Þorvaldur Jónsson fæddist í Reykjavík 17. júní 1936. Hann andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. apríl 2020.

Foreldrar Þorvaldar voru hjónin Sigríður S. Sigurðardóttir, f. 31.5. 1903, d. 5.11. 1989 og Jón Sigurðsson, verslunarmaður í Borgarnesi, f. 11.3. 1904, d. 14.2. 2002. Systkini Þorvaldar eru Elsa Sigríður, f. 18.7. 1939, Vignir Gísli, f. 29.3. 1943, d. 3.6. 2013, og Gunnar, f. 28.2. 1945.

Dóttir Þorvaldar er Áslaug f. 3.2. 1957. Móðir hennar er Aðalbjörg Ólafsdóttir, f. 24.9. 1937. Börn Áslaugar eru a) Logi, f. 22.3. 1978. Dóttir hans er Embla Sól. Logi er í sambúð með Christinu Mai, f. 30.1. 1986. Dóttir þeirra er Zoe Ósk. b) Gauti, f. 13.4. 1981. Sonur hans er Alexander Máni. c) Sindri, f. 30.5. 1990, sambýliskona er Alexía Margrét Jakobsdóttir, f. 10.11 1995. d) Elísa, f. 23.3. 1992. Elísa er í sambúð með Baldri Jóhannessyni, f. 15.11. 1991.

Þorvaldur var þríkvæntur. Hann kvæntist árið 1959 Önnu Katrínu Steinsen, f. 17.2. 1935, d. 9.6. 1965. Dætur þeirra eru 1) Guðrún Marta, f. 19.11. 1959. Eiginmaður er Ómar Benediktsson, f. 22.10. 1959. Þeirra börn eru a) Arnar, f. 1.11. 1984. Eiginkona er Sunna Dögg Björnsdóttir, f. 8.9. 1985. Dætur eru Ylfa Sól og Marta Líf. b) Katrín, f. 27.6. 1987. c) Einar Bjarni, f. 21.11. 1990. Sambýliskona er Rebekka Rós Baldvinsdóttir, f. 8.12. 1990. Sonur þeirra er Baldvin Ómar. d) Fannar Freyr, f. 27.2. 1997. Sambýliskona er Guðrún Jóna Gestsdóttir, f. 27.11. 1997. 2) Elsa Sigríður, f. 6.4. 1961. Eiginmaður er Sveinbjörn Sigurðsson, f. 9.3. 1965. Börn þeirra: a) Atli Steinn, f. 19.9. 1987. Sambýliskona er Helga Einarsdóttir, f. 17. 5. 1988. Synir eru Benjamín Freyr og Jökull Fannar. b) Anna Sigríður, f. 9.6. 1991. Sonur Önnu er Mattias Inza. Anna er í sambúð með Ívari Erni Axelssyni, f. 9.4. 1987. Dóttir þeirra er Elsa Katrín. c) Þorvaldur, f. 30.3. 1994. Unnusta hans er Gill Robelo, f. 1.5. 1996. d) Birta Þöll, f. 4.12. 1996.

Árið 1967 kvæntist Þorvaldur Ásu S. Björnsdóttur, f. 12.4. 1940, d. 6.4. 2012. Þau skildu. Sonur Ásu og fóstursonur Þorvaldar er Björn Gunnarsson, f. 7.2. 1965. Kona hans er Þórdís Linda Björnsdóttir, f. 26.11. 1968. Sonur þeirra er Davíð Fannar f. 11.2. 2008.

Þorvaldur kvæntist árið 1977 Ragnhildi Pétursdóttur, f. 25.6. 1947. Þau skildu. Börn Þorvaldar og Ragnhildar eru 1) Pétur Tyrfingur Gunnarsson, fóstursonur Þorvaldar, f. 16.6. 1969. Börn Péturs eru Hildur María, f. 1.1. 2004, og Bjarki Már, f. 2.11. 2008. 2) Anna Katrín, f. 15.11. 1977. Börn hennar eru Sophie Magdalena MacNeil, f. 24.1. 2008, og Mía Celeste Anastasia MacNeil, f. 13.2. 2011. 3) Þorvaldur Þór, f. 4.7. 1980.

