Jónas Runólfsson fæddist í Reykjavík 11. júní 1937. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 22. apríl 2020.

Foreldrar hans voru Kristín Kristjánsdóttir frá Efri-Vaðli á Barðaströnd, f. 23.9. 1892, d. 22.1. 1964, og Runólfur Eyjólfsson, bóndi á Reynivöllum í Suðursveit, f. 12.10. 1878, d. 24.12. 1976. Systkini Jónasar eru (alsystkin) Ingunn Norðdahl, f. 16.3. 1930, Kristján R. Runólfsson, f. 8.5. 1931, d. 2.6. 1990, Helga Runólfsdóttir, f. 1.10. 1933, d. 22.2. 1992, Kristján S. Runólfsson, f. 13.11. 1935, d. 27.2. 2008, (hálfsystkin), drengur Runólfsson, f. 19.10. 1909, d. 19.10. 1909, Magnús Runólfsson, f. 21.2. 1910, d. 24.3. 1972, Magnús S. Breiðfjörð, f. 22.7. 1920, d. um 1940, Kristín Olsen, f. 4.3. 1922, d. 19.2. 1961, Lára Loftsdóttir, f. 10.7. 1925, d. 21.6. 2002, Hrefna Morrison, f. 1.10. 1928, d. 10.11. 2008.

Þann 21. ágúst 1960 kvæntist Jónas Guðrúnu Hinriksdóttur, f. 19. september 1936 í Flatey á Skjálfanda, d. 25.11. 1983. Foreldrar hennar voru Laufey Bæringsdóttir, f. 14.7. 1896, d. 14.2. 1979, og Hinrik Sveinsson, f. 25.2. 1897, d. 26.12. 1982.

Börn Jónasar og Guðrúnar eru 1) Hinrik Jónasson, f. 24.11. 1960, í sambúð með Eddu Friðgeirsdóttur, börn þeirra Gunnar Geir, f. 1987, og Andri Geir, f. 1989 2) Kristín Jónasdóttir, f. 20.6. 1965, gift Þórhalli Hauki Reynissyni, börn þeirra Guðrún, f. 1992, og Elín Rós, f. 1994 3) Hulda Jónasdóttir, f. 12.12. 1972, gift Guðjóni Ingólfssyni, börn þeirra Kristín Guðjónsdóttir, f. 2008, og Jónas Guðjónsson, f. 2012, fyrir átti Guðjón börnin Jóhann, f. 1984, Ingólf, f. 1992, og Elísabetu, f. 1995.

Ungur fór Jónas til starfa, var þingsveinn hjá Alþingi. Starfaði hjá Bifreiðadeild Sambandsins og hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Hann lauk sveinsprófi frá Hótel- og veitingaskóla Íslands 26.4. 1960 og meistaraprófi framreiðslumanna 2.5. 1963. Í framhaldinu hélt Jónas til New York-ríkis þar sem hann lauk námi frá viðurkenndum alþjóðlegum barþjónaskóla.

Hann lærði á Hótel Holti, eftir útskrift starfaði hann á barnum á Hótel Loftleiðum og á barnum í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, auk fjölda annarra veitingahúsa, á Röðli, Glaumbæ, Hótel KEA á Akureyri, Sjálfstæðishúsinu á Akureyri og Klúbbnum í Reykjavík. Lengst af starfaði hann á barnum á Hótel Borg. Einnig starfaði Jónas á barnum á Gullfossi, farþegaskipi Eimskipafélags Íslands.

Jónas var virkur í félagsstörfum barþjóna á sínum yngri árum, þá í Samtökum íslenskra barþjóna sem síðar urðu Barþjónaklúbbur Íslands. Hann tók þátt í fjölmörgum barþjónakeppunum bæði hérlendis og erlendis.

Árið 1969 stofnaði hann heildverslunina Óríon hf. ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Hinriksdóttur.

Á síðari hluta starfsævinnar starfaði Jónas hjá Kynnisferðum við áhafna- og flugrútuakstur auk styttri ferða með ferðamenn á helstu náttúruperlur landsins.

Útför Jónasar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 8. maí 2020, og hefst athöfnin klukkan 13. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fer athöfnin fram í kyrrþey.

