Sagnfræðingur Eyrún segir ástæðu til að halda sögu Sigríðar í Brattholti á lofti, nú sem aldrei fyrr.
Sagnfræðingur Eyrún segir ástæðu til að halda sögu Sigríðar í Brattholti á lofti, nú sem aldrei fyrr. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær eru sláandi líkar, Greta Thunberg og Sigríður í Brattholti. Þær búa báðar yfir óbilandi baráttukrafti fyrir náttúruna. Eyrún Ingadóttir vinnur að sögulegri skáldsögu um merkiskonuna Sigríði í Brattholti sem barðist fyrir vin sinn Gullfoss.

Þær eru sláandi líkar, Greta Thunberg og Sigríður í Brattholti. Þær búa báðar yfir óbilandi baráttukrafti fyrir náttúruna. Eyrún Ingadóttir vinnur að sögulegri skáldsögu um merkiskonuna Sigríði í Brattholti sem barðist fyrir vin sinn Gullfoss. Eyrún leiðir pílagrímagöngu í júní þar sem gengið verður í fótspor Sigríðar frá Brattholti til Reykjavíkur.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Sigríður hefur verið að kalla meira og meira á mig, sérstaklega núna þegar ég sé þessi líkindi með henni og Gretu Thunberg. Þær voru ekki aðeins áþekkar í úliti heldur einnig í lundarfari. Sigríður var gríðarlega þrjósk og óskaplega fylgin sér ef hún tók eitthvað í sig. Hún var einþykk, félagsfælin og fór sínar eigin leiðir, rétt eins og Greta. Ég er ekkert viss um að það hafi verið auðvelt að búa með Sigríði, hún hafði mjög ákveðnar skoðanir, en hún var góð kona. Hún hefur mótast mikið af því að alast upp í þó nokkurri einangrun þarna upp við heiðina, hún var mikið náttúrubarn og listræn,“ segir Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur sem vinnur nú að sögulegri skáldsögu um Sigríði Tómasdóttur í Brattholti, konuna barðist fyrir verndun Gullfoss.

„Sigríður er fyrsta konan á Íslandi sem beitir sér fyrir náttúruvernd. Það er stórmerkilegt að kona á þessum tíma rísi upp gegn valdinu, hún er fædd á nítjándu öldinni, árið 1871. Gullfossmálaferlin voru ekki þau fyrstu sem hún stóð í, það var deila um girðingu sem átti sér stað áður. Þá leitaði Sigríður til Sveins Björnssonar lögfræðings í Reykjavík eftir aðstoð, en hún þurfti á endanum að biðja bændur afsökunar á að hafa rifið niður girðingu sem þeir höfðu sett upp milli Tungufljóts og Hvítár við Tunguheiði. Sigríður og Tómas faðir hennar töldu að Brattholt yrði óbyggilegt ef þessi girðing risi. Sigríður tók upp á sitt eindæmi að rífa niður girðinguna, og þegar hún var spurð hvort hún hefði gert þetta, þá svaraði hún því játandi, enda var ekki til í henni fals eða lygi. Hún var hrein og bein og áhugaverð manneskja.“

Vakti fólk til meðvitundar

Sigríður varð fræg á þeim tíma sem Gullfossmálaferlin stóðu yfir.

„Stórvirki Sigríðar er að barátta hennar fyrir Gullfossi varð til þess að fólk áttaði sig á að kannski væru sumir fossar of góðir til að þeim væri fargað í virkjanir. Þannig vakti hún fólk til meðvitundar um náttúruvernd. Hún þekkti fossinn manna best, en það var ekki fyrr en á seinni hluta nítjándu aldar sem fólki fór að þykja eitthvað til Gullfoss koma og fór að leggja leið sín til hans til að skoða hann. Fram að því vissi enginn af honum, þetta var bara einhver foss uppi á hálendi, fjarri mannabyggðum. Þegar kóngurinn kom 1874 var ekki farið með hann að Gullfossi, en þremur áratugum síðar, árið 1907, þegar Friðrik kóngur kemur, þá var honum sérstaklega sýndur fossinn,“ segir Eyrún og bætir við að Sigfús Eymundsson hafi verið fyrstur til að koma með erlenda gesti til að skoða Gullfoss.

Baráttan um girðinguna

Ertu ekkert hrædd um að fólk sé með fastar hugmyndir um Sigríði og verði viðkvæmt fyrir því að þú skáldir í eyðurnar, eins og þarf að gera í sögulegum skáldsögum?

