Guðmundur Kolbeinn Vikar Finnbogason (Kolli) fæddist í Reykjavík 26. september 1950. Hann lést 17. apríl 2020 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Guðmundur var elsta barn hjónanna Þrúðar Guðmundsdóttur, f. 23. nóvember 1924, d. 16. apríl 2004, og Finnboga G. Vikar, f. 22. apríl 1923, d. 24. desember 2009. Systur Guðmundar eru 1) Lilja Vikar, f. 15. apríl 1952, 2) Sesselja Erna Vikar, f. 10. ágúst 1955, 3) Unnur Vikar, f. 29. júlí 1957, 4) Sigrún Vikar, f. 29. ágúst 1966.

Hinn 13. maí 1978 giftist Guðmundur eftirlifandi eiginkonu sinni Guðnýju Elínu Snorradóttur, f. 16. október 1950. Börn þeirra eru Finnbogi Vikar Guðmundsson, f. 22. ágúst 1978, og Kolbrún Ósk Guðmundsdóttir, f. 22. mars 1983. Börn hennar eru Bryndís Malín Sigurðardóttir og Árni Vikar Sigurðsson.

Guðmundur bjó fyrstu æviárin sín í Melgerði í Kópavogi en foreldrar hans byggðu þar hús. Árið 1955 keyptu foreldrar hans jörðina Hjalla í Ölfusi og fluttust þau þangað og hófu búskap. Hann hóf skólagöngu sína í Grunnskólanum í Hveragerði. Árið 1968 hóf hann námi í Bændaskólanum á Hólum og útskrifaðist sem búfræðingur árið 1970.

Guðmundur byrjaði ungur að vinna á Hjalla við bústörf og vann þar þangað til foreldrar hans hættu búskap. Hann stundaði sjómennsku nokkrar vertíðir á Gissuri sem gerður var út frá Þorlákshöfn. Árið 1975 fékk skipið á sig brotsjó og slasaðist Guðmundur mikið og hætti þá á sjó. Þegar búskap var hætt á Hjalla hóf Guðmundur störf hjá Reykjabúinu í Mosfellsbæ. Hann sá um kalkúna- og kjúklingauppeldi á fjórum stöðum í Ölfusinu og vann hann þar þangað til heilsan brást.

Útför hans fer fram frá Hveragerðiskirkju 8. maí 2020 klukkan 14. Í ljósi aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir. Streymt verður frá athöfninni og veita aðstandendur upplýsingar.

Minningar um afa okkar eru margar. Við gleymum honum ekki svo lengi sem við lifum og verður hann alltaf í hjörtum okkar.

Þótt döpur sé nú sálin,

þó mörg hér renni tárin,

mikla hlýju enn ég finn

þú verður alltaf afi minn.

(Höf. ók.)

Hvíl í friði, elsku afi, við munum sakna þín.

Bryndís Malín og Árni Vikar.

Guðmundur Kolbeinn Vikar Finnbogason var sonur Finnboga Vikar og Þrúðar Guðmundsdóttur. Þau voru stórbændur á þeirri fornu landnámsjörð og sögustað Hjalla í Ölfusi. Guðmundur átti við vanheilsu að stríða undanfarin ár. Þar var um að ræða krabbamein sem að lokum hafði betur. Síðustu mánuðirnir voru honum og hans nánustu aðstandendum þungbærir.

Við vorum synir tvíburasystra og jafnaldrar. Vorum vinir og félagar frá því við munum eftir okkur. Samskiptin voru náin, einkum fyrstu æviárin og síðustu tvo áratugina. Hann stóð mér næst af frændfólki mínu. Nám og vinna erlendis og hin venjubundna lífsbarátta um miðbik ævinnar kallaði á óskipta athygli. Tengslin urðu á þeim tíma slitróttari en alltaf vissum við hvor af öðrum.

Guðmundur Kolbeinn var venjulega kallaður Kolli. Undantekningar voru frá þeirri reglu einkum að því er varðar móðurfólkið. Það hélt í Guðmundarnafnið komið frá sameiginlegum afa okkar Guðmundi Runólfssyni. Ég hafði sérstakt leyfi til að nota nafnið Guðmundur.

