„Um 50% færri einstaklingar útskrifuðust hjá okkur í apríl en í sama mánuði á síðasta ári og skýringin á því er eflaust sú að það er mun erfiðara að útskrifa einstaklinga í vinnu við þessar aðstæður og því höfum við gefið ákveðinn tímabundinn...

„Um 50% færri einstaklingar útskrifuðust hjá okkur í apríl en í sama mánuði á síðasta ári og skýringin á því er eflaust sú að það er mun erfiðara að útskrifa einstaklinga í vinnu við þessar aðstæður og því höfum við gefið ákveðinn tímabundinn slaka hvað varðar útskriftir,“ segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Hlutverk sjóðsins er að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði.

Vigdís segir að þjónustan þessa dagana fari að mestu fram í gegnum síma og fjarfundarbúnað en það sé samt sem áður smám saman að breytast. „Við höfum t.d. opnað fyrir einstaklinga í starfsendurhæfingarmat hjá sjúkraþjálfurum, sálfræðingum og læknum og ég á von á því að upp úr miðjum mánuði fari einstaklingar að koma aftur í viðtöl á starfsstöðvum ráðgjafa ef allt gengur vel,“ segir hún.

Vigdís segir að þjónustan hafi gengið vel undanfarnar vikur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hafi ráðgjafar VIRK, sérfræðingar og einstaklingar í þjónustu lagt sig alla fram um að gera sitt besta. Þjónustuaðilar um allt land hafi einnig verið mjög duglegir að bjóða upp á ýmis úrræði í gegnum fjarfundarbúnað.

Í dag eru 2.760 einstaklingar í þjónustu hjá VIRK og hafa aldrei verið fleiri. Í mars komu 202 nýir einstaklingar inn í þjónustuna og voru það um 20% fleiri en á sama tíma í fyrra. Í apríl kom 171 nýr einstaklingur inn í þjónustu og er það svipaður fjöldi og í fyrra. Stöðug fjölgun hefur verið á umsóknum og gert er ráð fyrir að svo verði áfram.

„Faraldurinn mun eflaust hafa áhrif á fjölda umsókna til okkar en þau áhrif geta einnig orðið seinna. Einstaklingar sem missa vinnuna tímabundið þurfa yfirleitt ekki á starfsendurhæfingu að halda. Löng fjarvera frá vinnumarkaði getur hins vegar haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar og dregið úr vinnugetu einstaklinga,“ segir Vigdís.

Hún segir að hugsa þurfi til framtíðar núna og mikilvægt að styðja það fólk sem er í framlínunni í baráttu við faraldurinn til að sporna við brottfalli þess af vinnumarkaði síðar. gudmundur@mbl.is