[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Við hér á Seltjarnarnesi erum orðin langþreytt á því hvernig málum sem þessu er hugsunarlaust ýtt áfram.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Við hér á Seltjarnarnesi erum orðin langþreytt á því hvernig málum sem þessu er hugsunarlaust ýtt áfram. Geirsgata er, ásamt Hringbraut, samgönguæð okkar og það verður að tryggja gott flæði bílaumferðar á þessum götum í stað þess að þrengja sífellt að. Það voru því gríðarleg vonbrigði að upplifa þetta mikla samráðsleysi hjá Reykjavíkurborg,“ segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hann í máli sínu til framkvæmdar við Geirsgötu í miðbæ Reykjavíkur. Er þar verið að setja upp nýja stoppistöð Strætó og hefur það vakið talsverða athygli að ekkert útskot fylgir stöðinni, líkt og greint var frá hér í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag. Þetta veldur því að strætisvagnar munu þurfa að stoppa á miðri akbraut til að hleypa farþegum sínum inn og út úr vagninum með fyrirséðum töfum á umferð um Geirsgötu.

Í kjölfar fréttaflutnings blaðsins af málinu var framkvæmd Reykjavíkurborgar tekin fyrir á fundi hjá skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar. Telur nefndin að framkvæmdirnar séu ekki í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um skipulag svæðisins, sem undirritað var 12. nóvember 2013, þar sem þær þrengi að umferð að Seltjarnarnesi. Telur nefndin það jafnframt vera ámælisvert að ekki hafi verið haft samráð við Seltjarnarnesbæ og hefur skipulagsfulltrúi þegar komið athugasemdum á framfæri við Reykjavíkurborg vegna þessa.

Verkið sé víðáttuvitleysa

Magnús Örn segir framkvæmdina við Geirsgötu einnig verða til umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi og að bæjarstjóri Seltjarnarness muni senda borgarstjóra erindi þar sem verkinu er mótmælt. Segir hann allra leiða verða leitað til að fá útfærslu á stoppistöðinni breytt.

„Ég held að þessi framkvæmd sé bara gríðarlega illa undirbúin, enda stenst hún ekki einu sinni samkomulag okkar við borgina. Það má ekki gleyma að um Geirsgötu er mikil og þung umferð, bæði í Vesturbæinn og á Nesið en einnig á þjónustusvæðið á Granda, svo ekki sé minnst á olíuflutninga. Það verður að tryggja góðar og öruggar samgöngur á milli sveitarfélaga og ég efast um að Strætó telji þetta vera heppilegustu lausnina, einkum í ljósi umferðaröryggis,“ segir hann.

Þá segir Magnús Örn það undarlegt að Reykjavíkurborg skuli fremur kjósa róttæka aðgerð í stað þess að fara skynsamlegan milliveg í góðri sátt og samráði við aðra.

„Það er alltaf verið að tala um að þörf sé á því að gera öllum jafn hátt undir höfði í umferðinni. Hér er beinlínis verið að fara þvert á það. Það hefði verið svo einfalt að útfæra þetta öðruvísi enda mikið pláss á þessu svæði. En í stað þess að hafa alla sátta þá tókst mönnum einhvern veginn að klúðra því. Manni fallast hreinlega hendur, svona útfærsla er ekkert annað en víðáttuvitleysa og við munum krefjast breytinga.“

Verða að treysta á rétt mat

Jóhannes Svavar Rúnarsson er framkvæmdastjóri Strætó. Hann segir sveitarfélög ákveða staðsetningu stoppistöðva. „Við verðum bara að treysta því að þessi sveitarfélög séu að vinna í samræmi við það sem þau telja best fyrir farþegana og aðra vegfarendur,“ segir hann.

Nánar má lesa um þetta á mbl.is.

Spurðu ekki um leyfi áður

Geirsgata í Reykjavík hefur lengi verið einn af stofnvegum landsins, en með því er átt við vegi sem tengja saman byggðir landsins og eru þeir í umsjá Vegagerðarinnar. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir Geirsgötu nú vera það sem kalla má „skilaveg“ og mun gatan fara í umsjá Reykjavíkurborgar um næstu áramót með lagabreytingu. G. Pétur segir Reykjavíkurborg ekki hafa ráðfært sig við Vegagerðina áður en tekin var ákvörðun um að koma umræddu strætóskýli fyrir við Geirsgötu. Spurður hvort borgin hefði átt að gera það svarar hann:

„Vegurinn er enn í okkar umsjá og því hefði verið kurteisi að gera það. En kannski gerði borgin það ekki því við höfum til þessa ekki verið að setja okkur upp á móti breytingum þarna því vegurinn er að færast yfir til þeirra. Þeir hafa bara litið svo á að það sé ekki sérstök þörf á því.“

Fyrri ummæli
» Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði framkvæmdina ekkert annað en hluta af þrengingarstefnu meirihlutans í Reykjavík.
» Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sagði óþarft að hafa áhyggjur af stoppistöðinni. Ekki sé vilji hjá borginni til að hafa umferðarhávaða í miðbænum.
» Þetta snýst um forgangsröðun ferðamáta, sagði hún.