Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Í fyrsta skipti í sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu hefst það á keppni í efstu deild kvenna en þar verður leikin heil umferð áður en keppni í karladeildinni fer af stað.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Í fyrsta skipti í sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu hefst það á keppni í efstu deild kvenna en þar verður leikin heil umferð áður en keppni í karladeildinni fer af stað.

Knattspyrnusamband Íslands gaf út í gær niðurröðun Íslandsmótsins 2020, með fyrirvara um breytingar sem geta orðið seinni hluta tímabilsins. Mótið átti að hefjast 22. apríl hjá körlum og 30. apríl hjá konum en var frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildin, hefst föstudagskvöldið 12. júní með viðureign Vals og KR á Hlíðarenda.

Daginn eftir eru hinir fjórir leikirnir í fyrstu umferðinni, Fylkir – Selfoss, Breiðablik – FH, Þór/KA – Stjarnan og ÍBV – Þróttur R.

Stórleikur á laugardagskvöldi

Úrvalsdeild karla, einnig kennd við Pepsi Max, hefst síðan á laugardagskvöldinu 13. júní, þegar kvennaleikjunum er lokið. Þar er líka byrjað með leik Vals og KR á Hlíðarenda en hann á að hefjast klukkan 20.

Á sunnudeginum 14. júní mætast síðan HK – FH, ÍA – KA, Víkingur R. – Fjölnir og Breiðablik – Grótta en umferðinni lýkur með leik Stjörnunnar og Fylkis mánudagskvöldið 15. júní.

Áætlað er að úrvalsdeild karla ljúki laugardaginn 31. október en þann dag eiga allir leikir lokaumferðarinnar að fara fram.

Síðasta umferðin hjá konunum á hinsvegar að fara fram sunnudaginn 11. október.

*Keppni í 1. deild kvenna á að hefjast 18. júní og ljúka 2. október.

*Keppni í 1. og 2. deild karla á að hefjast 19. júní og ljúka 10. október.

*Keppni í 3. deild karla á að hefjast 18. júní og ljúka 10. október.

*Keppni í 4. deild karla á að hefjast 16. júní og ljúka 26. september.

*Bikarkeppni karla verður seint á ferð, hún á reyndar að hefjast fyrst, 5. júní, en lýkur með úrslitaleik á Laugardalsvelli 7. nóvember.

*Bikarkeppni kvenna hefst 7. júní og lýkur með úrslitaleik á Laugardalsvelli 17. október.

*Valur og Selfoss mætast í Meistarakeppni kvenna á Hlíðarenda laugardaginn 6. júní.

*KR og Víkingur R. mætast í Meistarakeppni karla í Vesturbænum sunnudagskvöldið 7. júní.