Esther Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 25. desember 1948. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 24. apríl 2020.

Foreldrar hennar voru Sigurður Ágústsson verkamaður í Reykjavík, f. 23.6. 1925, d. 16.11. 1994, og Ragnhildur Jósafatsdóttir, f. 1.7. 1909, d. 29.5. 1973. Systkini Estherar eru: 1) Sigríður MacClintock, f. 27.5. 1929, d. 30.6. 2005, maki: Jack MacClintock, f. 26.9. 1924, d. 16.2. 2011, börn: Tom og Susan. 2) Hilmar, f. 28.8. 1947, börn: Sigurður Gunnar, Eva Ulla, Ragnar, Linda Björk, Heiðar Már og Heimir Daði.

Esther giftist 20. september 1969 Erni Guðmundssyni f. 11.5. 1947, d. 18.4. 2008. Foreldrar hans voru Guðmundur Marinó Ásgrímsson, f. 11.9. 1907, d. 26.3. 2006, og Emilía Benedikta Helgadóttir, f. 19.11. 1917, d. 2.3. 2012. Börn Estherar og Arnar eru Arnar, f. 1.6. 1969, og Helena, f. 21.7. 1982. Unnusta Arnars er Ósk Matthíasdóttir, f. 8.9. 1979. Börn Arnars með fyrrverandi eiginkonu eru stjúpdóttirin Dagmar Rós, f. 19.10. 1991, Esther Rós, f. 16.9. 1997, Sylvía Rós, f. 17.4. 2003, og Arnar Smári, f. 4.5. 2005. Börn Dagmarar Rósar eru Amilía Rós og Friðrik Rósberg.

Esther fór í Skrifstofu- og ritaraskólann í Reykjavík. Þegar hún útskrifaðist þaðan lá leið hennar í Búnaðarbankann þar sem hún vann sem ritari þar til árið 1988. Hún vann hjá Ráðgjafastofunni, tölvu- og bókhaldsfyrirtæki sem Örn eiginmaður hennar stofnaði, og aðstoðaði mann sinn á skrifstofunni í nokkur ár. Þau voru með skrifstofu á Bíldshöfða 18 í Reykjavík. Í kringum árið 1990 flutti hún sig yfir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og vann þar þangað til að hún veiktist í ágúst 2014.

Hún studdi eiginmann sinn ötullega í málefnum varðandi Knattspyrnufélagið Víking hvort sem hann var í fulltrúaráði eða heimaleikjaráði og var ávallt honum við hlið hvort sem um var að ræða golfmót eða önnur veisluhöld sem Víkingur efndi til. Á hennar yngri árum studdi hún Örn sem leikmann Víkings og mætti á leiki til að styðja við manninn sinn.

Útför Estherar fer fram í kyrrþey í Bústaðakirkju í dag, 8. maí 2020.

Mín elskuleg móðir kvaddi okkur að morgni 24. apríl síðastliðins á A6 lungnadeild Landspítalans við Fossvog. Hún barðist við krabbamein í lungum í rúm sex ár. Við greiningu var henni tjáð af sínum lækni að það væru 10% líkur á að hún mundi lifa eitt ár. Hún fór fram úr öllum væntingum læknanna, þannig kona var hún í alla staði. Mamma var send reglulega í lyfja- og geislameðferðir ásamt allskonar rannsóknum sem þeim fylgja á þessum sex árum. Hún sýndi mikinn baráttustyrk og gafst aldrei upp. Hún hafði unun af að fylgjast með börnum bróður míns stækka og dafna og verða að unglingum og fullorðnu fólki og það hjálpaði henni í þessari baráttu.

Einnig fylgdist mamma með tveimur langömmubörnum sínum en Amilía Rós kom síðla sumars 2014 og Friðrik Rósberg kom snemma árs 2016. Hún reyndi eftir bestu getu að mæta í afmælin þeirra og fylgdist með þeim af sérstökum áhuga.

Við mamma áttum alltaf sérstakt samband vegna þess að hún kom að sækja mig árið 1982 til Gvatemala þegar ég var eingöngu nokkra mánaða gömul þar sem nunnur sáu um mig fyrstu mánuðina. Við vorum alltaf nánar og góðar vinkonur en eftir að pabbi féll frá árið 2008 urðum við nánast óaðskiljanlegar.

Við fórum ófáar ferðir til Spánar, hvort sem það var til Fungerola í Costa Del Sol eða til Tenerife á Kanarí og var mamma mikið fyrir að slaka á á sólarströndinni en ég hins vegar meira fyrir að ganga um og versla eða skoða mig um og taka ljósmyndir. Við vörðum flestum jólum á Kanaríeyjum eftir að pabbi féll frá og vorum við oftast tvær saman þarna úti en bróðir minn kom með okkur út í eitt skipti og var það dýrmætur tími fyrir okkur öll.

Við vörðum síðustu jólunum og áramótum hérna heima þar sem hún treysti sér ekki til að fara út, það var farið að draga af henni en við vorum fjögur í Hólmgarðinum, systkinin ásamt mömmu og Ósk, unnustu bróður míns. Áttum góðar stundir saman og skemmtum okkur vel yfir léttum húmornum hennar mömmu sem gladdi okkur öll.

