Kristín Rúnarsdóttir fæddist 18. apríl 1966. Hún varð bráðkvödd 15. apríl 2020.

Útför hennar fór fram 30. apríl 2020.

Dauðinn er alltaf nálægur en samt svo fjarlægur. Þegar hann kemur hrekkur maður í kút. Þetta upplifði ég þegar ég frétti af skyndilegu andláti Kristínar, minnar yndislegu nágrannakonu. Kristín bjó við hliðina á mér, það var auðvelt að láta sér þykja vænt um hana, hún var mjög góð manneskja, með hlýtt hjarta. Hún vildi ávallt sjá það góða í fólki, hitt vildi hún ekki vita. Þetta er góður eiginleiki. Börnin hennar þrjú, Daníel Freyr, Óskar Steinn og Ólöf Rún, elskaði hún heitt, þau voru líf hennar, stolt og yndi. Þeirra missir er mestur. Ég vissi að hér áður fyrr gerði Kristín mikið af því að teikna og mála, hún var listfeng svo eftir var tekið. Margir eiga myndir eftir hana. Kristín breytti baklóðinni sinni og gerði hana að litlum fallegum lystigarði. Hún hafði gott auga fyrir formi og litum blómanna sem hún gróðursetti.

Þarna fékk listin og sköpunarmátturinn að njóta sín. Ég á nokkrar fjölærar plöntur úr garðinum hennar sem ég varðveiti vel. Ég veit að Kristín hafði gaman af að sitja úti á palli á sumrin og horfa á blómin sín í öllum regnbogans litum. Kristín átti við mikinn heilsubrest að stríða. Það var þyngra en tárum tæki að horfa á hana svona þjáða, ekkert hægt að gera, sjúkdómurinn krónískur og spítalaferðirnar margar. Alltaf var hún æðrulaus.

Kristín var mér afskaplega góð í alla staði, sömuleiðis ég til hennar. Við komum alltaf til móts við hvor aðra og sýndum hvor annarri kærleik. Takk fyrir París litlu, hún er mikill gleðigjafi. Þú trúðir á líf eftir dauðann, ég vil trúa því að þú sért á góðum stað, þar sem engar þjáningar eru og þú umvafin englum.

Ég vil kveðja þig á þann hátt sem ég gerði oftast. Elsku Kristín mín, góða nótt, sofðu rótt og guð geymi þig. Hvíldu í friði. Votta börnum, tengdadóttur, foreldrum, systkinum og öðrum skyldmennum innilegar samúðarkveðjur.

Guðfinna Gústavsdóttir.