Nokkuð harðar umræður urðu um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins á Alþingi í vikunni, það var helst hin svokallaða Borgarlína og áætlanir um hana sem þingmenn voru ósammála um.

Nokkuð harðar umræður urðu um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins á Alþingi í vikunni, það var helst hin svokallaða Borgarlína og áætlanir um hana sem þingmenn voru ósammála um. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, fór fremstur í vörninni og Bryndís Haraldsdóttir fylgdi með.

Auðvitað eru fulltrúar sveitarfélaga eins og Mosfellsbæjar, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogs áhugasamir um framgang verkefnisins. Kostnaður þeirra er hverfandi og í staðinn fá þessi nágrannasveitarfélög Reykjavíkur prýðilegar almenningssamgöngur að Hlemmi. Reikningurinn á ríkissjóð verður að líkindum um 44 milljarðar vegna Borgarlínunnar, en 105 milljarðar vegna allra þátta samgöngusáttmálans. Að því gefnu að kostnaðaráætlanir haldi. Eins líklegt og það er.

Hvað er Borgarlína? Eru 200 þúsund manna samfélög, dreifð yfir jafn stórt svæði og Reykjavík og nágrannasveitarfélögin, með borgarlínu? Er skynsamlegt að verja fimmtíu milljörðum af almannafé (framlag ríkis og sveitarfélaga) í þetta verkefni á sama tíma og samningur sem gerður var árið 2012 um stórframkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu, og aukamilljarð á ári í strætó virðist skila litlu sem engu? Er réttlætanlegt að þvinga fram markmið Borgarlínu með því að þrengja að fjölskyldubílnum, sem er þrátt fyrir allt sá samgöngumáti sem meirihluti íbúa höfuðborgarsvæðisins hefur valið?

Hluti vandans er hvernig Reykjavíkurborg hefur með ákvörðunum sínum í skipulagsmálum haldið uppbyggingu stofnbrautakerfis höfuðborgarsvæðisins í gíslingu undanfarin kjörtímabil. Í því samhengi skipta ákvarðanir nágrannasveitarfélaganna sáralitlu. Engin Sundabraut, engin mislæg gatnamót, umferðargötur þrengdar og dregið að innleiða nútíma ljósastýringar á gatnakerfinu (sem gæti minnkað þann tíma sem bílar eru stopp á gatnamótum um 30-40%!!). Allt með það að markmiði að hægja á umferð fjölskyldubílsins, skapa umferðarhnúta og valda pirringi. Reykjavíkurborg hefur nýtt skipulagsvaldið til að þrengja að umferð í stað þess að liðka fyrir henni.

Í fyrra, árið 2019, varð í fyrsta skipti síðan 2012 hækkun á hlutfalli farinna ferða með almenningssamgöngum úr 4% í 5%, ef það er raunin nú, eftir óbreytt hlutfall árum saman, að aukning sé að verða á notkun Strætó, er þá ekki rétt að hinkra aðeins við og sjá hvort sú þróun heldur áfram? Ef markmiðið er að 8% ferða verði farin með almenningssamgöngum, eins og Bryndís Haraldsdóttir hélt fram í vikunni, þá verður því marki náð 2023 ef þróun síðasta árs heldur áfram. Ég er hræddur um að svo verði ekki, en af hverju eru hörðustu stuðningsmenn svokallaðrar Borgarlínu svona mótfallnir því að láta á það reyna?

Það eru fáir vinir skattgreiðenda í Borgarlínuhópnum.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is