Stoltur Frosti Freyr Davíðsson fékk Íslenskuverðlaun unga fólksins 2019.
Stoltur Frosti Freyr Davíðsson fékk Íslenskuverðlaun unga fólksins 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Frosti Freyr Davíðsson, 11 ára ljóðskáld í 6. bekk Kelduskóla, Vík í Grafarvogi, nýtti aukinn frítíma í samkomubanninu undanfarnar vikur vel og er farinn að hugsa um að gefa út aðra ljóðabók. „Ég les mikið, bæði sögur og ljóð, og hlusta alltaf á hljóðbækur þegar ég er úti að ganga í hverfinu, hef þá fengið margar hugmyndir, sérstaklega þegar ég hef verið á gangi í fjörunni og velt við steinum,“ segir hann.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Frosti Freyr Davíðsson, 11 ára ljóðskáld í 6. bekk Kelduskóla, Vík í Grafarvogi, nýtti aukinn frítíma í samkomubanninu undanfarnar vikur vel og er farinn að hugsa um að gefa út aðra ljóðabók. „Ég les mikið, bæði sögur og ljóð, og hlusta alltaf á hljóðbækur þegar ég er úti að ganga í hverfinu, hef þá fengið margar hugmyndir, sérstaklega þegar ég hef verið á gangi í fjörunni og velt við steinum,“ segir hann.

Í nóvember í fyrra sendi Frosti frá sér ljóðabókina Lífið og leikendur með um 40 ljóðum um samferðafólk og fleira. Á degi íslenskrar tungu fékk hann Íslenskuverðlaun unga fólksins 2019 fyrir ljóðaáhuga og skrif, og eftirfarandi ljóð, „Munum við öll deyja“, var framlag hans í ljóðasamkeppni á Ljóðadögum Óperunnar 2019:

Gróðurinn er að brenna

ferskt vatn hættir að renna.

Hitinn er að hækka

á meðan jöklarnir lækka.

Dýr eru að deyja

við megum ei ruslinu fleygja.

Að flokka þarf að nenna,

það þarf öllum að kenna.

Hvað um framtíðarbarnabörnin

já eða fljúgandi örninn.

Munum við öll deyja

eða ætlum við eitthvað að segja?

„Ég er alltaf að semja ljóð en samt ekki eins mikið og áður en ég gaf út bókina,“ segir Frosti, sem byrjaði að spreyta sig á ljóðagerð í 2. bekk. „Þá fannst mér rímorð alltaf skemmtileg, prófaði að setja þau saman og til urðu ljóð.“

Stríðinn lestrarhestur

Frosti segir að íslenskan sé skemmtilegasta fagið og hún ásamt lestri bóka ýti undir skáldskapinn. „Ég er svolítill lestrarhestur, yrki mest um persónur í mínu lífi og svo það sem mér dettur í hug.“ Hann leggur áherslu á að sérstaklega sé gaman að yrkja um fólk og ættingja. „Mér finnst alltaf best að hafa smá grín í ljóðunum, að stríða þeim aðeins.“ Hann áréttar að allir hafi tekið ertninni vel og hann hafi meðal annars gefið frændum sínum sérprentuð ljóð í afmælisgjöf auk þess sem hann hafi ort ljóð um forseta Íslands og þess vegna gefið honum bókina. „Ég orti ljóðið „Bumbubúann“ um systur mína, þegar hún var í maganum á mömmu, og hef verið að hugsa um að yrkja annað ljóð um hana síðan hún fæddist fyrir tveimur og hálfum mánuði.“

Undanfarin tvö ár hefur Frosti æft karate og hann segist vera mikið á hjólabretti á sumrin, en þegar hann hafi verið heima vegna kórónuveirunnar hafi hann meðal annars lært að sauma poka hjá mömmu sinni. „Eitt mesta áhugamálið mitt er að fara í fjöruna og safna steinum og nú er ég helst að semja um náttúruna, steina og allskonar svoleiðist.“ Hann segir að til standi að fara í hringferð um landið með fjölskyldunni í sumar, bæta í steinasafnið og fá hugmyndir. Þangað til verður „Töffari“, sem hann samdi um sig sjálfan, uppáhaldsljóð skáldsins:

Þegar ég klæðist skyrtu og skóm

þá heyrist klukknahljóm.

Er stelpurnar sjá mig verða þær trylltar

ég segi þeim að vera stilltar.