Sífellt erfiðara verður að greina á milli efnahagsáhættu og heilbrigðisvár í umræðunni

Enn berast merki um að það reynir á þanþol efnahagslífsins, jafnvel þar sem staðið er vel að vígi. Þannig kom það flestum á óvart að Norski seðlabankinn skyldi lækka stýrivexti sína niður í núll í gær. Það er vissulega stutt skrefið úr 0,25% í núll en það getur þó skipt máli hvar þessi fjórðungslækkun er á kvarðanum. Það eru söguleg dæmi um að snúið getur reynst að koma í veg fyrir vaxtaspíral eftir „sálfræðilega“ lækkun af þessu tagi og þó kannski einkum efnahagslega stöðnun eða hægagang.

Japan er þekkt dæmi en þar stóð lágvaxtaskeiðið í tvo áratugi þótt ýmsar tilraunir væru gerðar til að brjótast út úr því.

Norska þjóðfélagsgerðin er önnur en hin japanska, þar sem meðalaldur er hinn hæsti í heimi, þröngbýlt og náttúruauðæfi önnur en í Noregi.

Þá er örlagavaldurinn núna, hvað Noreg varðar og allt heimsumhverfið, í raun afmarkaður og ekki glannalegt að ætla að þegar sú ógn sem frá honum stafar minnkar og væntanlega og vonandi tiltölulega hratt, þá standi innri gerð þjóðfélags og viðskiptalífsins að mestu ólöskuð og tilbúinn rammi um batnandi stöðu alls viðskiptalífsins.

Þótt ekki sé horft fram hjá fjölmörgum óvissuþáttum um eðli og þróun kórónuvírussins þá má ganga út frá margvíslegri þekkingu um farsóttir á heimsvísu fram að þessu.

Eftir „aðeins“ þrjá mánuði virðast ótvíræðar vísbendingar vera um að pestin sé nánast hvarvetna á undanhaldi og það sé ekki óraunsætt að vænta þess að varnarstöðvar fólksins í þessa háttar stríði, heilbrigðiskerfið, hafi að mestu staðið af sér verstu áhlaupin.

Tími gefist nú til að safna kröftum og efnislegum þáttum sem geri þjóðum léttara að standa af sér nýja bylgju, sem sumir óttast að kunni að koma, áður en veiran og faraldurinn sem hún kveikti verði endanlega úr sögunni.