Góðverk Walter Hopkins safnar peningum fyrir Arnold Palmer-barnaspítalann í Flórída
Góðverk Walter Hopkins safnar peningum fyrir Arnold Palmer-barnaspítalann í Flórída
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir sem horfa á Walter spila á Twitch geta gefið honum frjáls framlög og fengið jafnvel eitthvað fyrir.

Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var (Fil. 2:5)

Í Ohioríki í Bandaríkjunum býr Walter Hopkins ásamt Holly Marcinowski kærustunni sinni. Þau eru bæði á þrítugasta aldursári, barnlaus og búa ein í húsi sínu. Holly starfar í bænum þar sem þau búa en Walter starfar heima.

Walter er nokkuð þybbinn, með gleraugu og kringlótt andlit. Hann ber gjarnan rauða og svarta húfu á höfðinu, jafnvel innan dyra, og er hún eitt helsta útlitseinkenni hans. Hann er síðhærður og alskeggjaður og klæðist oft stuttbuxum og hettupeysu.

Mestum hluta dagsins ver Walter í tölvuherberginu sínu fyrir framan tölvuskjá. Í herberginu hanga svört tjöld meðfram veggjum til að halda birtunni úti og því er nokkuð dimmt þar allan sólarhringinn. Fátt annað er í herberginu sem ekki tengist tölvunni.

Hann situr þó ekki fyrir framan einn tölvuskjá heldur tvo. Það er ekki vegna þess að hann stundi hlutabréfaviðskipti eða pókerspilun á netinu. Walter ver miklum hluta tíma síns í tölvuleikjaspilun, reyndar mörgum klukkutímum á dag. Leikjaspilunin er þó ekki einungis til skemmtunar heldur er hún starf hans. Walter starfar við það að spila tölvuleiki.

Og hvernig fer það starf fram? Walter auglýsir á vefsíðunni twitch.tv að hann spili milli klukkan 12 og 17. Spilunina sýnir hann síðan í beinni undir notandanafni sínu MFPallytime. Á þeim tíma getur hver sem er farið inn á Twitch og horft á útsendingu hans og horft á hann spila. Allt í beinni útsendingu.

En hvernig í ósköpunum fær hann pening fyrir? Það er með margs konar hætti. Þeir sem horfa á Walter spila á Twitch geta gefið honum frjáls framlög og fengið jafnvel eitthvað fyrir. Þeir sem horfa geta orðið áskrifendur að rásinni hans fyrir ákveðna upphæð sem Walter fær. Einnig geta tölvuleikjafyrirtæki beðið hann að spila leiki sem þau framleiða og borgað honum fyrir. Samtímis auglýsir hann leikinn því áhorfendur skipta þúsundum.

En Twitch er þó ekki eina innkoma Walters eða annarra sem hafa tölvuleikjaspilun að atvinnu. Walter hefur sína eigin rás á Youtube þar sem hann setur inn klippur af spilun sinni og fær greitt fyrir áhorf á auglýsingar í gegnum myndböndin sín. Svo dæmi sé tekið fær Walter reglulega um 30.000 áhorf á myndbönd sín. Þess vegna eru auglýsingar á Youtube.

Walter situr því flesta daga einn inni í tölvuherberginu sínu fyrir framan tölvuskjáina og spilar. Í raun gerist fátt yfir daginn hjá honum sem er ekki stafrænt og því upplifir hann gjarnan einmanaleika þrátt fyrir fjöldann allan af áhorfendum.

Einu sinni á ári spilar Walter samfleytt í heilan sólarhring í beinni útsendingu. Vissulega fær hann sér mat og annað þvíumlíkt en hann vakir í 24 klukkutíma til að spila tölvuleiki. Öll höfum við einhvern tímann vakað lengi og vitum að það reynir á. Því finnst okkur uppátæki Walters nánast sjúklegt og meinóhollt og erfitt að ímynda sér. Að auki höfum við e.t.v. flest velt fyrir okkur nöturleika tilveru Walters.

En hér hangir meira á spýtunni en sjúklegt athæfi. Þegar Walter var um fermingu greindist hann með sjúkdóm í ennisholum sem olli honum verulegri þjáningu dagsdaglega. Í þjáningu sinni fór Walter að spila tölvuleiki og gleymdi henni um stund. Rétt eins og við sjálf grípum til einhvers bjargráðs til að flýja þjáningu og erfiði flúði Walter inn í ævintýraheima tölvuleikjanna.

Vegna sjúkdómsins fór Walter í sex skurðaðgerðir þar sem hluti höfuðkúpunnar var fjarlægður. Síðasta aðgerðin var 29. mars árið 2010 en misheppnaðist hins vegar og því þurfti hann að fara í bráðaskurðaðgerð sem blessunarlega bjargaði lífi hans. Þessi aðgerð breytti lífi Walters, bæði varðandi lífsgæði og lífssýn, og því hefur hann sjálfur haldið upp á „Life Appreciation Day“ 29. mars ár hvert og haldið tölvuleikjamaraþon nær hvert ár frá 2011.

Og tilgangurinn? Að safna peningum fyrir Arnold Palmer-barnaspítalann í Flórída þar sem hann fór í aðgerðirnar. Allur ágóðinn af sólarhringstölvuleikjaspilun hans 29. mars ár hvert rennur óskiptur til barnaspítalans og hjálpar börnum og fjölskyldum sem njóta þjónustu spítalans.

Öll höfum við fyrirframákveðnar hugmyndir um góðverk, hvernig þau eigi að vera og jafnvel hver framkvæmir. Því má segja, þrátt fyrir að það hljómi einkennilega, að við höfum vissa fordóma í garð góðverka. Víða í guðspjöllunum kemur skýrt fram að Jesús sat með bersyndugum eða þeim sem samfélagið taldi ekki eiga góða hluti skilið. „Hann situr og etur með bersyndugum“ er kunnugleg setning. Jesús hafði ekki slíka fordóma og því er það hvatning til okkar allra að gleðjast yfir góðverkum þrátt fyrir að þau séu okkur kannski framandi eða framkvæmdin einkennileg. Þau geta skipta aðra gífurlegu máli.

Frá árinu 2011 hefur Walter safnað rúmlega 240.000 dollurum fyrir Arnold Palmer-barnaspítalann og er sá einstaklingur sem gefur hvað mest til spítalans á hverju ári.

Guð blessi öll góð verk sem unnin eru með heill náungans í huga og leiði okkur til að vera með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Amen.

Höfundur er prestur í Vestmannaeyjum. vidar@landakirkja.is

Höf.: Viðar Stefánsson