Kjaraviðræður Samninganefndir funda næst á laugardag.
Kjaraviðræður Samninganefndir funda næst á laugardag. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir Erla María Markúsdóttir Verkfall félagsmanna Eflingar er þegar farið að hafa talsverð áhrif í þeim sveitarfélögum sem það tekur til.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Erla María Markúsdóttir

Verkfall félagsmanna Eflingar er þegar farið að hafa talsverð áhrif í þeim sveitarfélögum sem það tekur til. Mest eru áhrifin í Kópavogi þar sem loka hefur þurft fjórum grunnskólum og fjórum leikskólum. Þá er skólastarf einnig verulega skert á Seltjarnarnesi, en í Mosfellsbæ og Ölfusi er von á að verkföllin fari fljótlega að hafa áhrif. „Við höldum úti skólastarfi með ákveðnum takmörkunum þar sem meirihluti þeirra sem sjá um þrif í skólum eru félagsmenn Eflingar,“ segir Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Seltjarnarnesbæ. Alls starfa 23 félagsmenn Eflingar hjá bænum en verkfallið hefur mest áhrif á grunnskólann þar sem fimm starfsmenn sem sjá um þrif eru í verkfalli. Miðað er við að allir nemendur fái eitthvað að mæta í skólann í hverri viku, en áhersla er lögð á útiveru, íþróttir og skólasund og fá nemendur í 10. bekk forgang.

Samningafundi Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fer með samningsumboð fyrir hönd sveitarfélaganna fjögurra, lauk um klukkan níu í gærkvöldi. Boðað hefur verið til næsta fundar klukkan 10 á laugardag.

Vilja sömu hækkanir og í Reykjavík

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vildi lítið segja um gang mála að fundi loknum, annað en að samningaviðræður héldu áfram um helgina. Efling hefur sakað Samband íslenskra sveitarfélaga um að neita að gera sambærilegan samning við félagsmenn og þann sem Reykjavíkurborg, ríkið og Faxaflóahafnir hafa gert við stéttarfélagið. Hefur Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagt að samningar verði að taka mið af samningum sveitarfélaganna við önnur stéttarfélög.