Magafylli Yfir 40 ferskar loðnur komu úr einum þorskmaga.
Magafylli Yfir 40 ferskar loðnur komu úr einum þorskmaga.
Nokkuð hefur verið um tilkynningar til Hafrannsóknastofnunar síðustu vikur um fullorðna loðnu inni á fjörðum fyrir norðan land og jafnvel rekna á fjörur, t.d. í Hrútafirði.

Nokkuð hefur verið um tilkynningar til Hafrannsóknastofnunar síðustu vikur um fullorðna loðnu inni á fjörðum fyrir norðan land og jafnvel rekna á fjörur, t.d. í Hrútafirði. Strandveiðimenn í Eyjafirði töluðu í vikunni um að þorskurinn væri stútfullur af loðnu. Utar við Eyjafjörðinn veiddist vel af þorski í gær og mikið var af loðnu í þorskmögunum, í mörgum tilvikum var hún hrognafull. Einn þorskanna hafði sporðrennt um 40 loðnum áður en hann beit á krók veiðimannsins í Arnarnesvík utan við Hjalteyri.

Birkir Bárðarson fiskifræðingur segir að fréttir um hrygningarloðnu fyrir Norðurlandi komi ekki á óvart. Síðustu ár hafi talsvert af loðnunni hrygnt fyrir norðan og ljóst sé að hrygning hafi verið að aukast þar. Miðað við rannsóknir vetrarins hafi allnokkuð magn verið á ferðinni fyrir norðan, en hvorki liggi fyrir hversu mikið, né hversu stór hluti af heildinni hafi hrygnt þar. Birkir segist telja að meginhrygningunni fyrir norðan sé lokið, en oft sé eitthvað um seinni hrygningu, jafnvel fram á sumar. aij@mbl.is