Katrín Guðmundsdóttir fæddist á Súðavík 29. desember 1925. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 29. apríl 2020.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Óskar Þorleifsson, f. 1884, d. 1964, og Ágústína Jónsdóttir, f. 1884, d. 1957. Systkini Katrínar eru: Gísli Ágúst Guðmundsson, f. 1909, d. 1909, Lovísa Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 1910, d. 1913, Þorlákur Guðmundsson, f. 1912, d. 1929, Ástríður Guðbjörg Guðmundsdóttir Stave, f. 1913, d. 1996, Guðmundur Guðmundsson, f. 1914, d. 1949, Bjarni Guðmundsson, f. 1916, d. 2011, Sigurður Konráð Guðmundsson, f. 1918, d. 1993, Sigríður Halldóra Guðmundsdóttir, f. 1922, d. 2013, Sigurgeir Óskar Guðmundsson, f. 1924, d. 2010. Eftirlifandi systir Katrínar er Anna Sveinborg Guðmundsdóttir Ostenfeld, f. 1927. Katrín giftist Ársæli Jóhannesi Jónssyni frá Öndverðarnesi á Snæfellsnesi, f. 3. október 1928, d. 26. mars 2017. Foreldrar hans voru Jón Þorleifur Sigurðsson, f. 1893, d. 1961, og Guðrún Jóhannesdóttir, f. 1889, d. 1948. Börn Katrínar og Ársæls eru: 1) Jón Rúnar, f. 4. október 1954. 2) Óskar Ágúst, f. 25. júní 1956. Börn hans eru: a) Björg Rún, f. 14. október 1979, gift Tryggva Ingólfssyni, f. 2. júní 1981. Sonur þeirra er Óskar, f. 24. júní 2015. b) Katrín Ósk, f. 14. október 1979, gift Viðari Steini Árnasyni, f. 17. maí 1976. Þau eiga tvo börn: Elísabetu Ósk, f. 20. nóvember 2009, og Rebekku Sigrúnu, f. 8. desember 2015. c) Ársæll Páll, f. 31. ágúst 1990, sambýliskona hans er Salóme Guðmundsdóttir, f. 21. október 1983. Sonur þeirra er Benjamín, f. 23. júlí 2018. 3) Jóhannes Sævar, f. 23. ágúst 1958. 4) Sigurgeir Kári, f. 23. ágúst 1958, kvæntur Kristínu Magnúsdóttur, f. 4. desember 1960, og eiga þau tvö börn: Theodór og Kára, fædda 5. febrúar 1997. Kristín átti áður Magnús Stefánsson, f. 20. ágúst 1988, giftur Söndru Bergþórsdóttur, f. 1990, og dóttir þeirra er Diljá Mist, f. 2016. Sandra átti áður Halldór Atla, f. 2011. Katrín átti áður 5) Guðmundu Ásdísi Guðbjörnsdóttur, f. 28. maí 1949, gift Peter Vita Sr., f. 29. september 1949. Eiga þau tvö börn, Peter Jr., f. 2. nóvember 1983, kvæntur Jennifer Nifer, f. 29. ágúst 1985, og Soley, f. 27. janúar 1981, gift Louis Zeppetelli, f. 5. maí 1977, og eiga þau börnin Boden, f. 8. nóvember 2015, og Adelynn, f. 27. janúar 2019. 6) Ólaf Pétur Pétursson, f. 12. júlí 1952. Dóttir Ólafs er Kristín Eva Ólafsdóttir, f. 1. desember 1991, sambýlismaður hennar er Kristinn Freyr Sigurðsson, f. 1991, og dóttir þeirra er Heiða Karen, f. 2016. Katrín ólst upp á Súðavík en fluttist ung til Siglufjarðar og vann þar í apóteki. Katrín bjó lengst af á Akranesi og í Keflavík, þar sem hún starfaði í þvottahúsi varnarliðsins. Árið 1996 fluttu Katrín og Ársæll til Garðabæjar þar sem synir þeirra bjuggu en undanfarin fjögur ár hefur Katrín dvalið á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún síðan lést.

Útför Katrínar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. maí 2020, og hefst athöfnin klukkan 15. Streymt verður frá athöfninni á https://www.sonik.is/hafnarfjardarkirkja. Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Elsku mamma. Núna ertu komin í hvíldina löngu, 94 ára. Mamma bjó á Hrafnistu í Hafnarfirði síðustu árin og vil ég þakka starfsfólkinu þar fyrir góða og hlýja umönnun. Starfsfólkið talaði um það hversu vel var hugsað um hana. Heimsóknir á hverjum degi frá Nonna bróður, og reglulegar heimsóknir frá öðrum systkinum og ættingjum. Frænka okkar og nafna mömmu, Katrín Albertsdóttir, kom vikulega og lagaði á henni hárið og snyrti neglur. Það verður seint hægt að endurgreiða þann velvilja.

