Drama Jane og Petra eiga fátt sameiginlegt, annað en barnsföðurinn.
Drama Jane og Petra eiga fátt sameiginlegt, annað en barnsföðurinn.
Ég var ansi sein að hoppa um borð í Jane the Virgin-lestina, en loks þegar ég var komin með báða fætur um borð varð ekki aftur snúið.

Ég var ansi sein að hoppa um borð í Jane the Virgin-lestina, en loks þegar ég var komin með báða fætur um borð varð ekki aftur snúið. Þegar þættirnir voru nýir gaf ég þeim tækifæri en gafst fljótt upp enda skildi ég illa húmorinn, en þættirnir eru eins konar skopstæling á telenóvelunni og er raunar nauðsynlegt að átta sig á því til að njóta þeirra almennilega.

Eins og í klassískri telenóvelu er dramað sannarlega mikið og það sem persónurnar þurfa að ganga í gegnum er jafn spennandi og það er ótrúlegt. Sögumaðurinn, sem ég hafði engan húmor fyrir í fyrstu, leikur stórt hlutverk í að byggja upp og brjóta niður spennu á ögurstundum og þegar áhorfandinn heldur að atburðarásin geti ekki orðið brjálæðislegri hefur hann alltaf rangt fyrir sér.

Þættirnir snúast að einhverju leyti um ást persónanna á telenóvelum og fær áhorfandinn að kynnast klassískum fléttum í gegnum þær, en hann, eða allavega undirrituð, er alltaf jafn hissa þegar sömu fléttur eru notaðar í þættinum sjálfum. Þannig stóð ég sjálfa mig að því að taka raunveruleg andköf, sem ég hafði svo oft hlegið að í þáttunum, þegar ein stærsta flétta söguþráðarins leit dagsins ljós. Og áttaði mig svo á að sögumaðurinn hafði verið að undirbúa mig undir þetta nánast síðan í fyrsta þætti.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Höf.: Þorgerður Anna Gunnarsdóttir