Grár sófi fer vel við gullborð með speglaplötu og bláa mottu. Listaverkið er eftir Kristinn Má Pálmason.
Grár sófi fer vel við gullborð með speglaplötu og bláa mottu. Listaverkið er eftir Kristinn Má Pálmason. — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi Snúrunnar, býr ásamt fjórum börnum sínum í 180 fm íbúð í Kópavogi. Hún festi kaup á íbúðinni fyrir ári og hefur gert ýmislegt til þess að heimilið verði sem vistlegast. Marta María | mm@mbl.is

R akel var búin að leita lengi að íbúð þegar hún hnaut um þessa. Hún segir að það hafi ekki verið auðvelt, þar sem hún þurfti herbergi fyrir fjögur börn sín. Hún var einhleyp þegar hún keypti íbúðina en nú er hún í ástarsambandi með Andra Gunnarssyni lögmanni, sem kallar Rakel stundum Gyðu Sól þegar hún er að vesenast inni á heimilinu. Óþolinmæðin og æsingurinn í henni þykir minna á hina einu sönnu Gyðu Sól sem gerði garðinn frægan í Fóstbræðrum. Þegar Rakel er spurð að því hvers vegna hún féll fyrir þessari íbúð nefnir hún æðislegar svalir, útsýni út á sjó og fleira.

„Ég var búin að leita lengi að íbúð þegar ég fann loksins þennan gullmola. Verandi með milljón börn þá þurfa allir sitt pláss og það var erfitt að finna íbúð í hverfinu sem var svona stór. Það sem heillaði mig mest við hana er skipulagið og hversu björt hún er, fyrir utan náttúrulega þaksvalirnar, sem eru svo geggjaðar,“ segir Rakel.

Spurð hvort það hafi þurft að breyta miklu áður en hún flutti inn með börnin segir hún svo ekki vera.

„Ég breytti voðalega litlu, fannst það algjör snilld að finna íbúð sem ég nánast gat flutt inn í án þess að mála.“

Rakel hefur rekið Snúruna í sex ár, en hún er viðskiptafræðingur að mennt. Heimili hennar ber þess merki að hún hefur gaman af því að raða saman hlutum, húsgögnum og öðru sem fegrar heimilið. Þegar hún er spurð hvernig hún vilji hafa sitt eigið heimili kemur í ljós að hún setur fagurfræði alltaf ofar þægindum.

„Heimili fyrir mér er fyrst og fremst fólkið sem er þar, en þar fyrir utan elska að hafa fallega hluti í kringum mig og þægilega. Alltaf myndi ég samt velja fagurfræðina fram yfir þægindin. Mér finnst ótrúlega gaman að safna fallegum málverkum í bland við húsgögn og hafa liti inn á heimilinu. Uppáhaldsliturinn minn er blár og það sést bersýnilega á heimilinu mínu,“ segir hún og hlær.

Hefur heimilisstíllinn breyst mikið síðustu ár?

„Ég er sjúklega nýjungagjörn og fljót að fá leið á hlutunum, en stíllinn hefur samt sem áður ekki mikið breyst. Ég hef alltaf verið litaglöð en það er fullt af nýjum hlutum inni á því. Ég er dugleg að skipta bara út, þoli ekki að hafa mikið af hlutum úti um allt,“ segir hún.

Fyrir hverju fellur þú alltaf þegar kemur að heimilinu?

„Ég elska fallega blómavasa, svona vasa sem þurfa ekki einu sinni að vera blóm í til þess að hann sé listaverk. Svo er ég svakalega svag fyrir fallegum stólum.“

Hvað finnst þér gera heimili heimilislegt?

Að hafa plöntur. Það gerir svo mikið af hafa grænt í kringum sig. Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir til þess að drepa blómin mín hafa þau einhvern veginn haldið lífi, en það er engan veginn mér að þakka. Ég hef krakkana grunaða um að lauma að þeim vatni þegar þær eru alveg að gefa upp öndina.“

Hver er þinn staður á heimilinu?

„Svefnherbergið er einn af uppáhaldsstöðum mínum í tilraun til þess að fela mig frá börnunum. Annars er stofan og borðstofan hjarta heimilisins, þar vilja allir vera saman í hrúgu.“

Er eitthvað sem þú myndir vilja hafa öðruvísi?

„Ég væri alveg til í að hafa aðeins fleiri herbergi, alveg týpískt að um leið og síðasta ljósið var fest upp þurfum við að komast í stærra húsnæði og erum því á fullu að leita,“ segir hún.

Hvað dreymir þig um að eignast inn á heimilið?

„Mig er búið að dreyma um það lengi að eignast shell-stól eftir Hans Wegner.“

Ertu handlagin?

„Kærastinn minn kallar mig Gyðu Sól. Veit ekki hvort að það kallast handlagni eða óþolinmæði. Þegar ég er búin að ákveða eitthvað vil ég bara klára það strax og nenni ekki að bíða eftir að einhver komi og hengi eitthvað upp fyrir mig. Ég þori varla að segja frá því að ég á vinnubuxur og verkfæratösku en dreymir um að eignast verkfærabelti.“

Hvernig finnst þér íslensk heimili vera að breytast?

„Þau eru mikið farin frá því að hafa allt svart, hvítt og grátt og fólk farið að leyfa sér að hafa liti inn á heimilinu. Einnig eru blóm og pottaplöntur mikið í tísku. Ég er líka svo ánægð með það hvað fólk er farið að þora að vera með öðruvísi heimili, fögnum því í hvert skipti sem fólk pantar sófa hjá okkur í lit.“

Ef þú byggir ekki hér, hvar byggir þú þá?

„Mig dreymir um að búa í Kaupmannahöfn og Vín. Mig hefur alltaf langað til þess að læra þýsku almennilega, en ég átti ógleymanlegt sumar í Vín þegar ég var 19 ára.“

Höf.: Rakel Hlín Bergsdóttir