Þorvaldur ólst upp í Borgarnesi. Hann lauk prófi úr Samvinnuskólanum á Bifröst 1957. Eftir útskrift réði hann sig til Flugfélags Íslands í Kaupmannahöfn, þar kynntist hann Önnu Katrínu Steinsen. Þau fluttu til Íslands árið 1962. Þorvaldur starfaði við skipamiðlun, fyrst hjá Harald Faaberg, síðan rak hann Skipamiðlun Þorvaldar Jónssonar. Þorvaldur var áhugamaður um stang- og skotveiði. Hann var meðlimur í veiðifélaginu Þistlum, leigutaka Sandár í Þistilfirði. Einnig var hann félagi í Lionsklúbbnum Frey. Hjónin Þorvaldur og Ragnhildur áttu Syðra-Fjall II við Laxá í Aðaldal. Þorvaldur var í golfklúbbnum Oddi í Garðabæ og átti golfið hug hans allan síðustu árin.

Þorvaldur verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 8. maí 2020, klukkan 15. Nánasta fjölskylda verður við útförina, en henni streymt á https://www.facebook.com/groups/thorvaldur. Stytt slóð á streymið: https://n9.cl/vm16. Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Elsku pabbi. Oft kunni ég ekki að meta ástina þína. Ég áttaði mig kannski ekki á því að við sýndum ekki ástina okkar eins. Ég á minn hátt og þú á þinn hátt. Þegar ég sat hjá þér, þremur dögum áður en þú yfirgafst okkar veraldlega líf, þá náðirðu í kraft til að segja við mig eina setningu. Fallegustu setningu sem ég hef heyrt. Og það var það síðasta sem þú sagðir við mig. Þannig kvaddir þú mig. Kvaddir mig með fallegustu orðum sem ég hef heyrt. Og kannski var það ekki fyrr en þá að ég lærði ég að elska þig. Það var of seint. Og ég ætla ekki að láta það gerast aftur. Takk fyrir að kenna mér það. Ég elska þig. Elsku pabbi.

Þorvaldur Þór Þorvaldsson.

Þá hefur hann pabbi minn kvatt þetta jarðlíf. Þegar ég var lítil stelpa ógnaði það mér meira en allt annað að pabbi ætti einhvern tíma eftir að deyja. Ég var heppin því hann fékk að lifa í næstum 84 ár. Pabbi var 25 ára þegar ég fæddist og þá hafði hann þegar eignast tvær dætur. Þegar hann var 29 ára var hann orðinn ekkill og einstæður faðir með tvær dætur í sinni umsjá. Pabbi gerði aldrei neitt með hangandi hendi. Hann giftist þrisvar, eignaðist fimm börn og tvo fóstursyni. Þegar ég komst til vits og ára hafði hann mikinn áhuga á jeppaferðum og fór í ótal jeppaferðir um Ísland. Um tíma hafði hann mikinn áhuga á skíðum og snjósleðum. Svo kviknaði áhugi á laxveiði og það tók hug hans allan. Hann elskaði að standa úti í á með stöng og veiða. Pabbi lagði mikla áherslu á að við sem vorum með í sumum af þessum veiðiferðum fengjum lax og held ég að margir eigi honum maríulaxinn sinn að þakka.

Hann stundaði líka skotveiði og sá um að veiða rjúpur í jólamatinn fyrir fjölskylduna í mörg ár.

