Greitt 584 sjóðfélagalán voru greidd upp í mars síðastliðnum.
Greitt 584 sjóðfélagalán voru greidd upp í mars síðastliðnum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga námu ríflega 6,6 milljörðum í marsmánuði. Er það ívið meira en í sama mánuði í fyrra þegar útlánin námu 5,7 milljörðum.

Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga námu ríflega 6,6 milljörðum í marsmánuði. Er það ívið meira en í sama mánuði í fyrra þegar útlánin námu 5,7 milljörðum. Það sem af er ári nema útlánin 25,7 milljörðum, sem er 3,5 milljörðum meira en lánað var út fyrstu þrjá mánuði ársins 2019. Athygli vekur að verðtryggð útlán sækja meira í sig veðrið en óverðtryggð og nam hlutdeild þeirra í marsmánuði tæplega 61% samanborið við 55% í fyrra. Þegar litið er yfir fyrsta fjórðung þessa árs er hlutdeild verðtryggðra lána ríflega 58% en var 52% yfir sama tímabil í fyrra.

Heildarfjöldi útistandandi sjóðfélagalána stendur nú í 40.565 og fjölgaði þeim um 118 milli mánaða. Ný útlán voru hins vegar 702 og því hafa 584 lán verið greidd upp milli mánaða.

Eignir sjóðanna aukast á ný

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu 4.950 milljörðum króna í lok mars og hækkuðu um 30,7 milljarða króna. Eignirnar hafa aldrei verið jafn miklar í bókum sjóðanna og í lok janúar síðastliðins, þegar þær námu ríflega 5.000 milljörðum króna. Innlendar eignir sjóðanna drógust saman um 2,6 milljarða milli febrúar og marsmánaðar en erlendar eignir jukust hins vegar um 33,3 milljarða og hefur þar veiking krónunnar vegið þungt. Þannig jukust innlán í erlendum innlánsstofnunum um 11,2 milljarða og erlend útlán og markaðsverðbréf jukust um 21,6 milljarða að verðgildi. ses@mbl.is