Stuðbolti Helgi Björns skemmti landanum vikulega í samkomubanni.
Stuðbolti Helgi Björns skemmti landanum vikulega í samkomubanni. — Ljósmynd/Mummi Lú
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, mælir með list, afþreyingu og dægradvöl á tímum Covid-19. „Það eru tveir menn sem hafa sett svip sinn á Covid-tímann minn. Báðir hafa hafa mætt mér í gegnum tæknina.

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, mælir með list, afþreyingu og dægradvöl á tímum Covid-19.

„Það eru tveir menn sem hafa sett svip sinn á Covid-tímann minn. Báðir hafa hafa mætt mér í gegnum tæknina. Annar er Helgi Björns vinur minn, sem hefur skemmt mér og nánast allri þjóðinni á laugardögum. Vandað og skemmtilegt efni og gaman að sjá hvernig honum tekst nánast fumlaust að skemmta öllum aldurshópum þjóðarinnar á sama tíma og það er eins og þjóðin stilli bara Covid-klukkurnar sínar eftir Helga þessa daganna.

Hinn er Guðni vinur minn Gunnarsson. Í gegnum tíðina hef ég sótt rope yoga-tíma hjá honum, lesið bækurnar hans og sótt námskeið hjá honum en núna er öldin önnur og ekkert af því opið nema bækurnar auðvitað. Frá samkomubanni hef ég sótt 25 mínútna hugleiðslu með öndunaræfingum hjá honum í gegnum Facebook-síðu Rope yoga setursins. Þetta er bein útsending frá honum á hverjum morgni kl. 6.50 og þar sáldrar hann yfir mann orkunni sem maður þarf til að takast á við verkefnin. Svefninn er manni auðvitað hollur en til þess að vera vaknaður í vitund á þessum tíma sofna ég yfirleitt milli 10 og 11 á kvöldin og það er magnað að vakna inn í daginn með þessu hætti.

Þá hef ég verið að kynnast geisladiskasafninu mínu upp á nýtt því ég keypti vandaðan geislaspilara fyrir tveimur árum sem tengdur var við gæða magnara og hátalara og það má segja að hljómurinn sem kom út hafi eiginlega gert það að verkum að ég eignaðist allt safnið mitt upp á nýtt. Þessi tími núna hefur gefið manni fjölda stunda fyrir framan þessi tæki og núna er ég til dæmis að hlusta mikið á Dream of the Blue Turtles með Sting og After Here Through Midland með Cock Robin, plötur sem komu út á miðjum níunda áratugnum, og það er mikið ljúft að rifja þetta upp.“