Mamma var alltaf svo fín og flott, í nýjum fötum sem Guðmunda systir sendi henni frá New York, þar sem hún og fjölskylda hennar búa. Þau gátu því miður ekki verið með okkur í dag og ekki heldur eina eftirlifandi systkini hennar, Anna Ostenfeld sem búsett er í Danmörku.

Önnur nafna mömmu, Katrín Ósk, dóttir mín, er því miður líka fjarverandi sökum ástandsins í heiminum en hún er búsett í Lúxemborg.

Mamma fæddist og ólst upp á Tröð í Súðavík, í stórum systkinahópi. Tröð var tvílyft hús sem stendur enn. Afi var með smíðaverkstæði á neðri hæðinni og fjölskyldan bjó á efri hæðinni. Bræður mömmu fóru ungir á sjóinn og systur hjálpuðu til við heimilis- og almenn bústörf. Blessuð sé minning þeirra. Þau voru með eina kú og mamma mundi hvað hún hét alveg fram á síðasta dag, þó svo að hún hefði verið greind með Alzheimer fyrir nokkrum árum. Hún hét Stjarna.

Við mamma áttum okkur leyndarmál sem Samgöngustofa verður ekki hrifin af. Áður en ég fékk bílpróf fór ég í innkaupaferðir fyrir mömmu snemma á laugardagsmorgnum, á Opelnum hans pabba. Ferðin var farin frá Skólavegi 44 að Skúlabúð í Lyngholti. Skúli og frú báðu mig um að fara varlega heim, því ég náði varla upp fyrir stýrið.

Elsku mamma, takk fyrir allt, ást og hlýju sem þú veittir okkur öllum. Þín verður sárt saknað af öllum sem fengu að kynnast þér, ættingjum, börnum, barnabörnum, barnabarnabörnum og vinum.

Með von um að þér líði vel á nýjum stað.

Óskar Ágúst Ársælsson.

Elsku fallega amma okkar er dáin. Dýrmætar minningar streyma fram í hugann á ljóshraða. Amma Gógó var yndisleg kona eins og allir vita sem voru svo lánsamir að kynnast henni. Heimili hennar og afa einkenndist af hlátri, gleði, góðvild og umhyggju og þar vildum við systur helst vera. Hún elskaði að hafa fólk hjá sér og þá sér í lagi barnabörnin, sem hún gat stjanað við og dekrað út fyrir endamörk heimsins. Allt var leyfilegt hjá ömmu og setningin „Þær mega allt“ er okkur efst í huga þegar við systurnar lékum okkur með kristalla, styttur og fínerí sem amma hafði safnað í gegnum árin. Okkar ánægja var meira virði en einhverjir líflausir skrautmunir sem margir hverjir voru án efa verðmætir, því við vorum jú „gullin hennar ömmu sinnar“. Foreldrar okkar höfðu oft orð á því hversu uppvöðslusamar við vorum þegar við komum heim eftir helgardvöl í Keflavík og tók það gjarnan nokkra daga að ná okkur aftur niður á jörðina. Amma var glæsileg húsmóðir og gestrisni hennar var slík að engum gleymist er hana sóttu heim. Hún bauð gjarnan upp á tekex með osti og tesopa að kvöldlagi, áður en hún söng mann í svefn með sinni yfirveguðu söngsnilld. Hún bakaði pönnukökur og bar fram bakkelsi við minnsta tilefni og aldrei fór maður svangur frá ömmu. Örlæti var einnig aðalsmerki hennar. Fyrir hverja utanlandsferð var komið við hjá ömmu, þar sem við systur vissum vel að peningagjöf væri þar að þiggja. Fimm- og tíuþúsund kallarnir flæddu úr veski hennar yfir í vasa okkar og þetta voru nammipeningar, að hennar sögn. Þvílík alsæla fyrir litla óvita krakka, að geta keypt sér nammi í fríhöfninni fyrir allan þennan pening. Á unglingsárum okkar fékk amma stundum það hlutverk að sitja í farþegasætinu þegar kom að æfingaakstri okkar systra. Amma þurfti að komast í lagningu og við þurftum að æfa aksturshæfni okkar en í sakleysi sínu áttaði hún sig aldrei á því að það hlutverk krefðist ökuskírteinis (sem hún aldrei hafði). Ömmu vantaði því aldrei far á hárgreiðslustofuna eða í bankann til að sækja pening handa okkur. Amma var líka friðarsinni með eindæmum. Þegar við systur rifumst (sem var ansi oft) heyrðist hún segja „vera góin“ sem þýðir einfaldlega að við eigum að vera góð hvert við annað. Við systur náðum ekki alltaf að tileinka okkar þann boðskap þá en við skiljum það í dag. Fyrir það erum við henni ævinlega þakklátar, sem og allar þær fallegu minningar og yndislegu samverustundir sem við áttum með henni.

Elsku amma, hvíl í friði. Við elskum þig alltaf, að eilífu.

Björg Rún og Katrín Ósk.