Elsku pabbi minn.

Þú þurftir að kveðja okkur svo allt of fljótt. Við áttum eftir að gera svo margt.

Afi Runólfur varð 98 ára og við reiknuðum aldrei með að þú yfirgæfir okkur svona snemma.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum en það var eins og þú sæktir í þig veðrið ef á móti blés. Mamma var tekin frá okkur í blóma lífsins og þú þurftir að sinna hlutverki bæði föður og móður við þær erfiðu aðstæður. En þú kláraðir það vel. Mjög vel.

Lífið hélt áfram, oft voru brattar brekkur en við áttum líka okkar góðu tímabil.

Oft á tíðum áttu lónið og Fellsjarðarmálin hug þinn. Loks er sú tíð var að baki héldum við að þú mættir aðeins njóta efri áranna. En það var stuttur tími, allt of stuttur.

Þú lærðir þjóninn og varðst barþjónn eins og Bói bróðir þinn. En það var í þá gömlu daga er barþjónar höfðu ráðherralaun. Allt er öðruvísi í dag.

Svo kom heildsölutíminn með Oríon og innflutningur án hamlandi gjaldeyrishafta. Góð bílaþekking, reynsla og kunnátta, allt frá fyrsta alvöru starfinu á dögum bíladeildar Sambandsins og meiraprófið leiddu til þess að þú fórst á þínum efri árum að keyra rútur með ferðamenn hjá Kynnisferðum. Þar náðir þú að njóta þín og hafðir gaman af samskiptum við ferðamennina. Kunnir vel að meta góða vinnufélaga. Eftir því sem árin liðu fórstu að hafa meiri áhuga á leiðsögumannaþættinum.

Fórst nær áttræður í leiðsögumannanám hjá Endurmenntun HÍ og dróst mig með þér á spænskunámskeið hjá Endurmenntun nú í vetur. Alveg eins og við hefðum allan tímann í heiminum. Það er svo margt sem mig langar að skrifa og segja, pabbi minn.

Þú varst alltaf til staðar, boðinn og búinn fyrir okkur ef eitthvað var.

Takk fyrir að vera þú, pabbi, takk fyrir allt.

Blessuð sé minning þín og hvíl í friði.

Þinn sonur

Hinrik.

Hann pabbi minn var léttbyggður en hraustur maður. Hann hafði mikinn áhuga á hollu mataræði og taldi að ávallt mætti finna lausnir á krankleika fólks í fæðunni. Sennilega hefur þetta viðhorf hans átt stóran þátt í því að hann hafði góða heilsu nánast alla ævi. Því er kaldranalegt til þess að hugsa að glútenóþol skuli hafa leitt til þeirra veikinda sem hrjáðu hann á síðustu ævidögunum. Mér er minnisstætt baunaspíru- og alfaalfa-tímabilið, en þá voru ræktaðar spírur í vatni í eldhússkápunum heima. Þá slapp enginn, hvorki fjölskyldufólk né vinir, við það að bragða á góðgætinu og upplifa hinn mikla lækningarmátt sem finna mátti í spírunum. Hann hafði alltaf velferð okkar systkinanna að leiðarljósi. Það var honum mikið áfall þegar mamma dó en hann og mamma voru með eindæmum samrýnd. Hans hlutverk á heimilinu breyttist mikið í kjölfarið og grínaðist ég oft með það við hann að hann hefði staðið sig vel í því að vera bæði mamma mín og pabbi minn. Hann lét ekki deigan síga og tók upp potta og pönnur og eldaði dýrindisveislumat handa okkur systkinunum.

Ég er honum þakklát fyrir að hafa ekki lagt árar í bát á unglingsárum mínum, en hann sýndi þrautseigju en um leið umhyggju. Skilaboðin voru skýr þó mér líkaði það ekki alltaf. En ég fann alltaf að mín var gætt.

