Ferðaþjónusta Númerslausar rútur eru eitt táknið um stöðuna í ferðaþjónustunni. Erlendir jafnt sem innlendir starfsmenn eru verkefnalausir.
Ferðaþjónusta Númerslausar rútur eru eitt táknið um stöðuna í ferðaþjónustunni. Erlendir jafnt sem innlendir starfsmenn eru verkefnalausir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hlutfallslega fleiri félagsmenn Eflingar af erlendu bergi brotnir hafa verið að missa vinnuna í kórónuveirufaraldrinum en fólk sem fætt er á Íslandi.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hlutfallslega fleiri félagsmenn Eflingar af erlendu bergi brotnir hafa verið að missa vinnuna í kórónuveirufaraldrinum en fólk sem fætt er á Íslandi. Ekki er þó að heyra á viðmælendum að búist sé við stórfelldum búferlaflutningum fólks úr landinu vegna uppsagna í ferðaþjónustu, að minnsta kosti ekki á næstunni.

Mikil aukning hefur verið á erlendu vinnuafli í þjónustugreinum og byggingariðnaði á undanförnum árum, sérstaklega þó í ferðaþjónustu. Greinin hefði ekki byggst upp jafn hratt og raun ber vitni nema með framlagi erlendra starfsmanna.

Skiptist í þrjá hópa

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að erlent vinnuafl sé samheiti fyrir nokkra hópa. Fjöldi erlendra starfsmanna vinnur við ferðaþjónustu á landsbyggðinni yfir háannatíma ársins, 4-6 mánuði á ári, og fer síðan aftur til síns heima á haustin. Fólkið kemur gjarnan ár eftir ár og líkar vel að vinna hér. Telur Jóhannes ólíklegt að margir úr þessum hópi hafi verið komnir til vinnu þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.

Í öðrum hópnum er fólk sem hefur starfað í ferðaþjónustu og búið í skamman tíma og ekki fest rætur hér á landi. Telur hann líklegt að þetta fólk hugsi sér til hreyfings þegar það hefur ekki lengur vinnu og leiti fyrir sér annars staðar.

Þriðji hópurinn er langstærstur. Það er fólk af erlendum uppruna sem hér hefur búið og starfað lengi og hefur skotið rótum í íslensku samfélagi. „Þetta fólk er orðið hluti af íslensku samfélagi og hefur ekki að neinu betra að hverfa annars staðar. Ég á von á því að flestir úr þessum hópi, eins og aðrir starfsmenn ferðaþjónustunnar, fari á atvinnuleysisbætur að loknum uppsagnarfresti og bíði þess að það vori í greininni,“ segir Jóhannes.

Hann segir að það starfsfólk sem var í ferðaþjónustunni og nýtur stuðnings ríkisins á uppsagnarfresti hafi forgang að störfum þegar starfsemi hefjist á ný. Síðar komi í ljós hvenær það verði og hversu mikil þörf verði á vinnuafli til að byrja með.

Fækkar í félaginu

Sara Öldudóttir, sérfræðingur hjá Eflingu, segir að hlutfallslega fleiri félagar af erlendu bergi brotnir missi vinnuna í faraldrinum en þeir sem fæddir eru hér á landi. Þetta eigi frekar við um fólk frá öðrum löndum en Póllandi. Pólverjar séu orðnir rótgrónari hér. Hún segir að vart hafi orðið við þessa þróun áður en faraldurinn skall á.

Spurð um afleiðingarnar, hvort hún telji að fólkið flytji úr landi, segir hún að Efling hafi ekki möguleika til að fylgjast með því. Þó liggi fyrir að félagsmönnum fækki. Þetta geti einnig ráðist af stöðunni í heimalöndum viðkomandi félagsmanna og þeim réttindum sem þeir kunni að hafa áunnið sér hér á landi.

Einnig má velta fyrir sér möguleikum fólks til að komast á milli landa nú. Það kann að vera flókið og dýrt, auk þess sem fólk getur þurft að fara í sóttkví á áfangastaðnum.

Áhyggjur af húsaleigu

Könnun sem Maskína gerði fyrir Eflingu um áhrif kórónuveirufaraldursins gefur vísbendingar um að nærri helmingur félagsmanna hafi orðið fyrir íþyngjandi breytingum á starfi sínu. Hjá tæpum fjórðungi svarenda hafði starfshlutfall verið skert og 5% allra svarenda hafði verið sagt upp störfum.

Niðurstöðurnar sýna að félagsmenn Eflingar af erlendum uppruna hafa mun meiri áhyggjur af því að geta ekki staðið skil á húsnæðiskostnaði en samstarfsmenn þeirra sem hér eru fæddir. Nánar tiltekið hefur 41% svarenda af pólskum uppruna miklar eða fremur miklar áhyggjur af húsaleigunni og 48% félagsmanna frá öðrum löndum. Til samanburðar má geta þess að aðeins 15% svarenda af íslenskum uppruna höfðu áhyggjur af því að geta ekki staðið skil á húsnæðiskostnaði. Þessi munur helgast meðal annars af því að hlutfallslega fleiri félagsmenn af erlendum uppruna en íslenskum búa í leiguhúsnæði.