Guðsorð Ungt fólk les Biblíuna í snjallsíma. Úr sjónvarpsauglýsingu Biblíufélagsins sem sýnd er þessa dagana.
Guðsorð Ungt fólk les Biblíuna í snjallsíma. Úr sjónvarpsauglýsingu Biblíufélagsins sem sýnd er þessa dagana.
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Þessu kynningar- og söfnunarátaki er ætlað að minna á mikilvægi Biblíunnar, vekja athygli á sókn hennar inn á nýja miðla og bjóða fólki að gerast bakhjarlar Biblíunnar á Íslandi með því að styðja Biblíufélagið,“ segir séra Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogssókn og formaður framkvæmdanefndar Hins íslenska biblíufélags (HÍB). Sjónvarpsauglýsing félagsins hefur vakið talsverða athygli.

Grétar segir að gerð myndbandsins hafi kostað 1,1 milljón króna og auglýst hafi verið fyrir 1,4 milljónir á RÚV, Sjónvarpi Símans og á Hringbraut. „Það hjálpaði okkur að það var vinur Biblíufélagsins sem sá um gerð myndbandsins og sjálfboðaliðar sem komu að gerð þess. Þar að auki var hægt að fá virkilega hagstæð auglýsingatilboð á þessum Covid-19-tímum,“ segir hann. Það var Þorleifur Einarsson sem leikstýrði og útbjó myndbandið.

Elsta félag á Íslandi

Hið íslenska biblíufélag er elsta félag á Íslandi, stofnað 1816. Markmið þess er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar. HÍB er samtök fólks úr öllum kirkjudeildum og kristnum trúfélögum. Grétar segir að í félaginu séu nú um 1.200, einstaklingar og fyrirtæki. Félagsgjald er þrjú þúsund krónur á ári.

Leita að bakhjörlum

Biblíufélagið leitar nú að fjárhagslegum bakhjörlum til að styðja starfsemina. Býðst fólki að greiða 1.000 krónur á mánuði, eða meira, til að styðja við starf félagsins. Samhliða auglýsingum hófst úthringingarátak til að safna bakhjörlum. Grétar segir að það hafi tafist örlítið vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við munum á komandi vikum hringja í alla félagsmenn Biblíufélagsins og bjóða þeim að gerast bakhjarlar. En allir sem hafa áhuga geta skráð sig á vefnum biblian.is og munu þá fá símhringingu,“ segir hann.

Grétar segir að hefðbundið söfnunarátak, svo sem árlegar páskasafnanir Biblíufélagsins, hafi verið orðið mjög óhagstætt. „Það kostaði allt upp í 800.000 kr. að útbúa gíróseðla og senda í bréfpósti og við sáum að sú leið var ekki lengur sjálfbær. Við vildum því bæði fara nýjar leiðir í fjáröflun og kynna fólki í leiðinni hvað væri að frétta af Biblíunni og Biblíufélaginu,“ segir hann.

Mjög jákvæð viðbrögð

„Þau sem hafa styrkt félagið frá degi til dags hingað til eru fyrst og fremst einstaklingar í landinu sem þykir vænt um Biblíuna. Þannig hljóðrituðum við Nýja testamentið allt fyrir ári til notkunar í snjalltækjum og tölvum og var það hópfjármagnað með söfnun á Karolina fund. En við fáum líka drjúgan stuðning frá kirkjum í landinu sem vita að starfsemi Biblíufélagsins skiptir máli. Á liðnum árum hafa kirkjur og kristnir söfnuðir verið að veita á milli 2-3 milljónir í starfsemi okkar á árlega,“ segir Grétar.

Meira en fimmtán þúsund manns hafa hlaðið niður í síma sína sérstöku Biblíuappi og náð í íslensku Biblíuþýðinguna. Grétar segir að margir hlusti líka á Nýja testamentið á appinu, en aðrir á biblían.is eða á Storytel.

„Við erum elsta starfandi félag á Íslandi,“ segir Grétar, „en með okkur er nú ferskur kraftur og við finnum fyrir miklum meðbyr. Viðbrögðin við auglýsingunni hafa verið vægast sagt jákvæð,“ segir hann.