Hann þreyttist aldrei á að kenna okkur hinum á lífið og tilveruna þar sem menntun og aðhald í peningamálum voru höfð í öndvegi. Hann var vel að sér um flest það sem gekk á í mannlífinu, fylgdist vel með gengi gjaldmiðla og þróun í efnahagsmálum. Hann var í stöðugri þekkingarleit, fljótur að tileinka sér nýjar aðferðir. Hann sótti reglulega námskeið, hóf meðal annars nám hjá Endurmenntun HÍ í leiðsögumannanámi þegar hann var 78 ára. Ég dáðist að vinnusemi hans og aðlögunarhæfni. Allar ákvarðanir voru teknar af yfirvegun og byggðar á góðri umhugsun. Það var ekki flanað að hlutunum og ekki var eytt meira en aflað var. Pabbi var haldinn mikilli ferðaþrá og erfðum við systkinin hana öll. Sem barn hafði ég ferðast um nær alla Evrópu með foreldrum mínum og þá voru farnar ferðir til uppáhaldsfjölskyldustaðarins, Limone á Ítalíu. Pabbi var alltaf til í ævintýri og nú í seinni tíð ákváðum við í sameiningu ferðir til útlanda með aðeins nokkurra stunda fyrirvara, það var fyrirkomulag sem hentaði okkur vel. Við fjölskyldan eigum dýrmætar minningar frá þessum ferðum, Flórída hjá Ellu og Reyni, Spánarferðirnar og svo mætti lengi telja. Þegar hann var kominn á eftirlaunaaldur starfaði hann sem bílstjóri hjá Kynnisferðum og hafði mikla ánægju af því að aka með ferðamenn sem hingað komu og þreyttist ekki á að kynna þeim náttúruperlur landsins.

Pabba entist ekki ævin til að gera allt það sem hann hafði hug á. Ég held að við systkinin höfum líkt og hann haldið að hann yrði 150 ára. Við áttum ýmislegt ógert, fleiri ferðaævintýri auk þess sem hann hafði nýlega flutt sig um set og keypt hús í sömu götu og hann bjó áður. En nú er pabbi farinn af stað í enn eitt ævintýrið og við hin fylgjum á eftir þegar okkar tími kemur.

Hulda Jónasdóttir.

Í dag kveð ég Jónas Runólfsson tengdaföður minn með söknuði. Hann stóð sig eins og hetja í sínum erfiðu veikindum og að hans sögn leið honum bara vel ef spurður um heilsuna.

Jónas var með meistararéttindi frá Matsveina- og veitingaþjónaskóla Íslands og lauk einnig námi frá viðurkenndum alþjóðlegum barþjónaskóla í New York-fylki. Framan af starfaði hann sem barþjónn á ýmsum hótelum og skemmtistöðum og um tíma um borð í Gullfossi, farþegaskipi Eimskipafélags Íslands. Heildverslunina Óríon rak hann í mörg ár, við góðan orðstír, ásamt Guðrúnu konu sinni og Hinrik syni sínum. Seinna starfaði hann sem rútubílstjóri hjá Kynnisferðum þar sem hann keyrði til 79 ára aldurs, síðustu árin eingöngu í stuttum afleysingum. Ævistarf hans var farsælt hvar sem hann var. Hjá Kynnisferðum hafði hann gaman af samskiptum sínum við erlenda ferðamenn og naut einnig góðs félagsskapar við samstarfsfólk sitt hjá fyrirtækinu.

Ég minnist tengdaföður míns sem ljúfs manns sem studdi vel við sitt fólk. Hann naut þess að vera í návistum við fjölskylduna hvar og hvenær sem var. Það var alltaf gaman að spjalla við hann enda var hann vel upplýstur og áhugasamur um svo margt.

Hann var hjálplegur þegar við lá og fengum við fjölskyldan að njóta þess í gegnum árin. Nokkrum sinnum flutti hann inn á heimilið til að hugsa um strákana okkar þegar við Hinrik þurftum að skreppa frá í nokkra daga. Strákunum fannst ágætt að hafa afa sinn hjá sér þrátt fyrir aðeins meiri boð og bönn en venjulega. Svo var hann vel liðtækur í byggingarvinnu þegar við reistum sumarbústaðinn okkar frá grunni í Grímsnesinu. Ófáar ferðir fór hann með okkur austur og var framlag hans í þeirri byggingarvinnu ómetanlegt.