Sumarið 1996 vorum við eins og oft áður í Sandá, ég var ófrísk að mínu fjórða barni. Pabbi vildi endilega fara með mig í einhvern sérstakan hyl þar sem hann taldi að ég myndi veiða lax. Hann dregur mig þarna af stað í átt að hylnum, þetta var erfitt og djúpt. Hann spyr hvort ég sé nokkuð lífhrædd, ég svara: nei, ég á bara þrjú börn og eitt á leiðinni. Orðatiltækið „þetta er ekkert mál“ átti svo sannarlega vel við pabba.

Pabbi var iðulega með klemmu utan um peninga í vasanum, það var alltaf hægt að slá lán hjá honum. Þegar ég var stelpa fór ég í bakpokaferð með vinkonu minni. Í París var bakpokunum okkar rænt og við stóðum uppi allslausar. Gátum hringt „collect“ heim til pabba og beðið um lán fyrir fluginu heim. Pabba leist ekkert á að við kæmum heim, símsendi okkur peninga í gegnum frænda minn sem bjó í París og sagði okkur bara að halda ferðinni áfram.

Þegar pabbi hætti að vinna fyrir ca. 14 árum atvikast það þannig að hann fær golfsett upp í hendurnar og hann kolféll fyrir golfinu. Hann lagði sig allan fram til að ná sem bestum árangri í íþróttinni. Eina sem hann sagðist hafa séð eftir í lífinu var að hafa ekki byrjað fyrr að spila golf. Í golfinu átti hann líka sína bestu félaga sem honum þótti mjög vænt um.

Já, það er margs að minnast en númer eitt minnist ég föður sem hvatti mig áfram og kenndi mér að standa upp eftir hvert fall. Þó að pabbi væri ekki opinn maður, var hann óskaplega hlýr og átti auðvelt með að hrósa. Pabbi var stoltur af öllu sínu fólki, þakklátur og sáttur.

Þegar hann vissi að hann ætti ekki langt eftir fylltist hann æðruleysi en hann stundaði AA-fundi í tæp 30 ár og það var honum tamt að lifa eftir bæninni.

Pabbi velti fyrir sér hvernig himnaríki væri, nú er hann kominn með svörin og eflaust búinn að hitta þá sem á undan eru gengnir. Ég trúi því að hann sé búinn að finna golfvöll og taki á móti okkur þegar sá tími kemur.

Sjúkdómslega pabba var snörp og eins og sonur minn komst að orði; „er þetta ekki nákvæmlega afi í hnotskurn? Hann fór sínar eigin leiðir sama hvað öðrum fannst. Nú var komið nóg, hann gat ekki hugsað sér lífið með þessum kvölum og þá tók hann þennan veg og dó.“

Blessuð sé minning föður, afa og langafa.

Elsa Sigríður Þorvaldsdóttir.

Þá er tengdafaðir minn fallinn frá eftir snarpa sjúkrahúslegu.

Þorvaldur var einstakur maður sem fór sínar eigin leiðir. Hann missir ungur eiginkonu sína frá tveimur dætrum. Hann hélt sínu striki, lét drauma sína rætast og náði í raun að sigla í gegnum þetta líf án þess að láta mikið trufla sig.

Ég hitti Þorvald fyrst á skíðum jólin 1986 í Lech í Austurrríki. Ég og dóttir hans vorum þá við nám í Berlín. Hann bauð fjölskyldunni á skíði, það einkenndi hann alla tíð að gera allt með stæl. Á þessum árum var hann heltekinn af fjallamennsku og veiði. Hann átti að sjálfsögðu flottasta fjallabílinn í flotanum, ljósblár Cherokee með öllum þeim breytingum sem hægt var að hugsa sér og rúmlega það.

Fyrstu jólin á Íslandi með tengdó voru sérstök, rjúpur á aðfangadag. Átti ég að búa við þetta, að borða rjúpur á jólunum það sem eftir var? Hafði aldrei smakkað rjúpur áður. Næstu jól tók ekkert betra við, þá fékk ég rjúpnakippu í hendurnar og ráð í gegnum síma hvernig ætti að hamfletta! Að sjálfsögðu féll ég fyrir rjúpunum. Hann byrjaði svo að taka mig með á rjúpu og þá varð ekki aftur snúið. Við fórum margar ferðir saman og er ég honum ævinlega þakklátur fyrir að hafa platað mig út í þessa skotveiði.