Finnbogi og Þrúður voru frumbyggjar í Kópavogi. Þær fæddust Guðmundur og systir hans Lilja. Rigningasumarið mikla árið 1955 var glæsilegt einbýlishús selt en því hafði verið komið upp með þrotlausri vinnu hjónanna. Stefnan var tekin á Hjalla í Ölfusi. Við tók endalaus þrældómur frá morgni til kvölds eins og þá tíðkaðist í sveitum landsins og ef til vill enn þá. Sesselja Erna, Unnur og Sigrún bættust síðar í barnahópinn. Börnin fóru ekki varhluta af brauðstritinu. Að mörgu þurfti að hyggja á stóru kúa- og fjárbúi þótt eftirtekjan væri í rýrara lagi. Það var ekki fyrr en með alifuglarækt og eggjaframleiðslu sem hagurinn batnaði.

Flutningurinn að Hjalla átti sér stað á þeim tíma þegar vélvæðingin hélt innreið sína í sveitir landsins og gamlir búskaparhættir að kveðja. Dráttarvélar og tæki og tól sem þeim tengdust voru nútíminn. Frændi minn var riddara líkastur þegar hann kom brunandi á gráum Massey Ferguson-traktor upp heimreiðina að Hjalla. Ekki eldri en það að hann þurfti að aka standandi til að ná niður á bremsur og kúplingu. Og ekki voru veltigrindur komnar til sögunnar á þessum tíma.

Æsku- og unglingsár helguðust af vinnu á búinu. Guðmundur varð búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum. Hann stundaði sjómennsku um árabil eða þar til hann varð fyrir alvarlegu slysi. Segja má að þar með hafi sjómennskunni lokið enda þótt hann hafi að mestu náð sér eftir slysið. Seinni árin hafði hann umsjón með alifuglaræktun sem Reykjabúið stóð fyrir í Ölfusinu, þ.á m. á Hjalla.

Guðmundur Kolbeinn var uppátækjasamur í æsku og jafnvel dálítill grallari. Skemmtilegur var hann, vinfastur og sögumaður góður. Þann hæfileika hafði hann frá föður sínum.

Það er mikil eftirsjá að traustum samferðamanni í gegnum lífið, vini og síðast en ekki síst góðum dreng. Eftirlifandi eiginkonu, Guðnýju Elínu, og börnunum Finnboga og Kolbrúnu eru sendar samúðarkveðjur. Einnig barnabörnunum Bryndísi Malín og Árna Vikari. Þau hafa misst góðan afa sem lék svo stórt hlutverk í lífi þeirra.

Gylfi Kristinsson og Jónína Vala Kristinsdóttir.

Nú hefur Kolli vinur okkar og samstarfsmaður kvatt þennan heim. Kynni okkar spanna 25 ár, en árið 1995 hóf Kolli störf hjá Reykjabúinu.

Feður okkar voru vel kunnugir. Þeir höfðu verið saman á Bændaskólanum á Hvanneyri sem ungir menn og seinna áttu þeir samleið í hænsnarækt, en Finnbogi á Hjalla var umsvifamikill bóndi með kýr og stórt eggjabú. Þá voru Guðmundur bróðir minn og Kolli vel kunnugir enda á svipuðum aldri. Árið 1994 hætti fjölskyldan á Hjalla með varphænur og leigði árið 1995 Reykjabúinu húsnæðið til kjúklingaeldis. Þar með hófust náin kynni okkar við Kolla og farsæl samvinna. Seinna annaðist Kolli kjúklinga- og kalkúnaeldi Reykjabúsins á fleiri bæjum í Ölfusi.