Haustið 2018 kom hann með okkur til Spánar og naut þess að vera í rólegheitum með fjölskyldunni í sól og hita. Það stóð svo til að hann kæmi með okkur aftur síðastliðið haust en þá veiktist hann og missti því miður af ferðinni sem hann var búinn að hlakka svo mikið til að fara í.

Góðar minningar um Jónas lifa áfram. Með þakklæti í huga fyrir allar samverustundirnar kveð ég hann nú.

Edda Friðgeirsdóttir.

Tengdafaðir minn Jónas Runólfsson er fallinn frá. Ég kynntist Jónasi 1984 þegar ég var að eltast við dóttur hans Kristínu Jónasdóttir, eiginkonu mína í dag.

Fyrstu kynni okkar Jónasar voru ekki góð. Ég hringdi heim til hans í þeirri von að fá að tala við Kristínu en fékk frekar óblíðar móttökur. „Vinsamlegast ekki hringja hingað aftur, drengur.“

Þetta gerði það að verkum að við Kristín urðum að sæta lagi framhjá honum til að hittast. Einn daginn spyr hann Kristínu hvort þessi drengur geri sér ekki grein fyrir því að hann sé frændi okkar. Kristínu brá eðlilega en komst síðan að því að við vorum nokkuð fjarskyld.

Eftir þetta var eins og hann hefði lagt blessun sína yfir okkar samband. Sennilega var þetta leið hans til að kanna hvort alvara væri í þessum fyrirætlunum drengsins.

Jónas hafði einstaka hæfileika í að gera gott úr öllum hlutum og ef einhver leiðindaumræða var í gangi var hann lunkinn við að snúa henni í einhverja allt aðra átt þannig að fólk vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið að loknu spjallinu og löngu búið að gleyma leiðindaumræðunni.

Jónas var mjög réttsýnn maður. Sem dæmi fór hann af stað í þá vegferð að gæta hagsmuna landeigenda við Jörðina Fell í Austur-Skaftafellssýslu. En þar höfðu aðilar verið með starfsemi, á landi hans og ættingja, til margra ára án leyfa frá landeigendunum. Við sögðum við hann: „Hvaða vesen er þetta á þér, er þetta ekki bara sandur þetta land? Er ekki bara gott ef einhver er að gera eitthvað þarna?“ Nei, Jónas sagði að þetta væri ekki rétt. „Þessir aðilar eiga ekki landið og eru þarna í leyfisleysi.“ Í framhaldi af þessu var stofnað sameigendafélag um landið sem hann sinnti formennsku í af miklum myndarskap og gætti hagsmuna landeigenda í áraraðir.

Varla er hægt að ímynda sér þægilegri mann til að umgangast. Hann fór með okkur í nokkur ferðalög í gegnum tíðina. Eitt þeirra var til Florida með vinum okkar. Þar lentum við í nokkrum ævintýrum, þar á meðal kajakferð um síki Florida og ferð úti á hafi í kolvitlausu veðri með þrumum og eldingum, en aldrei var fussað eða sveiað. Hann glotti bara og sagði einn og einn brandara til að lyfta fólki upp.

Jónas vann við ýmis störf í gegnum tíðina en frá því að ég kynntist honum rak hann heildsölu. Hann fór í rafvirkjanám og vann við það ásamt rafeindavirkjun. Hann dustaði rykið af meiraprófinu og hóf að starfa sem atvinnubílstjóri um 65 ára aldurinn.

Hann starfaði sem atvinnubílstjóri til 79 ára aldurs og hætti eiginlega bara af því að dætrum hans fannst þetta ekki ganga lengur. Með þessu fór hann í spænskunám. Einnig fór hann í Háskóla Íslands og leiðsögumannanám.

Það var mjög eftirminnilegt fyrir um tveimur árum þegar vorum við að aðstoða hann við endurgerð á húsnæði. Þegar ég kom inn í eitt herbergi húsnæðisins var hann uppi í stiga með meitil og sleggju að brjóta gat á vegg, 79 ára gamall. Ég bað hann um að fara niður af stiganum áður en slys yrði en hann tók það nú ekki í mál og sagðist alveg geta klárað þetta.

Já, fallinn er frá einstakur maður sem mikill missir er að og sem við munum svo sannarlega öll sakna og minnast það sem eftir lifir.

Haukur Reynisson.