Árið 1987 festir Þorvaldur kaup á jörð á bökkum Laxár í Aðaldal, Syðra-Fjalli. Helsta ástæðan var að sjálfsögðu laxveiði, en hann stundaði hana mjög stíft alla tíð. Hann átti nokkur leyfi í Laxá í Aðaldal, bæði hjá Reykjavíkur- og Akureyrardeild. Þegar fjölskyldan mín bjó á Húsavík hringdi hann iðulega í mig og spurði hvort ég gæti bjargað honum. Það þýddi hvort ég gæti veitt fyrir hann! Hann komst ekki yfir alla þessa daga og naut ég góðs af.

Sú á sem var honum kærust var Sandá í Þistilfirði. Þar veiddi hann tvisvar á ári frá 1975. Þar höfum við fjölskyldan átt margar dýrmætar stundir.

Hann var gríðarlega duglegur veiðimaður sem bar mikla virðingu fyrir náttúrunni. Hann naut þess að hjálpa börnum og barnabörnum við að fá sína maríulaxa og hreykti sér aldrei af sínum afrekum. Fyrir tveimur árum vorum við á leið í Sandá, hann er slappur þegar við ætluðum að leggja af stað frá Aðaldalnum. Ég keyrði hann inn á Akureyri þar sem hann er lagður inn með hjartaóreglu. Tveimur dögum seinna biður hann mig um að sækja sig og förum við beint í Sandá, hann fer í veiðigallann, honum er plantað á steinn við einn hylinn. Þarna tókst honum tókst að landa þremur löxum, þar á meðal einum 14 punda.

Það er sérstakt að hugsa til þess að á sama tíma og Þorvaldur fellur frá eru tvö af elstu veiðifélögum landsins að leggjast af; Laxárfélagið og Þistlar.

Þorvaldur var ekki íþróttaáhugamaður framan af, ég man að hann hneykslaðist á mér þegar ég var að fara að horfa á fótboltaleik eitt kvöldið og sagði þetta bölvaða vitleysu. Nokkrum árum seinna gerði hann sér lítið fyrir og var kjölfestufjárfestir í Stoke-ævintýrinu.

Þegar Þorvaldur hætti að vinna prófaði hann golf og þá varð ekki aftur snúið. Önnur eins eljusemi og áhugi hefur vart sést og var hann fljótur að vekja athygli bæði í Oddi golfklúbbi og meðal golfáhugamanna á Íslandi. Golfíþróttin gaf Þorvaldi mikið, hann eyddi öllum sumrum á Oddi og átti það til að spila tvo hringi á einum degi. Það leika ekki margir eftir.

Takk fyrir samveruna.

Þinn tengdasonur,

Sveinbjörn Sigurðsson.

Ljúfar minningar leita á hugann er tengjast tengdaföður mínum. Við fráfall hans rifjast upp hvað hann hefur haft mikil áhrif á líf mitt. Hann kynnti mér laxveiði þegar við fjölskyldan fórum í mörg ár í Sandá í Þistilfirði. Einnig fórum við fjölskyldan í fyrstu skíðaferð okkar með honum til Austurríkis. Hann fór daglega í sund og tók ég upp þann sið og fór um árabil í sund áður en ég fór til vinnu.