Kolli byrjaði daginn alltaf mjög snemma og gaf skýrslu daglega eftir morgunrúntinn. Hann lét ekkert afskiptalaust og vildi lausnir fljótt. Hann lét í sér heyra ef honum fannst eitthvað mega betur fara eða ef eitthvert sleifarlag var á vinnubrögðum. Og á móti ef vel var unnið. Hann var opinn fyrir tækninýjungum og breytingum sem við vildum gera. Við deildum sameiginlegum metnaði í búskapnum og hann gat alveg farið á flug í framtíðardraumum með okkur.

Kolli var hress í bragði og skemmtilegur. Oft var setið við eldhúsborðið hjá þeim Guðnýju og margvísleg mál rædd í þaula. Þá vantaði ekki lýsingarorðin hjá Kolbeini. Yfirleitt var maður aðeins á varðbergi, en oft náði hann manni. Svo sannfærandi og staðfastur var hann í sögum og fullyrðingum. Þessu hafði hann gaman af. Þau Guðný voru samheldin og kát og höfðu góða nærveru í leik og starfi.

Kolli greindist með krabbamein fyrir 17 árum og var það skiljanlega mikið áfall. Hann náði sér svo aftur nokkuð vel og við tóku þó nokkur góð ár. Veikindin ágerðust og síðastliðinn vetur var honum erfiður. Hann var við vinnu ef hann mögulega gat og vildi. Fannst betra að hafa eitthvað fyrir stafni og annað um að hugsa en veikindin. Var þá á ferð um sveitina sína, rakst í kaffi hjá Jóni í Króki eða öðrum vinum. Þegar veikindin fóru að taka sinn toll og hann hættur að geta unnið eins og áður, bar hann þó alltaf von í brjósti um að nú færi þetta að lagast og hann kæmi bráðlega til vinnu. Við tókum þátt í voninni með honum, þótt öll hefðum við hugboð um annað. Við létum það órætt.

Kolli bar hag Reykjabúsins og framgang búskaparins alltaf fyrir brjósti. Hann hvatti okkur hjónin og studdi í búskapnum hvort sem vel gekk eða illa. Hann var okkur sannur vinur í starfi og leik. Hann flíkaði ekki tilfinningum sínum, en vinskapur okkar var traustur og virðing milli fjölskyldnanna gagnkvæm. Synir okkar voru í miklu uppáhaldi hjá honum og Guðnýju. Aðrir starfsmenn hjá Reykjabúinu voru líka góðir vinir hans. Kolla er sárt saknað í þeim hópi sem samstarfsmanns og félaga. Jafnan hressilegur félagi sem gat látið allt flakka. Við fjölskyldan vottum Guðnýju, Kollu, Finnboga og litlu barnabörnunum okkar innilegustu samúð og sendum bestu kveðjur.

Jón Magnús og Kristín.

Kynni okkar Guðmundar Kolbeins hófust á Hólum í Hjaltadal veturinn 1969 þegar við hófum nám við yngri deild Bændaskólans. Ekki var kunningsskapur okkar mikill framan af en þeim mun betur varð okkur til vina þegar á leið. Um vorið kusu nemendur sér tvo úr hópnum til að sjá um aðföng til mötuneytis veturinn eftir, en sú vinna var þá í höndum nemenda sjálfra. Við Kolli vorum kosnir, ég vegna þekkingar á héraðinu, hann vegna eigin ágætis. Reglan var sú að matarstjórar deildu herbergi, svo var einnig í þetta sinn. Þar með hófst okkar vinátta sem hélst til loka.

Við brölluðum margt saman sem ekki verður tíundað hér, en mér er efst í huga að þakka honum glaðværðina, kjarkinn, dugnaðinn og tryggðina sem einkenndi þennan Hólasvein. Stutt er síðan ég ræddi síðast við hann í síma. Þá vissi hann að komið var að lokum. Sjúkdómurinn sem hafði hrjáð hann lengi var að sigra, hann braut hann líkamlega en ekki andlega. Þetta er að verða búið Svenni, sagði hann. Ég prófaði að fá mér lítið viskístaup um daginn en lystin var búin eftir hálft, svo hló hann. Hann missti aldrei kjark sinn og hina léttu lund.

Við hjónin sendum Guðnýju og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Sveinn Sveinsson