Svana Sigtryggsdóttir fæddist á Innri-Kleif í Breiðdal 28. maí 1953. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 19. apríl 2020.

Foreldrar hennar voru Sigtryggur Runólfsson, f. 1921 og Guðbjörg Sigurpálsdóttir, f. 1926, þau eru bæði látin. Systkini Svönu eru: Jón Guðlaugur, f. 1944, Fríða Hrönn, f. 1946, d. 2009, Rósa Pálína, f. 1947, Magnús Arnar, f. 1948, d. 1990, Sigrún, f. 1949, Vilberg Smári, f. 1951, Hreinn Ómar, f. 1952, Runólfur, f. 1955, Svala, f. 1956, og drengur, f. 1958, d. 1959.

Eiginmaður Svönu var Ingólfur Árni Sveinsson f. 9. apríl 1947, d. 16. júní 2002. Börn þeirra eru: 1) Ólafía Rósbjörg, f. 1974, maki Jón Óskar Pétursson. Börn þeirra eru Viktor Ingi Jónsson, maki Dagrún Sól Barkardóttir, Vala Björk og Sara Kristín. 2) Unnsteinn Fannar, f. 1975, börn hans eru Ingólfur Þór og Sunna Karen. 3) Jón Loftur, f. 1980, maki hans er Elísa Sigríður Guðmundsdóttir. Þeirra börn eru Eydís Emma, Aldís Lilja, Fanney Dís og Svandís Lóa. 4) Guðbjörg Lilja, f. 1985, hennar sonur er Alexander Máni.

Svana fluttist ung með foreldrum sínum og systkinum til Reykjavíkur þar sem fjölskyldan bjó lengst af í Heiðargerði. Þar gekk Svana í Breiðagerðisskóla og síðar Réttarholtsskóla. Svana vann hin ýmsu störf, m.a. var hún eitt ár sem au pair í Bandaríkjunum, vann í Skíðaskálanum í Hveradölum og á Umferðarmiðstöðinni BSÍ. Árið 1972 kynntist hún eiginmanni sínum Ingólfi og giftust þau á Þingvöllum 3. júní 1973. Árið 1978 fluttu þau hjónin ásamt börnum sínum og ömmu Ingólfs að Syðri- Kárastöðum í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem þau hjónin hófu búskap. Svana vann samhliða búinu í sláturhúsi KVH, Kaupfélagi V-Húnvetninga, og Meleyri en lengst af vann hún í Grunnskóla Húnaþings vestra. Haustið 2015 fluttist hún til Hafnarfjarðar, þar sem hún vann um tíma í Hraunvallaskóla og síðar á Skálatúnsheimilinu í Mosfellsbæ, en þar starfaði hún er hún lést.

Svana var ein af Húsfreyjunum á Vatnsnesi, félagsskap sem séð hefur um ýmsar uppákomur á Vatnsnesinu og góðgerðarstörf.

Útför Svönu verður frá Hvammstangakirkju í dag, 8. maí 2020, klukkan 14. Vegna aðstæðna í samfélaginu verður athöfninni útvarpað á FM 106,5 á Hvammstanga og einnig verður henni streymt á slóðinni: http://www.smashcast.tv/sigurvald. Stytt slóð á streymi: https://n9.cl/71ff. Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Elsku mamma. Það er sárara en tárum taki að þú sért farin. Fallega, sterka, ósérhlífna, duglega mamma mín. Þú sagðir eitt sinn að þú vildir ekki að skrifaðar yrðu um þig minningargreinar, fyrirgefðu en ég get ekki farið eftir því.

Þetta kom svo óvænt, þú varst alltaf svo hress og kát og drífandi.

Ég hélt að ekkert gæti bitið á þér. Þú stóðst upp aftur eftir allt sem þú hafðir upplifað, t.d. ótrúlega erfitt ár þegar pabbi lést og húsið brann. Það var aðdáunarvert hvað þið pabbi voruð samheldin og unnuð vel saman.

Þú hélst áfram og sinntir vinnu þinni, áhugamálum og okkur börnunum og barnabörnunum. Það voru komin umsóknareyðublöð fyrir vegabréf í hús þegar hann dó. Loksins ætluðuð þið að leyfa ykkur að ferðast til útlanda og njóta ykkar. Þú lést verða af því að fara nokkrar ferðir og alltaf naustu þín.

Þú ert sú sem hefur haldið mér uppi síðastliðin 2 ár, án þín væri ég ekkert. Þú gast ekki beðið eftir að komast norður um páskana, hafðir ekki komist svo lengi vegna veðurs og veiru. Sú ferð endaði ekki vel.

Þú sagðir alltaf við stelpurnar að þær væru heppnar að eiga svona klikkaða ömmu, þú hafðir rétt fyrir þér. Það er ómetanlegt að eiga svona ömmu og mömmu. Ekki bara pínulítið klikkaða heldur svona ömmu og mömmu sem stóð með okkur í gegnum súrt og sætt.

Ég sit í stofunni á kvöldin og bíð eftir að þú komir úr vinnunni, en þú kemur ekki, sest ekki niður og horfir á einn þátt með mér og sefur yfir honum hálfum. Þú kemur ekki og sækir Emblu til að fara í göngutúr, þú kemur ekki og drífur mig áfram í því sem þarf að gera, þú kemur ekki heim aftur.

Þú varst svo sterk, elsku mamma, en þú réðir ekki við þetta síðasta verkefni sem þú fékkst, það hefði reynst öllum ofviða.

Jafnvel á sjúkrabeðinum hafðir þú meiri áhyggjur af öðrum en þér og það lýsir þér svo vel.

Þú varst svo drífandi, skapandi, listræn, dugleg, dreifst þig í verkefnin og sást enga ástæðu til að bíða með þau.

Þú ert fyrirmynd mín, kletturinn minn, besti vinur minn.

Eftir standa góðar minningar sem ég mun varðveita. Elska þig endalaust.

Þín dóttir

Ólafía (Lóa).

Elsku amma mín.

Ég trúi ekki að þú sért farin. Þú sem varst svo hress og kát, labbaðir á stultum, klifraðir upp í stóra stiga, sippaðir og gerðir margt, margt fleira. Ég held að þú hafir getað gert allt. Það eru ekki allir jafn heppnir og ég að hafa átt svona skemmtilega og klikkaða ömmu.

Þú varst alltaf að stjana í kringum mig. Það var alltaf gaman að koma í uppáhaldssveitina þína og vera með þér. Mér fannst ekkert skemmtilegra en að vera með þér að föndra einhver listaverk. Sakna þín.

Þú ert fyrirmyndin mín, besta vinkona mín og sterkasta kona sem ég veit um.

Ég elska þig.

Þín

Vala Björk.

Elsku besta amma mín.

Þú ert frábær amma og skemmtileg.

Ég elska þig svo mikið. Og ég sakna þín svo mikið.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert. Elska þig.

Þín

Sara Kristín.