Hún fór fyrst á sjúkrahúsið í mars og hnignaði fljótt eftir það en hún var með einhvern ótrúlegan styrk sem fylgdi henni til lokadags. Hún kom heim eftir tíu daga fjarveru á sjúkrahúsinu í mars og var heima í rúmlega mánuð. Hún varði páskunum heima og við áttum saman góða páska þar sem ég og bróðir minn elduðum í sameiningu páskamatinn og hún stjórnaði okkur á bak við tjöldin.

Stuttu seinna var farið með hana upp á sjúkrahús aftur og okkur sagt hver staðan væri. Hún var alls ekki góð og okkur sagt hvað gæti verið í vændum. Hún barðist eins og hetja allan tímann en fjölskyldan skiptist á að vera hjá henni síðustu dagana. Við vorum á leiðinni niður á sjúkrahúsið þegar hún kvaddi þetta jarðneska líf en Dagmar Rós, elsta barnabarnið hennar, var hjá henni þennan morgun.

Við áttum svo margar góðar stundir saman og minningarnar eru margar, elsku mamma, og ég mun meta alla tímann sem við áttum saman, bæði í bernsku og á fullorðinsárum. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur öllum í fjölskyldunni.

Helena Arnardóttir.

Við hjónin viljum kveðja mág- og svilkonu sem hefur verið samferða okkur á lífsbrautinni um hálfrar aldar skeið.

Esther kynntist ég þegar þau Örn komu heim og hann kynnti hana fyrir fjölskyldunni í Hólmgarði 27. Bráðhugguleg stúlka sem hafði lokið verslunarskólaprófi og var farin að vinna í Búnaðarbankanum. Síðan eru liðin 54 ár og síðast talaði ég við hana í síma, skömmu fyrir andlátið. Hún var heima hjá sér í Hólmgarði 27, en þau Örn keyptu húsnæðið af foreldrum okkar. Hún var þá mjög máttfarin eftir langa baráttu við erfitt krabbamein, en æðruleysið var ótrúlegt þrátt fyrir vanlíðan og vitandi hvað í vændum var. Síðustu 12 árin bjuggu þær saman mæðgurnar, Helena og hún, og höfðu mikinn styrk hvor af annarri.

Síðast vann Esther hjá LSR og var vel látið af henni þar eins og á öðrum stöðum þar sem hún hafði starfað. Auk sinnar föstu vinnu vann hún með og aðstoðaði sinn ektamaka í sinni vinnu og félagsmálum. Örn var mikið félagsmálafrík og hefði aldrei getað sinnt því öllu án hennar aðstoðar og voru ekki fáar stundir sem fóru í félagsmál Knattspyrnufélagsins Víkings. Esther fylgdi manni sínum í bjartsýni lífsins.

Börn Arnar og Estherar eru Arnar og Helena. Arnar á fjögur börn með Svövu konu sinni en þau slitu samvistum. Barnabörnin voru Esther alltaf mjög hugleikin og var ákveðinn ljómi í andlitinu þegar hún ræddi um þau eða þau bar á góma. Hún var stolt af þeim enda ástæða til.

Alla tíð var mikill samgangur innan stórfjölskyldunnar, þar sem ferðast var saman og afmælisveislur og atburðir af alls konar tilefni voru ástæður til hittings. Foreldrar mínir voru mjög öflug í að byggja upp samheldni innan fjölskyldunnar, sem leiddi til meiri tengsla meðal barna og barnabarna.

Örn bróðir og Esther voru á fyrri árum meira gefin fyrir að heimsækja framandi sólarstrendur heldur en við hjónin. Esther elskaði að vera í sól og hlýju umhverfi og leitaði þar af leiðandi mikið þangað. Venjulega var hún orðin súkkulaðibrún meðan aðrir voru rétt að roðna. Á heimaslóðum voru fjölskyldurnar æði oft samferða, sem skilur eftir fjölda minninga og minningabrota sem vilja renna saman út í eitt með árunum.

Á seinni árum smituðu Esther og Örn okkur af golfveirunni og þegar fram liðu stundir reyndist það vera ákaflega ánægjulegt smit. Þar náðum við saman á ný stórfjölskyldan og voru golfferðirnar óteljandi bæði í leik og keppni.

Eftir fráfall Arnar sýndi Esther sterkan einstakling sem höndlaði aðstæður mjög vel. Síðustu árin eftir að hún greindist með krabbamein sýndi hún mikið æðruleysi og oft erfitt að átta sig á hversu alvarlegt ástand hennar var enda var það ekki til umræðu nema hún væri tilbúin. Hún átti það til að vera í allt öðru samtali til að forðast umræðu um sitt ástand. Guð blessi þig, elsku Esther, og hvíl í friði.

Elsku Arnar og Helena, barnabörn og ættingjar, við vottum ykkur dýpstu samúð.

Ásgrímur og Svava.