Þorvaldur var ljúfur og þægilegur maður. Hann forðaðist vandræði en tók á málunum ef þurfti. Hressleiki og hógværð lýsa honum kannski best. Þó að hann væri ekki maður margra orða hafði hann gaman af að ræða málefni líðandi stundar um landsins gagn og nauðsynjar en áhugamálin fengu alltaf sinn sess. Hann ræddi mikið við mig um viðskipti og hafði sérstakan áhuga á flugmálum allt frá þeim tíma sem hann vann hjá Flugfélagi Íslands í Kaupmannahöfn fyrir 60 árum. Einnig fylgdist hann vel með börnum okkar og áttu þau öll gott samband við afa sinn.

Stuttu áður en Þorvaldur hætti að vinna kynntist hann golfíþróttinni. Átti hún hug hans allan og naut hann þess mjög að spila golf og félagsskapar sem tengdist því. Hann ferðaðist mikið til útlanda til að spila golf og spilaði daglega 27-36 holur og spilaði á hverjum degi á sumrin á Íslandi. Hann fylgdist einnig mjög vel með golfmótum og öllum fréttum tengdum golfi. Eftir að ég hóf að spila golf hef ég oft notið þess að spila með honum og er ekki laust við að ég hafi verið stoltur af orðspori hans í golfinu.

Ég minnist Þorvaldar tengdaföður míns með þakklæti fyrir ánægjulega samferð. Ég mun varðveita minningu hans í hjarta mínu og kveð hann með söknuði.

Ómar Benediktsson.

Ég á eftir að sakna afa svo mikið... ég trúi því ekki að ég eigi ekki eftir að sjá hann þegar ég kem til Íslands. Ég get ímyndað mér hann segja „elsku drengurinn minn“ og brosa svo áður en hann faðmar mig. Hann var besti afi sem hægt er að hugsa sér og ég var svo stoltur og heppinn að fá að hafa hann sem afa. Hann kenndi mér svo margt um hvernig lifa á lífinu með sinni einstöku auðmýkt og æðruleysi.

Ég kemst víst ekki heim út af COVID-19 en ég kem heim um leið og ég get. Sakna þín og elska þig.

Þinn

Þorvaldur.

Afi var ekki maður margra orða, en hann var mikill prinsippmaður, fór og gerði það sem þurfti og það sem hann langaði til. Fyrstu minningarnar mínar um hann tengjast auðvitað aðallega Syðra-Fjalli og áramótunum á Valhúsabraut þar sem amma og afi bjuggu.

Mér fannst að afi hlyti að vera ríkasti maður í heiminum en hann geymdi klink í stöflum á skrifstofunni sinni, átti bíla með leðursæti sem ég gat aldrei setið kyrr í, maður rann svo mikið til í beygjunum!

Hann lyktaði alltaf eins og ólívusjampó og handáburður en ég man að á sumrin var hann alltaf með svo þurrar hendur eftir veiðarnar í Sandá og á Syðra-Fjalli.

Það var alltaf mikil ró yfir afa, sama hvað gekk á með okkur systkinin þessi sumur á Syðra-Fjalli, þá sat hann yfirleitt með kaffibolla í sófanum sínum eða úti í sólinni og leysti krossgátur og lét fátt trufla sig. Það var fátt skemmtilegra en að fá að rúnta um á bláa stóra jeppanum niður að á, en maður vissi líka að þetta yrði engin skotferð, afi gat eytt lunganum úr deginum í ánni en inn á milli sat hann í bílnum og talaði í bílasímann að leysa heimsmálin.

Hann var yfirleitt með kók og prinspóló í nesti þegar leiðin lá niður að á. Ég furðaði mig lengi á því hvernig hann gat náð einhverju sambandi við fólk í síma sem tengdist engu nema bílnum.

Í Sandá var alltaf mikið um að vera en afi sást kannski minnst enda farinn á fætur fyrir allar aldir og kom yfirleitt ekki heim fyrr en seint og um síðir og kvöldmaturinn eftir því. Það tók mig langan tíma að venjast því að horfa á afa sjúga augun sem hann talaði alltaf um að væru besti bitinn af fisknum! Ég man ekki til þess að nokkurt okkar hafi einhvern tímann sannfærst og smakkað þessi augu en þetta var alltaf tilvalið söguefni þegar vinirnir voru að ræða skrítna eða ógeðslega hluti, þá vakti sagan um afa og fiskiaugun yfirleitt mestan hrollinn!

