðvanna, eða um 10 þúsund fermetra, en leigja frá sér eða selja um 40% byggingarinnar, eða 6.500 fermetra.

Áætlað var að höfuðstöðvarnar myndu kosta um 11,8 milljarða króna og að kostnaður við þann hluta sem bankinn myndi nýta væri 7,5 milljarðar. Bankinn myndi flytja starfsemi úr 12 húsum í miðborginni, ásamt stærstum hluta Borgartúns 33, undir eitt þak í nýju húsi.

Þegar bankinn birti þessar upplýsingar 7. febrúar síðastliðinn kostaði evran 137,9 krónur. Nú kostar hún hins vegar 20 krónum meira.

Af þessu tilefni var send sérstök fyrirspurn til bankans um hvort kostnaðurinn yrði fyrir vikið hærri.

„Kostnaðaráætlun hefur ekki verið uppfærð frá því sem kemur fram í ársskýrslu bankans en hafa bera í huga að kostnaðaráætlunin tekur breytingum í samræmi við þróun byggingavísitölu,“ sagði í svarinu.