Landsbankinn tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Viðsnúningur frá fyrra ári nemur 10,4 milljörðum því á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam hagnaður bankans 6,8 milljörðum króna.

Landsbankinn tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Viðsnúningur frá fyrra ári nemur 10,4 milljörðum því á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam hagnaður bankans 6,8 milljörðum króna. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum en yfir sama tímabil í fyrra var slík rýrnun bókfærð á 1 milljarð. Jafngildir virðisrýrnunin um 0,4% af lánasafni bankans. Hins vegar var vanskilahlutfall útlána í lok marsmánaðar 0,7% sem er sama hlutfall og í lok mars 2019. Útlán til ferðaþjónustu nema 95,7 milljörðum hjá bankanum, eða um 8,1% af heildarútlánum hans. Lækkuðu þau á fjórðungnum um hálfan milljarð.

Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 5,9% á ársgrundvelli, samanborið við 11,2% arðsemi yfir sama tímabil í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur bankans voru 9,4 milljarðar og lækkuðu um 800 milljónir frá fyrra ári. Hreinar þjónustutekjur námu 2 milljörðum og lækkuðu um 5,6% miðað við sama fjórðung fyrra árs.

Rekstrarkostnaður dróst saman um 488 milljónir og nam 6,7 milljörðum. Þar af var launakostnaður 3,8 milljarðar en var 3,7 milljarðar yfir sama tímabil í fyrra. Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 4,4% frá áramótum eða um rúma 50 milljarða króna. Þar af voru um 33 milljarðar vegna gengisbreytinga. Innlán jukust um 47 milljarða frá áramótum sem jafngildir 6,7% aukningu.

Eigið fé bnkans var 244,1 milljarður í lok mars og eiginfjárhlutfallið 24,9%.

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri segir viðsnúning í rekstri endurspegla greinilega þau áhrif sem kórónuveiran hefur haft. Bankinn vinni nú með viðskiptavinum að því að greiða úr þeim vanda sem hún hefur valdið. „Til þessa hafa tæplega 1.250 einstaklingar og fjölskyldur frestað greiðslum á íbúðalánum um sex mánuði en samtals nema útlánin sem um ræðir um 7% af útlánum bankans til einstaklinga. Þá hafa yfir 600 fyrirtæki sótt um að fresta afborgunum en útlánin sem um ræðir nema um 8% af útlánum bankans til fyrirtækja,“ segir Lilja Björk m.a. í tilkynningu frá bankanum.