[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Ronald Koeman , þjálfari hollenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og fyrrverandi knattspyrnustjóri Everton og Southampton, kveðst vera stálhress á ný eftir að hafa gengist undir hjartaþræðingu.

* Ronald Koeman , þjálfari hollenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og fyrrverandi knattspyrnustjóri Everton og Southampton, kveðst vera stálhress á ný eftir að hafa gengist undir hjartaþræðingu. Koeman, sem er 57 ára gamall, var fluttur á sjúkrahús á sunnudaginn eftir að hafa fengið verki fyrir brjósti og fór beint í aðgerð. Hann skýrði frá því á Twitter að hann væri orðinn stálhress, þakkaði læknum í Amsterdam fyrir snögga og frábæra hjálp. „Svona lagað kemur manni niður á jörðina. Þetta var talsverð viðvörun, fyrir sjálfan mig fyrst og fremst en líka fyrir fjölskyldu og vini,“ sagði Koeman sem hefur stýrt hollenska landsliðinu undanfarin tvö ár.

* Mette Frederiksen , forsætisráðherra Danmerkur, staðfesti í gær að liðin í tveimur efstu deildum karla mættu byrja að spila leiki frá og með næsta mánudegi og hefja deildakeppnina eins fljótt og mögulegt er eftir það. Leikið verður án áhorfenda, æfingar geta hafist án takmarkana á morgun, föstudag, og stjórn deildakeppninnar hefur gefið út að fyrstu leikir verði spilaðir 29. maí. Félögin í úrvalsdeild karla eiga eftir að spila átta til þrettán leiki, eftir því hvort þau enda í efri eða neðri hluta deildarinnar að 26 umferðum loknum en búið er að spila 24 umferðir.

*Ítalska knattspyrnufélagið Fiorentina skýrði frá því í gær að þrír leikmenn liðsins og þrír úr læknateymi þess hefðu greinst með kórónuveiruna eftir að hafa farið í próf í fyrradag. Þessir sex væru allir komnir í einangrun. Sampdoria greindi síðan frá því að þar hefðu fjórir leikmenn reynst smitaðir. Ítölsku liðin eru byrjuð að æfa en í litlum hópum og með tveggja metra fjarlægðarreglunni og vonast er eftir því að þau megi byrja að æfa eðlilega 18. maí.

*Kaupmannahöfn verður áfram einn af keppnisstöðunum á Evrópumóti karla í knattspyrnu sumarið 2021 en blikur voru á lofti eftir að frestanir vegna kórónuveirunnar settu bæði mótið og hjólreiðakeppnina Tour de France úr skorðum. Upp var komin sú staða að leikir á EM í Kaupmannahöfn myndu rekast á upphafið á Tour de France, en báðum viðburðunum var frestað til sumarsins 2021. Danska knattspyrnusambandið og borgarráð Kaupmannahafnar skýrðu frá því á fréttamannafundi síðdegis í gær að samkomulag hefði nást um skipan mála. Fjórir leikir á EM verða spilaðir í Kaupmannahöfn, eins og ráð var fyrir gert, og í kjölfarið verða þrjár dagleiðir af Tour de France haldnar í Danmörku.

* Viðar Örn Kjartansson , landsliðsmaður í knattspyrnu, verður áfram í röðum Yeni Malatyaspor í Tyrklandi en tyrkneska félagið hyggst kaupa hann af Rostov í Rússlandi að þessu tímabili loknu. Viðar kom til félagsins sem lánsmaður í janúar og hefur skorað eitt mark í fyrstu sjö umferðunum. Lið hans er í fimmtánda sæti af átján liðum þegar átta umferðum er ólokið en Tyrkir ætla að halda áfram með deildakeppnina 12. júní.