„Ég verð að sýna kjark og þor, rétt eins og Sigríður,“ segir Eyrún og hlær. „Í grúski mínu um sögu Sigríðar hef ég rekið mig á að ég þarf að skálda á milli, því það eru ekki skýringar á öllu. Til dæmis af hverju Tómas faðir hennar skrifaði undir að leigja fossafélögum Gullfoss til 150 ára, eða fram til ársins 2062. Hann hafði áður harðneitað að selja fossinn fyrir stórfé, sagðist ekki selja vin sinn. Ég verð að geta mér til um ástæðurnar og ég held að hann hafi hreinlega verið vélaður til að gera þetta. Hann hafði engan til að verja sína hagsmuni eða leiðbeina sér við samningsgerðina. Þetta er því miður enn svo hér á landi að stórfyrirtæki sitja við borðið öðrum megin en menn hinum megin í svipaðri stöðu og Tómas, sem hafa ekki forsendur eða kunnáttu til að gæta hagsmuna sinna.“

Eyrún segist hafa skoðað sérstaklega seinni hluta ævi Sigríðar, því þar sé önnur barátta sem hafi ekki verið gerð skil, en hún muni gera það í sinni bók.

„Einar fósturbróðir Sigríðar, sem bjó með henni í Brattholti og fékk jörðina frá henni, seldi Gullfoss í óþökk Sigríðar árið 1945 til ríkisins. Þar eru engin ákvæði um að vernda hann, en þau gerðu munnlegt samkomulag um að hún ætti fossinn. Þetta samkomulag sveik hann, sem hlýtur að hafa verið afar sárt fyrir Sigríði, en hún fór ekki í hart við Einar.“

Þurfum að vera á varðbergi

Hvað getum við nútímafólk lært af þessari mögnuðu konu, Sigríði í Brattholti?

„Að við þurfum að halda áfram að berjast fyrir íslenska náttúru. Við stöndum alltaf frammi fyrir þessum álitaefnum sem varða umhverfi okkar og ákveðna staði á landinu, rétt eins og Sigríður barðist fyrir Gullfossi á sínum tíma. Ég held að það sé mikilvægt að spyrja spurninga eins og hvað ef allir fossar og vatnsföll hér á landi væru núna í eigu erlendra aðila sem hefðu virkjað og ættu þá allar auðlindir Íslands og allur arður af þeim farið úr landi? Í byrjun tuttugustu aldar var það raunhæfur möguleiki, því megum við ekki gleyma. Fossafélögin sem Tómas leigði fossinn til 150 ára, þau höfðu keypt eða leigt virkjunarrétt margra fossa á Íslandi og erlendir aðilar áttu hlut í þessum félögum. Menn sáu hagnaðarvon og keyptu upp hverja einustu sprænu með von um að það yrði sú sem yrði virkjuð. Ef Fossafélögin hefðu haldið velli og farið að virkja fossa og fallvötn, þá væri staða okkar allt önnur en hún er í dag. Við þurfum bara að vera á varðbergi. Það er ástæða til að halda sögu Sigríðar á lofti, nú sem aldrei fyrr.“

Í skinnskóm og pilsklædd

Eyrún verður önnur þeirra kvenna sem leiða pílagrímagöngu sem farin verður í júní í spor Sigríðar, frá Brattholti til Reykjavíkur.

„Þessi leið er um 130 kílómetrar og stundum fór Sigríður þetta gangandi í þeim mörgu ferðum sem hún gerði sér til höfuðstaðarins til að berjast fyrir því að Gullfoss yrði ekki virkjaður. Hún hefur örugglega verið fljótari á sínum skinnskóm og pilsum en við sem gefum okkur viku til að ganga þessa leið. Þetta verður söguganga, við byrjum á hlaðinu í Brattholti og ég ætla að segja sögur af Sigríði og samtímafólki hennar á leiðinni. Til er saga af því þegar Sigríður var að vaða yfir Hólá, hún fór yfir hana til móts við Laugardalshóla, en bóndinn var búinn að dæma hana ófæra, því það var svo mikið af ís í henni. Hann horfði á Sigríði fara gangandi yfir,“ segir Eyrún og bætir við að Margrét Sveinjörnsdóttir frá Heiðarbæ í Þingvallasveit taki við leiðsögninni frá Þingvöllum, en hún er einn af höfundum Árbókar Ferðafélags Íslands um Mosfellsheiði.

Nánar um pílagrímagönguna á vefslóðinni mundo.is/gangan.