Vinsæl Úr ´Síðustu veiðiferðinni sem sýningar eru hafnar á að nýju.
Vinsæl Úr ´Síðustu veiðiferðinni sem sýningar eru hafnar á að nýju.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Smárabíó var opnað á mánudaginn, 4. maí, þegar samkomubanni lauk og mega nú 50 að hámarki vera í sal og með tilskilið bil sín á milli, tvo metra.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Smárabíó var opnað á mánudaginn, 4. maí, þegar samkomubanni lauk og mega nú 50 að hámarki vera í sal og með tilskilið bil sín á milli, tvo metra. Líkt og önnur kvikmyndahús hefur Smárabíó orðið fyrir tekjutapi og segir Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri kvikmyndahússins sem heyrir undir fyrirtækið Senu, að líf og fjör verði nú aftur í bíóinu og áfram sýndar þær myndir sem voru í sýningum áður en bannið skall á og skellt var í lás.

„Við komum ekki 50 manns í alla sali því við verðum að hafa tveggja metra regluna í hávegum. Í Max-salinn og sal 2 komum við 50 manns í hvorn sal en í Lúxus-salinn töluvert minna og sama má segja um sali 4 og 5,“ segir Ólafur. Miðað við tveggja metra regluna komist ekki fleiri en um 80 í Max-salinn, sem rúmi annars 300 manns.

Fljótandi frumsýningar

Á vef Smárabíós, smarabio.is, má sjá hvaða kvikmyndir eru á dagskrá og er gamanmyndin Síðasta veiðiferðin þeirra á meðal en sýningar á henni voru nýhafnar þegar loka varð kvikmyndahúsum landsins. Hún ætti því að eiga nóg inni hvað aðsókn varðar. „Ég held að hún geti orðið ansi stór,“ segir Ólafur og líkir í myndinni við Stellu í orlofi þar sem laxveiði kemur líka við sögu.

–Nú hefur frumsýningum margra Hollywood-mynda verði frestað og þá m.a. mynda sem áttu að verða sumarsmellir. Hvernig verður frumsýningum háttað hjá ykkur?

„Þær verða svolítið fljótandi. Það munu alltaf koma upp einhverjar vangaveltur hjá stúdíóunum, sem eru að reyna að stilla miðið til að hámarka aðsóknina sem mest að myndum sínum. Við gætum séð fljótandi daga á stærstu myndunum, allt eftir því hvernig samkomubönn þróast í öðrum löndum. En eins og þetta lítur út núna erum við að sýna fyrstu rúmu vikuna bara þessar myndir sem voru í sýningum þegar við lokuðum og svo fara að tínast inn myndir eftir það. Þetta lítur ágætlega út núna en gæti auðvitað breyst, myndir bæst við eða dottið út. Þetta er svolítið fljótandi,“ segir Ólafur en sjá má á vef bíósins hvaða kvikmyndir eru væntanlegar eins og staðan er. Ein þeirra er Capone með Tom Hardy í aðalhlutverki.

Traustið mikilvægt

Ólafur segir bæði mikilvægt að fá inn nýjar myndir og byggja upp traust svo að fólk mæti aftur í bíó. „Við höfum verið að nýta tímann þennan rúma mánuð svolítið í það, erum með snertilausar lausnir eins og appið okkar og heimasíðu þar sem hægt er að kaupa bæði veitingar og miða. Svo erum við með sjálfsala hérna í stað miðasölu og þeir eru þrifnir ótt og títt.“

–Munið þið sýna eldri, klassískar myndir? Hefur það verið rætt?

„Algjörlega og við erum í raun að skoða alla möguleika. Hlutverk okkar er að skapa minningar hjá fólki og margir eiga góðar minningar um gamla smelli. Gestir okkar hafa verið duglegir að koma með ábendingar og við þökkum kærlega fyrir þær. Okkur hafa verið sendar tillögur á Facebook og með tölvupósti að myndum sem fólk væri til í að sjá aftur og við munum á næstu dögum fara yfir hvað er í boði og hvað við getum mögulega sýnt. Þá erum við að tala um að gera þetta að viðburði, nýta skemmtisvæðið okkar og salina þannig að þetta verði ógleymanleg upplifun.“