Svo var það blessaður afadjúsinn, sem ég hélt lengi vel að héti bara afadjús en ekki Ribena-sólberjasaft. Ef afi var ekki með kaffi við hönd þá var það afadjús blandaður í sódavatn.

Í síðustu ferðinni hans hingað norður kom hann til að ná sér í „heilsusafa“, þá brunaði hann upp á fjall með tvær stórar skúringarfötur og tíndi krækiber á leið sinni niður fjallið. Hann skildi bílinn eftir uppi á Skolla og fékk Arnar síðan til að skutla sér upp eftir á fjórhjólinu til að sækja bílinn.

Í tvo daga stóð hann í eldhúsinu og bjó til krækiberjasaft sem hann hellti á litlar kókflöskur sem hann hafði sankað að sér yfir árið. Bjó til saft í 52 flöskur og drakk svo eina á viku. Hann hafði mikla trú á að þetta væri gott fyrir heilsuna.

Það sem einkenndi afa kannski mest, þrátt fyrir að hann væri ekki maður margra orða, var að afi var alltaf þakklátur fyrir það sem aðrir gerðu fyrir hann og duglegur að þakka fyrir sig. Það kom kannski helst fram þegar honum var boðið í mat en hann naut þess að borða, ég held ég hafi aldrei séð neinn sem borðaði jafn hægt og hann!

Bless, elsku afi minn.

Anna Sigríður

Sveinbjörnsdóttir.

Hver stund með afa Nes var ævintýri.

Að fara í veiði með afa og vakna við óminn af rás 1, sitja með honum og borða hafragraut og drekka kaffi, veiða svo þar til hann gat ekki meir því að ég var löngu sprunginn, kaldur og þreyttur og vona að hann færi fljótlega að segja þetta gott.

Afi borðaði augun úr laxinum, loðnumjöl í morgunmat og drakk kaffi á miðnætti. „Kaffi hefur aldrei truflað svefninn minn,“ sagði afi bara.

Í minningum mínum er afi sólbrúnn og flottur, með pípu, með tuskuna á fluguveiðum á Syðra-Fjalli og keyrandi niður að á með okkur gargandi utan á bláa Cherokee-jeppanum.

Fyrsta minningin mín af afa er þar sem ég er á leikskólanum og hann er kominn að sækja mig, stendur uppi á hæðinni mættur að bjarga mér úr prísundinni.

Afi kenndi mér þolinmæði. Hvort sem það var að landa laxi, slá golfkúlu eftir 6 högg í röffið eða leysa vindhnúta á línunni. Hann kenndi mér að vaða ár og klifra kletta í straumhörðum gljúfrum með veiðistöngina í annarri hendinni.

Eitt sinn var stórfjölskyldan nýkomin í hlað að Sandá þegar ég hleyp niður að á með stöng sem hafði ekki verið yfirfarin frá fyrra sumri. Allt í einu er kippt rækilega í færið, línan rennur út og klárast á augnbliki. Hundfúll yfir að missa fenginn hendi ég stönginni frá mér. Seinna sama dag veður afi út í á, þreifar á botninum og kemur upp með línuna, dregur hana til sín og finnur spúninn á hinum endanum með kengboginn krók.

Afi var ekki mikið fyrir að spjalla út í bláinn og ef ég vildi fá hann til að rifja upp eitthvað úr fortíðinni sagðist hann ekkert muna, en sagði þó frá ýmsu ef maður hafði fyrir því að róa eftir því. Ef að ég sagði afa frá einhverju sagði hann annaðhvort „flott Atli minn“ eða hló létt.

Atli Steinn Sveinbjörnsson.