[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur í Reykjavík 8. maí 1960 og ólst upp á Seltjarnarnesi, þangað sem fjölskyldan flutti 1967.

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur í Reykjavík 8. maí 1960 og ólst upp á Seltjarnarnesi, þangað sem fjölskyldan flutti 1967. Bjarni lauk prófi frá Verslunarskólanum, síðan námi frá Lögregluskóla ríkisins 1982, námi frá Kennaraháskólanum 1992 og námi í kerfisfræði frá Handelskolen í Ballerup 1998.

Bjarni Torfi var í átta ár í umferðardeild lögreglunnar frá 1981 og vann síðan sem grunnskólakennari á Seltjarnarnesi árin 1992-1995. Þá tók við 6 ára dvöl í Danmörku við nám og störf. Bjarni Torfi starfaði í þrjú ár fyrir alþjóðafyrirtækið Oracle, en þar vann hann við innleiðingu viðskiptakerfa Oracle í Sviss, Ítalíu og á öllum Norðurlöndunum. Eftir að hafa flutt aftur til Íslands 2001 starfaði Bjarni Torfi hjá Skýrr í 6 ár og í framhaldi af því hjá Símanum þar til hann hóf störf hjá Specialisterne á Íslandi í ársbyrjun 2011 þar sem hann er framkvæmdastjóri. Specialisterne eru samtök sem aðstoða einstaklinga á einhverfurófi við að komast út í atvinnulífið.

Bjarni Torfi hefur ávallt verið mjög virkur í félagsstarfi og þá einkum undir merkjum íþróttafélagsins Gróttu, en Bjarni stundaði allar boltaíþróttir sem voru í boði þar sem barn og unglingur og lék síðan með meistaraflokki félagsins í hand-, fót- og körfubolta. Bjarni Torfi var formaður félagsins í sjö ár og formaður handknattleiksdeildarinnar í tvö ár og er handhafi gullmerkis félagins. Sjálfboðavinna í þágu Gróttu er enn stór þáttur í daglegu lífi Bjarna. Samhliða kennslu í Mýrarhúsakóla sinnti Bjarni einnig félagsstarfi innan skólans og sá m.a. um skákkennslu yngri barna og starfaði sem handknattleiksþjálfari yngri stráka hjá Gróttu.

Árið 2002 var Bjarni Torfi kjörinn bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, þar sem hann hefur setið síðan, ef undan eru skilin árin 2006-2010. Sem bæjarfulltrúi hefur Bjarni setið í stjórn Sorpu, verið formaður skólanefndar, skipulagsnefndar og fjölskyldunefndar auk þess að vera forseti bæjarstjórnar árin 2015-2018.

„Mér líður hreint ekki eins og ég sé kominn á sjötugsaldurinn, en ég hef nú meira fyrir stafni en ég hafði þegar ég fagnaði 50 ára afmælinu. Vinna mín hjá Specialisterne á Íslandi tekur mestan tíma minn, auk setu minnar í bæjarstjórn Seltjarnarness. Á sumrin hef ég síðustu ár verið í fararstjóri í hjólaferðum fyrir Bændaferðir, en ferðirnar eru nú rétt um 20, vítt og breitt um Evrópu. Áhugamál mín finn ég svo öll í öflugasta bridgeklúbbi landsins, en þar eru góðir vinir okkar hjóna frá dvöl okkar í Danmörku. Þessi vinahópur stundar hjólreiðar, golf, gönguskíði, göngur og svo auðvitað bridge.

Það verður trúlega með öðru sniði afmælið mitt á þessum tímamótum en til stóð. Fjölskyldan og nánustu vinir ætluðu að fagna 60 ára afmælinu í Danmörku síðar í þessum mánuði, en eitthvað verður sú veisla trúlega að bíða.“

Fjölskylda

Eiginkona Bjarna Torfa er Erla Lárusdóttir, f. 17.12. 1963, kennari. Foreldrar hennar voru Lárus Kristinn Árnason, f. 30.6. 1926, d. 21.11. 1973 og Aðalheiður Ingimundardóttir, f. 26.12. 1920, d. 25.7. 1982.

Börn Bjarna Torfa og Erlu eru 1) Björg Bjarnadóttir, f. 20.9. 1986, lífefnaverkfræðingur hjá Nova Nordisk í Danmörku. Maki: Rasmus Möller, rafmagnsverkfræðingur hjá Rockwool í Danmörku. Synir þeirra eru tvíburarnir Viktor Bjarni og Alexander Chor, f. 8.9. 2014; 2) Lárus Brynjar Bjarnason, f. 19.11. 1987, aðstoðarverslunarstjóri hjá ÁTVR, búsettur í Reykjavík; 3) Kristjana Konný Bjarnadóttir, f. 27.9. 1989, hjúkrunarfræðingur í Danmörku. Maki: Mads Skaaning, rafmagnsverkfræðingur í Danmörku. Börn þeirra eru Ísabella Erla, f. 19.1. 2016, og Christian Álfþór, f. 8.8. 2018; 4) Bjarni Kristinn Bjarnason, f. 28.10. 1996, verkfræðinemi í DTU, Danmörku.

Systkini Bjarna Torfa eru Álfhildur Álfþórsdóttir, f. 8.6. 1956, deildarstjóri hjá Alþingi; Þóra Björg Álfþórsdóttir, f. 19.9. 1962, leiðbeinandi í leikskóla í Hafnarfirði; Bergur Brynjar Álfþórsson, f. 20.7 1964, leiðsögumaður og bæjarfulltrúi í Vogum, og Jóhann Frímann Álfþórsson, f. 24.9. 1968, píanó- og sembalsmiður á Seltjarnarnesi.

Foreldrar Bjarna Torfa eru hjónin Álfþór B. Jóhannsson, f. 12. 1933, fyrverandi bæjarritari, og Björg Bjarnadóttir, f. 7.7. 1932, fyrrverandi píanóundirleikari. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi.

Leiðrétting

Þau leiðu mistök urðu að rangt var farið með aldur Bjarna Torfa Álfþórssonar. Hann er 60 ára. Beðist er velvirðingar á þessu.